blog... the modern person's cry for attention

mánudagur, september 24, 2007

Mig langar að það komi snjór. Eftir allt gráviðrið og hlýindin seinasta vetur, er mig farið að lengja eftir almennilegum vetri með kulda og fannfergi. Það væri svo hyggeligt.

mánudagur, september 17, 2007

Það kom að því í dag sem ég hef óttast síðan að ég flutti hingað inn. Ég gekk út og skellti á eftir mér án þess að taka lyklana með. Hurðin skellur í lás, sjáiði til. Á Brigadevej var ég sífellt að snúa við til að athuga hvort ég hefði læst á eftir mér, og hér er ég alltaf að fullvissa mig um að ég sé með húslyklana á mér þegar ég loka á eftir mér. En ég gleymdi því semsagt í dag. Ég var ekki fyrr komin út á götu fyrr en hinn hryllilegi sannleikur helltist yfir mig eins og ískalt vatn úr fötu, og ég greip í örvæntingu í dyrahúninn og hristi hann, eins og það breytti einhverju. Til allrar hamingju komu nágrannarnir aðvífandi mér til hjálpar, og það kom svo í ljós að formaður hússtjórnarinnar var með lykil að íbúðinni. Takk, heillastjarna. Það hefði nú ekki vantað annað en að ég læsti mig úti og þyrfti að láta að skipta um lás daginn áður en að Armen mætir á staðinn. Lyklasettið hans liggur nefnilega ofan á kommóðunni minni, skiljiði.

laugardagur, september 15, 2007

Það er allt of mikið rok. Liggur við að maður detti af hjólinu í látunum. Það versta er að húsin á móti og fyrir aftan mitt eru pökkuð inn í stillansa og plast, sem bæði ýla og hristast liðlangan daginn og enn lengri nóttina. Ég varð að loka glugganum í nótt af því að ég vaknaði við lætin. Svo er maður hálfbúinn á því eftir stuttan hjólatúr, og þegar maður loksins nær heim eftir hatramma baráttu við norðangjóluna, er varla annað hægt að gera en að liggja fyrir í klukkutíma eða svo. Til allrar hamingju þarf ég ekki að fara meira út í dag, ekki fyrr en í kvöld. Þá er ég að fara í bjórsmökkun hjá honum Uffe mínum. Hann er einn af nokkrum fráskildum vinum mínum. Stundum slær það mig að vandamál vina minna (og mín líka) eru öll af fullorðinstagi. Einn er fráskilinn, ein er kynskiptingur, ein gengur með tvíbura, sumar eru einstæðar mæður, og svo var ég nú að frétta í gær að ein vinkona mín hefði logið að alheiminum varðandi faðerni barns síns í mörg ár. Svei mér þá.

þriðjudagur, september 11, 2007

Aðeins um mig. Hér hefur ekkert verið skrifað lengi nema um Ungdómshúsið sáluga, og svo mikinn áhuga hef ég nú ekki á því.

Ofan í manager-titilinn minn er ég nú líka orðin booking chef, og vinn 15 tima á viku á Akademisk Rejsebureau. Í raun gæti ég vel verið í fullu starfi þarna, svo mikið er að gera og alltaf eitthvað nýtt að bætast við. Það liggur við að námið sé orðið því sem ég dunda mér við í frístundum! Ég er a.m.k. svo upptekin að mér finnst ég varla hafa tíma til að vaska upp eftir mig hérna heima og helst þyrfti öll matargerð að fara fram á innan við 15 mínútum. Ég hlakka til þegar kærastinn minn kemur, því honum finnst alveg jafngaman að elda og mér og er vís með að elda flestar máltíðir ofan í okkur. Já, hann er að koma ...eftir viku! Eftir nákvæmlega viku verður hann meira að segja búinn að vera hér í nokkra klukkutíma. Ég verð að fara að taka saman allt dótið mitt, sem ég er búin að breiða um 39 fermetrana.

Já, svo er ég líka kennari, tvisvar í viku. Í seinustu viku gleymdi ég reyndar hvenær við höfðum ákveðið að hafa tímana og mætti á vitlausum degi. Í dag kom ég hlaupandi inn, móð og másandi og bogaði af mér svitinn eftir að hafa hjólað á ljóshraða inn í bæ frá Nörrebro. Svo henti ég töflusvampinum nokkrum sinnum í gólfið og einu sinni í sjálfa mig og ataði krítarryki út um allt (ekki þó strax eftir að ég kom inn, heldur svona sem leið á tímann). Veit ekki hvað þessi grey strákur sem ég er að kenna að babla á rússnesku heldur um mig. En það er kannski bara viðeigandi að rússneskukennarar séu hálfklikk. Rússland er hvort sem er klikkað land.

fimmtudagur, september 06, 2007

Það eru rosa læti fyrir utan. Það eru nefnilega mótmæli, sjáiði til. Sextíu og níu mótmælagöngur hafa nú lagt af stað frá sextíu og níu mismunandi stöðum í borginni, allar frá húsum sem eru númer sextíu og níu. Ég fór út áðan til að kanna málið og sá svartklædda unglinga, löggur, plötusnúð að spila háa tónlist af vörubíl, venjulegt fólk og svo þrammaði þarna hjá minni ganga með Kommúnistafánann! Veit nú ekki alveg hvað það var. Ég vatt mér að miðaldra konu og spurði hvar mót-mótmælin væru. Fólkið á Nörrebro hefur nefnilega tekið sig saman og stofnað samtök á móti þessu Ungdomshússdæmi, þar sem að það kostar dýrt í brotnum rúðum, brunnum bílum og sprengdum ruslatunnum í hvert sinn sem unga fólkið kemur saman til að tjá reiði sína yfir hinu fallna húsi. Konan snéri sér að mér með glampa í augum og sagðist ekkert vita um það, en hinsvegar væru 69 mótmælagöngur á 69 mismunandi stöðum í borginni. Greinilega gamall góðkunningi Hússins heitna, og kannski löggunnar líka.

Mér gæti eiginlega ekki verið meira sama um þetta hús eins og komið er, og málstað þessa fólks. Ég held að því miður sé kominn tími til að horfast í augu við það að dönsk stjórnvöld eru ekki sömu góðhjörtuðu hipparnir sem gáfu æskunni þetta hús fyrir 26 árum, og að slík gullöld allsnægta og endalauss stuðnings frá kerfinu sé hreinlega liðinn hjá. Fyrir utan það að mér finnst vera hægt að nota peninga í margt þarfara en þetta hús, og hversu fáránlegt er það að mölva hálfa borgina yfir slíkum lúxus, þegar fólk í öðrum löndum er pyntað og drepið fyrir það eitt að gjóta augunum á ská en ekki niður í gólf. Það sem er allra fáránlegast í þessu máli er að unga fólkinu hefur tvisvar verið boðið nýtt hús, fyrst af einhverjum listasjóði, svo af eigendum verslanna á Nörrebro. Í bæði skiptin afþökkuðu grislingarnir af því að "það samræmdist ekki hugmyndafræði þeirra að einhver annar borgaði fyrir húsið en ríkið". Halló. Stjórnvöld hafa þvertekið fyrir að gefa þeim hús og nú eru nærri allir orðið á móti þeim. Hversu erfitt getur verið að skilja að málstaðurinn er tapaður?

Nú halda lesendur sjálfsagt að ég sé orðin forhert smáborgaralufsa. Svo er ekki. Ég er sossum ekki lengur það blóðheita unglamb sem ég var í den, og sjálfsagt leiðinlegri fyrir vikið. Mér finnst rangt að húsið hafi verið tekið af þeim til að byrja með, og mér finnst ekki að stjórnmálamenn eigi að reyna að breyta lífinu á Kristjaníu. Það er engin lífsnauðsyn að allir séu steyptir í sama mót. En ofbeldi og skemmdarverk af þessu tagi, þar sem heilum bæjarhlutum er nærri haldið í gíslingu yfir félagsmiðstöð...það er eiginlega einum of.

sunnudagur, september 02, 2007

Vistaskipti - frá Rónabæ til Gazasvæðisins ...eða þannig

Þá er ég flutt frá Amager í hverfi það sem kallast Norðurbrú, eða Nörrebro. Ykkur að segja eru það þvílík viðbrigði að búa í íbúð. Það er alveg frábært. T.d. sé ég ekki uppvaskið þegar ég sit inni í stofu, og er þarafleiðandi ekki að stressa mig eins mikið yfir því. Það er líka stórkostlegt að vakna inni í svefnherbergi og geta bara farið fram í eldhús og inn í stofu á náttfötunum, og þurfa ekki að draga frá inni í svefnherbergi fyrr en ég er búin að klæða mig. Þegar maður býr í einu herbergi þarf maður nefnilega að vera endalaust að draga frá og fyrir til að geta skipt um föt og svoleiðis.

Ég er strax búin að búa nokkuð vel í haginn fyrir okkur skötuhjúin, reyndar einhverjir pappakassar húkandi hér úti í horni og þeir verða að bíða þar um sinn, þar sem að það er smá vesen með geymslupláss. Armen kemur eftir 16 daga og þá göngum við endanlega frá, hengjum upp myndir og kaupum nýjan standlampa, þar sem að standlampinn minn virðist hafa eyðilagst í flutningunum.

Jæja, Annemette kom svo í heimsókn í gær og við ákváðum að kanna knæpur þessa bæjarhluta. Fyrst brugðum við okkur á Jolene, sem er hér rétt hjá og er í eigu tveggja íslenskra stelpna. Þar var alveg fínt, en ekkert svo mikið stuð, þannig að við ákváðum að halda áfram. En neinei, þegar við komum aftur út á Nörrebrogade mæta okkur blikkandi blá ljós og fyrirskipanir úr gjallarhorni. Þá voru blessaðir fjörkálfarnir úr Ungdomshúsinu heitna að halda upp á hálfs árs afmæli óeirðanna í mars. Nörrebrogade lokuð, víða bál á götunni og múgur og margmenni sem veittist að brynklæddum lögreglumönnum. Við tókum því á okkur krók til að komast á áfangastað, og almáttugur minn hvað það er óskemmtilegt að þramma svona á háum hælum. Á endanum komumst við þó framhjá óeirðunum, með því að fara í gegnum hliðargötur og garða, og enduðum á Barcelona í misjöfnum félagsskap. Um fjögurleytið fannst mér vera nóg komið og við ákváðum að halda heim á leið, og auðvitað voru lætin langt frá því búin. Okkur var varnað vegar af frekar dónalegum löggumanni, og þegar sprengingar tóku að hrista húsin í kringum okkur var okkur nóg boðið og við tókum til fótanna niður Stengade til að komast burt. Eftir að hafa vaðið bál og brand (án gríns) enduðum við því enn á ný að labba langa krókaleið til að komast heim, og litlu fótagreyin voru alveg búin í eftir þessa meðferð á háum hælum og támjóum skóm. Ég er semsagt flutt frá Rónabæ á Amager til svæðis sem í gær minnti mest á Gazasvæðið.