blog... the modern person's cry for attention

sunnudagur, júlí 23, 2006

Var að tala í símann við Armen, og þá ropaði hann bara í tólið. Svo huggulegur þessi elska.

laugardagur, júlí 22, 2006

Hvernig stendur á því að alltaf þegar ég tek mig til og ætla að fara að hringja í fjölskyldu og vini víðsvegar um heim, þá er ekki nokkur lifandi sála heima?

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Mér finnst ég oft vera hryllilega vitlaus og yfirborðsleg. Sérstaklega þar sem að tími minn að lokum vinnudags fer yfirleitt í húsverk, fegrun/þjálfun líkama míns eða heiladauða fyrir framan sjónvarpið. Þegar ég hitti vini mína er gjarnan lyft glasi og ekki batnar heilatuðrunni við það, jafnvel þótt glösin séu bara eitt eða tvö. Stundum er ég þó að lesa, það er ágætt. Það er bara svo mikið í gangi alltaf hreint, sérstaklega á veturna, að mér finnst eiginlega bara gott að setja heilann í smá frí á sumrin. Reyndar krefur gamlingjavinnan sinn toll og heimtar að félagshæfni og útsmoginn hugsunarháttur sé á sínum stað, svo kannski er gamli Gráni ekkert svo slappur þegar allt kemur til alls.

mánudagur, júlí 17, 2006

Er ég virkilega að verða blönk aftur? Mér finnst ég hafa staðið á barmi blankheitanna í marga mánuði og nú er sem ég færist nær hyldýpinu. Helvítis Comfort Care, látið mig fá meiri vinnu.

Stokkhólmur, takk fyrir að vera fallegur. Eða falleg? Ingibjörg, takk fyrir að vera skemmtileg og frábær systir. Það var gaman að koma í heimsókn til þín.

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Nú er ég búin að hjóla þrjátíu kílómetra á dag í meira en viku og geri aðrir betur. Á morgun þarf ég hins vegar ekki að fara á fætur klukkan sex, því á morgun byrjar fjögurra daga frí og klukkan hálfeitt setjumst við Armen upp í lest og ökum til höfuðborgar Svíþjóðar til hennar Ingibjargar systur minnar. Sem er ekki hægt að ná í og ég skil ekkert hvað er í gangi.

sunnudagur, júlí 09, 2006

Hér eru nokkrar myndir frá Hróarskeldu. Þar sem að Blogger er viðkvæmt grey er best að setja ekki inn of margar myndir í einu. Fyrst gefur að líta unglambið Hallgerði sem var viti sínu fjær á fyrstu Hróarskelduhátíðinni sinni, og við hlið hennar stendur stóra systir sem var leiðinlega ábyrgðarfull og edrú við myndatökuna.






Hallgerður og Sigga vinkona hennar, sem var einnig vitstola þetta kvöld.


Önnur mynd af litla lambinu, eða sólargeislanum eins og mamma og Gunnar kalla hana gjarnan.



Armen kallinn að bíða í röðinni á sunnudeginum fyrir hátíðina.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Ég var ekki ein um það að fá mannaskít á skótau mitt á þessari Hróarskelduhátíð. Auðvitað kom það ekki í ljós fyrr en að stígvélin höfðu staðið inni í tjaldi í nokkra klukkutíma og anganin því slík að við sannfærðumst um að fávitarnir við hliðina á hefðu skitið í tjaldið okkar (af því að ég öskraði á þá að þegja og kastaði bjórflösku í áttina að þeim kvöldið áður) í hefndarskyni. Vissulega sá ég eftir að hafa kastað flöskunni og þakkaði Guði fyrir að hún skyldi ekki hafa hitt neitt eða neinn, en að kúka í tjaldið þótti okkur heldur grimmdarleg hefnd. Hið rétta kom svo fljótlega á daginn eftir að við höfðum leitað með vasaljósi að hlöllanum í smástund.

Hróarskelda gekk vel fyrir sig fyrir utan að snyrtitöskunni minni og sólgleraugunum var stolið, annars var veðrið gott og allir í góðu skapi. Morrisey var sætur og hálfber að ofan á sviðinu, heilsað var upp á gamla og nýja vini og kunningja og ég lærði að baka franskar pönnsur með svona T-pinna. Einnig var tekinn sundsprettur í þar til gerðri tjörn við tjaldsvæðið, eldað með prímus og drukkið fernuvín og allt var eins og vera bar. Hallgerður systir mín var þarna einnig í fríðu föruneyti. Hún og Sigga vinkona hennar minntu helst á ungkvígur á björtum vordegi, svo gaman þótti þeim að vera á Hróarskeldu. Myndir verða settar inn við fyrsta tækifæri.