blog... the modern person's cry for attention

þriðjudagur, desember 28, 2004

Ammæli almæli amlæli lamlæli limlúlú lúlí lúlílei...

Ég á afmæli í dag!! Til hamingju með árin 24, Anna mín!
Langt síðan ég hef ávarpað sjálfa mig! Í bernsku minni vaknaði ég yfirleitt kát og hress á þessum degi en mánuði síðar vaknaði ég yfirleitt skælandi, þvi það var nefnilega afmælisdagur bróður míns. Mér fannst nefnilega svo mikið svindl að hann ætti afmæli svona stuttu á eftir mér, eða að hann ætti afmæli yfirleitt. Því fékk ég ævinlega sérköku og kórónu í afmælisveislunum hans, og öllum vinum hans fannst ég óþolandi. Æ, það var svo erfitt að vera barn. Enda finnst mér mun skemmtilegra að vera fullorðin og finnst það verða skemmtilegra og skemmtilegra með hverjum deginum sem líður.

Ég er búin að halda upp á daginn í dag með því að fara í sund með Böngu og Óskari, tókum nokkra hressilega spretti og sátum svo í pottinum í klukkutíma og ræddum helstu mál dagsins. Nú þarf ég að fara að skrifa ritgerð fram að kvöldmat og svo á að hitta my homegirls á Kaffi París klukkan átta. "Kaffi París", sögðu þær Bæjargilssystur í gær og supu hveljur af hneykslun á mér að velja svona lummulegan stað fyrir hitting, en sorrý, ég er bara svo útúr, við verðum þá bara að fara eitthvað annað eftir á ef hiti færist í leikinn.
Ég fór nefnilega í mat til Fjólu og Nonna í gær, þar voru þær Helga og Anna Hera einnig staddar, svo og ungur sonur Fjólu, sem ráfaði berfættur um með sín geysistóru bláu augu og nagaði dúkku. Þetta var hið ágætasta kvöld, Nonni bjó til rosa fínan mat og var svo í tiltektum mest alla heimsóknina, meðan við ungu konurnar skiptumst á slúðri og ég og Helga sögðum spennandi sögur úr einhleypingatilveru okkar. Ég komst að þeirri niðurstöðu að Helga væri líka sjöa eins og ég (í enneagramminu) og sennilega ein sú egósentríska manneskja sem ég hef kynnst, en á mjög skemmtilegan hátt, soldið eins og Robbie Williams. Life is about fun, fun and more fun...and me, me, me. Í henni hitti ég jafnvel ofjarl sjálfrar mín (minnar, mín, Tinna, hjálpaðu mér!!), en ég hef löngum talið sjálfa mig með egósentrískara fólki. Jæja, best að segja ekki meira um það, sjáumst í kvöld!!!

laugardagur, desember 25, 2004

Einu hef ég alveg gleymt að koma að í þessu Bobby Fischer æði hér á landi. Þegar ég var í St.P í seinustu viku, lenti ég alveg óvænt á djammi með syni Boris Spasskí (ekki djók), sem heitir líka Boris Spasski. Bara myndarpiltur, doldið í Fróðalúkkinu ( úfið hár og skeggrót, loðinn jakki af óskilgreindri gerð og brúnleitar buxur sem hefðu vel getað verið úr vaðsekk), nema ekki með þessi gígantísku augu sem hann þarna krútti er með. Boris Spasskí yngri gaf af sér góðan þokka, þungbrýndur og orðfár til að byrja með, en það léttist yfir honum eftir þvi sem veigarnar tóku að fljóta. Svo er hann alveg eins og snýttur út úr nös föður síns.

Annars vil ég óska öllum gleðilegra jóla.

föstudagur, desember 24, 2004

Framvinda dagsins

Er búin að eignast fartölvu...sem heitir Toshiba Amilo eitthvað. Eða svo segir Ernir kærastinn hennar Böngu. Allavegana, draumur síðustu ára loksins orðinn að raunveruleika, held að mig sé búið að langa í svona tæki síðan að þær byrjuðu að sýna sig í scifi myndum hér í denn. Nú get ég verið að msn og skypa alveg eins og vitlaus í litla kollegí herberginu mínu, neinei, íbúðinni. Eða jafnvel verið á einhverju dirtytalk spjalli við skvapaða og fituga nörda hinum megin á hnettinum. Skiptir náttúrulega engu máli hvernig þeir líta út í raun og veru, svo lengi sem þeir gefa sig út fyrir að vera hávaxin glæsimenni með breiða kjálka, stælta handleggi og a flair for dominance in bed.

Svo er ég bara að tapa mér yfir strúktúralisma og fúnksjónalisma í málvísindum. Ef mér tekst að skrifa þessa ritgerð og fá ekki falleinkunn, ætla ég að bjóða sjálfri mér upp á eitthvað flott. Ef ég fell á þessari ritgerð, sit ég uppi með himinháan yfirdrátt sem ég get verið að borga fram að þrítugu. Pray for me.

miðvikudagur, desember 22, 2004

´Ó þú ástkæra fósturjörð!!

Þá er ég komin heim, því miður í allt of stutta viðkomu og sit við ritgerðarundirbúninginn. Tók daginn snemma og keyrði mömmu í vinnuna og fór svo í Vesturbæjarlaugina og synti þar nokkra góða spretti undir svörtum vetrarhimni. Í kringum mig svömluðu röflandi gamlir kallar, sem eflaust eru mjög montnir af því hvað þeir eru duglegir að fara í laugarnar, þó að þeir geri ekkert annað þar en að troða marvaðann og kallast á milli brauta.
Lenti svo í ógó vandræðalegu þegar kom að því að keyra heim, gat ekki sett bílinn hennar Böngu í bakkgír og þurfti að fá einhvern kall til að hjálpa mér. Ég meina, hvernig átti ég að vita að það væri einhver leðurpungur á gírstönginni sem þyrfti að draga upp eins og hverja aðra forhúð?

Svo hitti ég litla frænda minn í gær. Sá var nú myndarlegur, yggldur á brún og svipþungur eins og Gvendur Jaki, gáfnasvipur á honum (eins og öllu okkar fólki, ójá). Þess má geta að drengurinn er eins mánaða, 58 sm og 6 kg.

Í kvöld er ég að fara í mat til Tinnu, og ætla að færa henni a little something sem ég keypti fyrir spottprís af honum bróður mínum. Hann kom nefnilega frá Ekvador með fullar töskur af ponsjóum, eyrnalokkum, hálsfestum og treflum og ég veit ekki hvað og hvað, allt æðislega flott og ég búin að kaupa helling af honum. Stelpur, ég mæli með að þið kíkjið á þennan varning - þetta er miklu flottara og ódýrara en það sem er úti í búð.

Verð að koma julefrokostskandalnum að. Auðvitað, auðvitað, auðvitað þurftum við Anne að fara í sleik. Það er svosem ekkert nýtt, enda okkar uppáhaldsiðja þegar komin er guðaveig í skál. Einhvern vill maður nú alltaf kyssa, og ég sé ekki betur en að það sé þá langbest að kyssa bara góða vinkonu, sem er falleg, gáfuð og skemmtileg og kyssir vel, frekar en að vera að taka endalausa sénsa með endalausum fávitum. Eina málið var að við hófum þetta langþráða kossaflens okkar (ekki komist í að kyssast í fjóra mánuði) fyrir framan alla kennarana, og meðan á þessu stóð hélt ég í höndina á Alexander, sem var í tilefni dagsins dragklæddur með Pókahontas hárkollu. Seinna heyrðum við að þetta föngulega þríeyki hefði valdið miklum heilabrotum hjá kennaratuskunum, og ekki skrýtið, þar sem við erum öll fremur alvarlegir og duglegir námsmenn, svona dagsdaglega. En við ákváðum (eftir miklar stunur og andköf yfir Makkahamborgurunum daginn eftir) að þeir yrðu bara að lifa með þessu áfalli enda varla í fyrsta sinn sem þeir verða vitni að slíku.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Ritgerdin er meiri vibbi en nokkurn hefdi orad fyrir. Um er ad raeda samanburd á hlutverkum semantíkur og syntaks í mismunandi málvísindakenningum, med udgangspunkt i den historisk komparative aera, med referater og tilknytning til historiske eventer, hvor det er muligt. Hvad er ad fólki?

Jaeja, en engu ad sídur er ég búin ad kaupa mér ógisslega flottan hvítan jakka og er eins og ljóshaerd J-Lo í honum.

mánudagur, desember 13, 2004

Vertu sæll, þú gaddfreðni Arkhangelsk!!

Mánudagsmorgunn, sit með blautt hár í sokkabuxum hér í svefnherbergi á fimmtu hæð á Prospekt Khudozhnikov í St.Pétursborg. Dvöl minni í Arkhangelsk er nú lokið, eftir þriggja og hálfs mánaðar ævintýri af ýmsu tagi.

Eiginlega gerðist svo margt seinustu dagana að það er varla hægt að segja frá því. Í stuttu máli sagt:
1. Hélt íslensk Litlu jól fyrir unga og aldna á laugardaginn með glæsibrag, er hæst ánægð með uppátækið.
2. Kvaddi Elenu með virktum á fimmtudaginn, á eftir að sakna hennar.
3. Fór á djammið í seinasta sinn í Arkhangelsk. Fórum á næturklúbb þar sem nærri allir gestir voru kvenkyns, utan fimm olíugljáandi gógódansara með sólgleraugu og jólasveinahúfur.
4. Komst að því að Ethan, sem var búinn að grenja utan í mér og segjast ekki getað lifað án mín, er giftur og á litla stelpu. Aumingjar og mellur allir upp til hópa.

Sjáumst á föstudaginn, kæra Danmörk, og á þriðjudaginn í næstu viku, þú ástkæra fósturjörð!

miðvikudagur, desember 08, 2004

Ef að ég fer ekki á skauta í kvöld er ég að spá í að taka einn eróbikktíma hjá Afródítu, bara svona razovyi abonemént. Aldrei að vita nema saxist á keppinn af því.

Baaahh. Helst vil ég sleppa við að hitta sumt fólk áður en ég yfirgef bæinn, en þetta vissa fólk er alltaf að senda mér aumingjaleg sms um týndar prinsessur. Ég held eiginlega að ég þurfi að reyna að hætta að vera alltaf kammó og imødekommende. Það hefur því miður oft meira en tilætluð áhrif. Áramótaheitið verður því "Work your inner Iceprincess".

Næstsíðasti dagurinn í vinnunni! Undarleg tilfinning það...svo er bara að reyna að græja einhverja kúl vinnu í Danmörku eftir áramót, ætli ég endi ekki samt í uppvaskinu eða ellibelgjabransanum fyrst um sinn. Mér er svo sem sama, bara ef ég enda í einhverju almennilegu þar sem hæfileikar mínir eru metnir (til fjár) og ég get verið á háhæluðum skóm með varalit að reyta af mér gullkornin, helst á öllum fimm tungumálum í senn.

Það eina sem er eftir hér í Arkhangelsk er að halda íslensk litlujól á laugardaginn í Gostiny Dvor. Ég er búin að vera að undirbúa mig fyrir kynninguna sem ég á að halda og við þá vinnu hef ég rifjað upp kynni mín af íslenskri þjóðsagnahefð og furðufyrirbærum. Ég hef svo komist að þeirri niðurstöðu að við Íslendingar séum með grimmlyndari þjóðum. Hverjum dettur svosem í hug að finna upp á allskyns skrímslum, eins og Grýlu og jólakettinum (sem er fyrirbæri
i sérklassa) til að hræða fólk til hlýðni og iðjusemi? Og yfirleitt var þetta vesalings fólk sem verið var að hræða, langt undir lögaldri, og ekki má gleyma þeim sið að tjóðra smábörn við rúmstokkana og þau skilin eftir daglangt meðan heimilisfólk var við vinnu úti á túni. Það hefur svo leitt af sér lífsvarandi áfall, sem aftur leiddi til grimmdarlegrar og harðneskjulegrar framkomu við börn, í Alice Miller fílingnum: "Enginn hjálpaði mér þegar ég var lítil/l, svo ég sé enga ástæðu til að vera að hjálpa þér."
Hinsvegar má rökfæra þennan hluta menningar okkar með því að í gamla daga urðu hreinlega allir að hjálpast að og hvergi mátti á bregða, ef að átti að komast lífs af.
Ég hef sjálf oft verið kölluð beinskeitt, harðbrjósta eða jafnvel grimmlynd af frændum vorum Skandinövum, það er kannski þetta "ekki skal gráta Björn bónda, heldur safna liði og hefna" viðhorf og önnur álíka kaldranaleg, sem fylgja harðgerri þjóð vorri og mér þar með talinni.

Eitt sem ég hef líka tekið eftir, og velt fyrir mér, og það er blogggleði Íslendinga. Nú er svo komið að það skiptir varla nokkru máli hvaða orð er slegið inn á leitarvélarnar, alltaf kemur upp a.m.k. ein íslensk bloggsíða. Mér sýnist á öllu að annar hver Íslendingur bloggi, ef ekki allir.

Fyrst dró ég þá ályktun að við værum athyglissjúkasta og sjálfumglaðasta þjóð í heimi. Hvað geta þegnar þjóðar, sem telur 290.000, og hírist á gaddfreðnum móbita lengst norður í ballarhafi, haft svona mikið að segja hvorum öðrum? Svo spurði ég sjálfa mig af hverju ég væri að þessu. Jú, ég er yfirleitt ekki á Íslandi, og með því að skrifa blogg slepp ég við að skrifa endalaus meil og þurfa alltaf að vera að segja frá því hvað sé í fréttum. Þar að auki finnst mér gott að geta haldið íslenskunni almennilega við og svo hef ég einfaldlega mikla ánægju af því að segja frá og skrá sögu mína. Bloggið mitt er í rauninni nokkurs konar farandsannáll. Því má velta fyrir sér, hvort bloggið sé fyrir Íslendingum það sem þjóðsögur og farandssögur voru í gamla daga, nú köllum við jú okkur bókaþjóð og sagnaþjóð. Íslendingar hafa alltaf verið vitlausir í að segja sögur og fara með þulur eða syngja, svo kannski er þetta bara nútímaútgáfan af því. Og pínu sjálfumgleði.

Að öllu gamni slepptu vil ég skora á íslenska félagsfræðinga að hefja ítarlega rannsókn á bloggvirkni Íslendinga, og svo þyrfti helst að skrifa nokkrar bækur um þjóðfélagslegar ástæður og afleiðingar þessarar kjaftagleði landans.

sunnudagur, desember 05, 2004

Business Class

Var að koma heim til Arkhangelsk úr fyrsta business trippi lífs míns, hef ekki gert annað en að raða í mig ókeypis mat og liggja á business class síðan á fimmtudaginn. Það er deginum ljósara að ég þarf að næla mér í fastráðningu í svona vinnu sem fyrst.

Mín var semsagt send til Petrozavodsk að segja Rússum frá landi voru og þjóð. Þetta var allt voða gaman og huggulegt og bara ágætis mannskapur sem á að spreða í praktík um öll Norðurlöndin. Fólki þótti áhugavert að heyra um Ísland, sérstaklega um íslenska karlmenn sem taka til og elda og um landadrykkju íslenskra unglinga. Ég fitjaði nú ekki upp á því umræðuefni sjálf, þarna var staddur maður sem var á leiðinni til Íslands og hann hafði frétt af þessu einhvern veginn.
Svo fórum við Henriette (praktíkantinn frá Murmansk, dönsk stelpa) út um kvöldið og fórum á pubcrawl með norskri stelpu sem heitir Jórunn og kennir norsku í Petrozavodsk. það verður að segjast eins og er að barirnir í Petrozavodsk eru ekki mikið til að hrópa húrra fyrir, af einskærri þrjósku kneyfuðum við þó ölið til morguns og fórum svo heim á hótel og drukkum bjór inn á herberginu mínu, þar til við lognuðumst út af við undirleik rússneska mtv. Þar afleiðandi hef ég einungis séð hinn góða bæ Petrozavodsk í myrkri, því ekki lufsuðumst við á fætur fyrr en hálfsex um kveldið.

Nú er ein vika eftir hér í bæ, tæpar tvær til heimferðar. Get enn náð að bæta á mig nokkrum kílóum.