blog... the modern person's cry for attention

þriðjudagur, janúar 31, 2006

Hreysihrey. Það er alltaf svo mikið að gera hjá mér að þegar loksins kemur eyða í æsilega dagskrá, þá er ég sem barn í blundi, eins og Kristjana myndi kannski segja. Réttara sagt eins og tröll á heiðríkju og veit ekki hvað ég á af mér að gera. Annars er ég búin að reikna það út að þetta TA dæmi er farið að vinda heilmikið upp á sig, og mig grunar að ég sé oft að föndra við ýmis smáatriði sem engum hefði komið til hugar að nefna með nafni áður en að TA-hlutverkið kom til skjalanna. En fyrir þetta vilja menn borga mér og ekki fer ég að kvarta yfir því.

Hjólgreyið mitt var ólæst, þegar ég loksins tuðraðist inn að Öresundskollegíi til að ná í það í dag. Það er semsagt búið að standa þar ólæst í nærri fimm daga. Þetta er víst það sem fjölmiðlar myndu kalla "mikla mildi að ekki fór verr".

sunnudagur, janúar 29, 2006

Hvílík dýrðarinnar dásemdar helgi. Ég hef legið í leti alla helgina og varla hreyft hönd né fót né komið að nokkru skynsamlegu eða þörfu verki. Yndislegt alveg hreint.

Á fimmtudaginn fór ég út að borða með bókasafnsliðinu og var að verða vel snapp á einum vinnufélaga mínum, sem er besta skinn en talar óhugnalega hátt og í sífellu. Og gjarnan um leiðinlega hluti eins og Gettysburg háskóla eða einhverjar byggingar sem hún er æst í að sjá. Eða þá um löngu dauða ameríska forseta og hvenær þeim þóknaðist að hrökkva upp af. Eftir fínan dinner á víetnömskum veitingastað sem er mjög nálægt mínum fyrri híbýlum á Frederiksberg (fæ btw alltaf hroll þegar ég kem í þetta hverfi og þykist viss um að Peter Gd... muni koma spígsporandi upp að mér og heimta greiðslu fyrir gólfið sem ég skemmdi), fórum við öll heim til Peters yfirbókasafnsleiðtoga og drukkum þar bjór/kaffi/rauðvín. Peter sýndi okkur leisersjó með Jean-Michel Jarre og við smáflissuðum yfir níunda áratugsstemningunni. Svo kepptum við Peter í lyftingum og hann lyfti 20 kílóum 25 sinnum og ég lyfti 20 kílóum 25 sinnum. Af því má leiða að mig vanti helming upp á við hann í kröftum, og takið eftir því að þessi maður er vel yfir einn og nítíu og í góðu formi.

Minnast má á þá skemmtilegu staðreynd að allir sem vinna á þessu bókasafni halda að ég og Brendan sem vinnur þar líka, séum að slá okkur upp, veit reyndar ekki alveg hvað hann heldur um þetta mál. Mér líkar þetta bara vel og spila á þessa almennu trú sem mest ég má, hlæ og skríki við hverju hans orði og brosi blítt þegar aðrir minnast á kauða. Gaman að hafa svona sögur í gangi. Eníveis, eftir dinnerinn fór ég að hitta Alexander á Öresundsbarnum og við munum víst ekki reka nef vor þar inn á næstunni. Anna litla fékk nefnilega þá góðu hugmynd eftir ótæpilegar veitingar sem einhver Peterinn enn keypti (okkur af ókunnum ástæðum) í stríðum straumum ofan í okkur tvö, að rétt fyrir lokun væri sniðugt að reyna að stela tveimur snakkpokum af barnum. Halta bardaman sem þar þjónar stökk á mig og sagði að nú skyldi ég hætta undir eins áður en hún hringdi á lögguna. Mér fannst þetta bara fyndið og tók þessu öllu með ró, skilaði snakkinu og sagðist vilja bíða eftir Alexander. Hann kom í þessu aðvífandi, tók mig undir arminn og lét nokkur vel valin orð falla á æstan lýðinn og svo stungum við af. Reyndar náði ég til allrar hamingju að útskýra kjánaháttinn í mér fyrir Ingó (skemmtiráð í MH og very serious crush fyrir 14 árum, ójá) og vonandi fáum við að koma þangað aftur ...í vor einhvern tíma. Það fyndna var að ég var mjög settlega klædd, í svörtu plíseruðu pilsi, svartri blússu og svörtum háhæluðum stígvélum, og til að kóróna lúkkið með svart hárband og demantseyrnalokka. Og hagaði mér svo eins og vitlaus sjóari.

Jæja. Jeremías minn. Og svo bara mánudagur á morgun, og skólinn að byrja í næstu viku. Allamalla.

miðvikudagur, janúar 25, 2006

Á morgun klukkan sex lýkur einni lengstu vinnutörn seinni ára. Já, ég veit að ég er alltaf að tuða um þetta, en mér finnst ég hafa ærna ástæðu til. Á morgun klukkan sex getum við lokað bókakjallaranum og híað á þau krakkagrey sem ekki sækja bókapokana sína fyrir þann tíma, og svo farið upp á bókasafn og opnað hvítvínsflösku. Það seinasta hefur nú verið gert ansi oft finnst mér upp á það seinasta. Það er alveg sama hvert ég fer í vinnu, alltaf skal vera eitthvað voða mikið sull á fólki þar. Jæja, eftir welcome drink og spjall förum við að borða á víetnömskum veitingastað í boði DIS. Það er nefnilega svo gott að vinna á DIS. Endalausir free dinners and drinks. Ekkert svoleiðis í hjemmeplejen, þar er bara skítur og skömm. GUÐ, hvað ég hlakka til þess dags þegar ég get endanlega lagt þetta gamlingjakjaftæði á hilluna.

Eftir dinnerinn er aldrei að vita nema ég kíki á barinn með Alexander og á föstudeginum á ég von á skemmtilegri heimsókn. Fram að þessari dýrð allri er ekki annað að gera en að bíta á jaxlinn, mæta í vinnuna á eftir, í fyrramálið og seinnipartinn og láta sig hafa það að labba um í snjónum. Lásinn á hjólinu mínu bilaði nefnilega í dag og ekki er til peningur til að kaupa nýjan fyrr en á morgun. Takktakk.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

PBB

Þetta er náttúrulega að verða Pathetic Beyond Belief. Hvernig stendur á því að ég er alltaf heima hjá mér að horfa á helvítis TopModel. Nú kláraðist fjórða serían í gær og hér sit ég eins og hver annar vitavörður og horfi á fyrsta þáttinn í fimmtu seríunni. Ef að skólinn væri byrjaður væri hægt að læra. Ef ég þyrfti ekki allltaf að vera að vinna gæti ég farið að djamma. Ef ég ætti pening gæti ég farið í bíó. Það eru ekkert nema endalaus ef. En eitt er víst, og það er ekkert ef, þetta blessaða sjónvarp virðist vera orðið minn fasti lífsförunautur.

Mjá og urr

Endalaus ljón í mínum draumum...

mánudagur, janúar 23, 2006

Núna er ég eins og strákur við tölvuna á nærbuxum og bol. Eini munurinn er að þeir eru yfirleitt í boxers og stuttermabol, en ég er í næfurþunnri dulu frá Change og einhverju álíka nettu að ofan. Úti er brjálæðislegur kuldi og innistæðan á reikningnum mínum 62 krónur, netop. Hinsvegar ætti ég með öllu réttu að fá útborgað á fimmtudaginn og svo þriðjudag í næstu viku, það verður æði. Þoli hreinlega ekki þessi fáránlegu janúarblankheit.

Svo hlýtur seinasti Topmodel þátturinn að vera í kvöld, og kemur þá í ljós hver fær 100.00 dolllara samning hjá Covergirl, tískumyndaþátt í Elle undir öruggri handleiðslu hins víðfræga tískuljósmyndara Gilles Bensimone, og eitthvað eitt enn sem ég man ekki í svipinn. Keenya, Kahlen eða Naima? Ég veðja á Kahlen eða Naimu, Keenya er orðin allt of feit og hvort sem er alger egóisti og frekja.

sunnudagur, janúar 22, 2006

Úff úff. Mig dreymir ekkert nema semí-freudiska drauma þessa dagana, eða kannski bara freudiska drauma. Var að vakna frá einum sem endaði á dökkleitum mönnum sem vildu drepa mig með hnífum.

Það er þáttur um Íslendinga og íslenska álfatrú í sjónvarpinu. Af honum að dæma mætti halda að allir landsmenn séu eilíflega úti í móa að hlusta á blómin og steinana, eða þá að anda að sér eldfjallaösku og drekka jöklavatn til að halda orkuflæðinu við.

Ég er búin að vinna og vinna og vinna, og þeytast um allt Amager til að stjana við gamla rugludalla, og fékk svo í hausinn af einni kellingunni að ég væri köld í viðmóti og með ónotalega rödd. Ég fór eiginlega bara að hlæja, orðið mjög langt síðan ég heyrði þetta seinast. Stundum veit ég ekki við hverju þetta fólk er að búast - er ekki alveg nóg að maður sé kurteis og vinalegur, sem ég veit ekki betur en að ég sé? Sérstaklega þegar ég er að koma sem afleysingamanneskja í smástund heima hjá hverjum gamlingja, fyrir utan það að ég get ekki staðið í því að ná einhverju trúnaðarvinastigi við hvern og einn. Jæja, næstu helgi ætla ég að taka þriggja daga frí. Það verður nú aldeilis indælt.

laugardagur, janúar 21, 2006

Ég er sterklega að hugleiða að hætta að borða rautt kjöt. Þetta er greinilega ekki að gera sig fyrir mig. Í augnablikinu líður mér eins og ég hafi innbyrt tólf kíló af steinsteypu.

Annars er það í fréttum að tíu sentimetrar af snjó fara vaxandi á götum Kaupmannahafnar og gera má ráð fyrir að að Fogh lýsi yfir neyðarástandi á morgun.

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Hvert ætlar heimurinn? Maður bara spyr sig í forundran.

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Til tannlæknis skal farið ekki seinna en í febrúar og alls ekki seinna en í mars. ég komst að því í dag að skoðun og hreinsun kostar ekki meira en 276 krónur. Ég átti von á miklu meira. Svo á auðvitað eftir að koma í ljós hvað þarf að laga þarna í skoltinum á mér, alveg ljóst að það þarf að gera eitthvað við dökku tennurnar en vonandi þarf ekki að fara að skera úr mér endajaxlana. Það er ég hræddari við en sjálfan andskotann. Jæja ég ætla að DRULLA mér til að strauja fötin sem eru búin að liggja hér í viku. Alexander er að koma í bjúgu og Topmodel á eftir.

Hversu eðlilegt er það fyrir 25 ára gamla manneskju að dotta sitjandi fyrir framan kassann á hverju einasta kveldi? Höfuðið sígur niður á bringu, hakan lafir og slefið lekur niður á peysukragann. Svona hafa veggir þessa herbergis mátt horfa upp á mig á hverju kvöldi það sem af er þessa árs. Það vantar bara prjónateppi um litlu fæturna, sem auðvitað ættu að vera klæddir í stötteströmper en ekki einhverjar ósamstæðar svartar lufsur innan úr skáp, og svo gleraugu fremst á nefinu og gerfitennurnar að skakklappast út úr munninum.
Vonandi lagast þetta þegar skólinn byrjar og ég mun hafa eitthvað að gera eftir vinnu en að sofna fyrir framan sjónvarpið og þess á milli hanga á messenger eins og eitthvað algert desperadó. Þetta er náttúrulega sorglegt.

sunnudagur, janúar 15, 2006

Ég meika ekki þetta fólk hér á ganginum. Þegar maður flytur inn, er þetta að drepast úr yfirborðsvingjarnlegheitum, og um leið og í ljós kemur að maður er ekki af sama tagi og og þau, er ekkert nema kuldi og fyrirlitning, liggur við. Ekki það að félagsskapur þeirra sé mér svo ógurlega dýrmætur, en það er samt sem áður óþarfi að vera alltaf á svipinn eins og tilvera mín sé hrein móðgun við þeirra púkalega danska klíkuskap. Stundum finnst mér Danir vera óvingjarnlegasta þjóð í heimi.

laugardagur, janúar 14, 2006

Ég er búin að fatta að það er blessaður bjórinn og vínið og hinir vinir þeirra sem valda mestri fitun hjá mér. Ef ég drekk ekki get ég borðað nokkurn veginn hvað sem ég vil. Allamalla.

Jæja, en burtséð frá ofangreindri nöturlegri staðreynd get ég sagt ykkur það að ég er búin að vinna á hverjum degi síðan ég kom aftur hingað til DK. Jafnvel eftir næturævintýri okkar Alexander hér á þriðjudeginum, skreið ég á lappir á miðvikudeginum upp úr ellefu og fór að vinna að ýmsu í starfi minu sem TA. Þetta eru allt í allt 11 dagar í trekk. Ókei, ekkert svo mikið enn sem komið er.

föstudagur, janúar 13, 2006

Þá hefur mér loksins tekist ætlunarverk mitt, sem var að pota mér betur inn á DIS. Nú er ég s.s. ekki bara Teaching Assistant, heldur líka Library Assistant, og mun starfa þar á hverjum þriðjudegi frá þrjú seinnipartinn til klukkan tíu á kvöldin. Vissulega ekki eins arðvænt eins og skeiningar og bleyjuskiptingar á kvöldvöktum, en mér er eiginlega alveg sama. Þetta er mikilvægur liður í framapoti mínu og tilraunum til að komast endanlega úr gamlingjabransanum.

Ég var að hringja í Anne og þykjast vera í öngum mínum svo að hún gæti sloppið frá miður skemmtilegum aðdáanda, sem hefur herjað á hana síðan seinasta sumar. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem ég hringi svona platsímtal. Alveg eins og í Nynne.

Hlakka til að byrja í skólanum, þar sem að alger heiladauði nálgast af sjónvarpsglápi og forheimskandi hegðun.

laugardagur, janúar 07, 2006

Það gekk ýmislegt hér á í nótt. Og þá á ég ekki við hér í minni kytru, ó nei. Á meðan ég barðist við að festa blund og bylti mér og sneri á alla kanta, dundu á mér óp og stunur, brestir og brak og þvíumlíkur hamagangur úr öllum áttum. Uppi hömuðust rúmfæturnir við að stappa í geysihröðum Riverdance fílingi meðan við hliðina á var skrækt og æjað sem væri himnaríki nærri. Reyndar var rólegi gaurinn við hliðina á mér ekki með nein læti, enda ekki við slíku að búast af manni sem hefur einu sinni heyrst hækka í I want to break free. Annarsstaðar í húsinu var partí og hækkað og lækkað í Madonnu á víxl. Svo fannst mér svei mér þá eins og þar byrjaði eitthvert erótískt samsæti líka. Og á meðan á þessu gekk, lá góða stúlkan í rúminu sínu, alein í bleikum náttkjól frá Lindex, og hnyklaði brúnir yfir ólátunum. En eiginlega fannst mér þetta fínt fyrir krakkana, ég var orðin hálfundrandi á að hafa búið hér í eitt og hálft ár og hafa aldrei nokkurn tímann heyrt neinn stunda kynlíf. Og var farin að vorkenna þessu liði, ykkur að segja.

Annars vann ég persónulegan sigur í nótt. Mér tókst loksins að fara að sofa í myrkri aftur. Í tæpt ár hef ég nefnilega sofið við lampa, þegar ég er ein þ.e.a.s., sökum myrkfælni, en nú virðist mér loksins hafa tekist að trúa því að það séu ekki draugar og skrímsli hér í íbúðinni um leið og slökkt er á öllum ljósum. Til hamingju, Anna mín.

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Top Model er bara í sjónvarpinu á hverju kveldi!! Það á nú aldeilis vel við mig. Enda er ekki til peningur fyrir öðru. Alltaf SVO gaman þegar maður tekur út pening utanlands og færslan kemur ekki inn fyrr en seinna og rústar öllum fjárhag manns. Það er alveg frábært, unaður hreinlega. Núna á ég eiginlega engan pening.

Ójá. Ég er búin að vera veik heima í dag, þó á fótum og byrjaði að vinna að ritgerðinni litlu sem á að skila í næstu viku. Merkilegt hvað ritgerðaskrif koma af stað miklu stressi hjá manneskju sem hefur verið í skóla alla ævi. Ég rúlla þessu nú samt upp, held ég bara.
Svo vona ég að einhver taki sig saman í andlitinu og láti gera við græjunar niðri í leikfimisal. Ég er orðin svoldið þreytt á honum Stevi eWonder kallinum, en hann er búinn að vera fastur í græjunum allt, alltof lengi.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Goodie goodie!! Topmodel í sjónvarpinu á eftir!! Ég átti reyndar að hitta gamle Ivan í kvöld, en hann lætur ekki heyra frá sér enn sem komið er. Maðurinn er alltaf að biðja mig um að hitta sig og svo þegir hann bara þunnu hljóði. Hvernig á að skilja þetta?

Jæja, voða fínt að vera komin aftur inn á DIS eftir jólafríið, ég er búin að ljósrita, líma og raða og takast að búa til paperjam í ljósritunarvélinni þó nokkrum sinnum. En ég kann að laga slík apparöt og læt því ekki svona lagað á mig fá. Svo fékk ég jólagjöfina mína frá DIS. Það var dýrindis servereringskål frá GEORG JENSEN!! og ég fór strax að ímynda mér þessa skál fulla af maríneruðum ólívum, í góðum félagsskap glitrandi rauðvíns og dýrindis hvítu brauði...Allt slíkt verður þó að bíða þar til að átakið sem ég þykist vera í er búið.

Jæja, Íbbi hafði sig í að hringja og ætla ég að hitta hann á krá þeirri er kennd er við Niels Juhl í Holbergsgade. Sumir muna nú kannski eftir þeirri búllu. En ég fer ekki héðan fyrr en ég er búin að heilsa upp á Tyru og gellurnar!

mánudagur, janúar 02, 2006

Þá er ég komin aftur heim í gráan og nöturlegan hversdagsleika lífs míns. Var rétt í þessu að skoða bréfapóstinn, og þar var m.a. bréf frá SU-styrelsen, þar sem var útlistað fyrir mér í nákvæmum smáatriðum, hvers vegna ég hefði ekki rétt á SU og mætti í rauninni bara éta það sem úti frysi fyrir þeim. Einnig beið mín lítið rukkunarbréf út af einhverju frímerkjarugli, svo og þriðja skattkortssettið. Veit ekki alveg lengur hvað ég á að velja.

Jæja, en það þýðir víst lítið annað en að takast á við þetta líf, eftir að hafa eytt þrettán dögum í sælufaðmi fjölskyldunnar. Ágætt var hinsvegar að innistæðan á reikningnum mínum var dulítið hærri en ég bjóst við og því ekki allt slæmt í stöðunni. Nú ætla ég út í hann Nettó minn og kaupa inn.