blog... the modern person's cry for attention

þriðjudagur, maí 30, 2006

Aukafrétt - ég er búin að skaffa mér vinnu í Pönnukökuhúsinu (var það ekki þar sem nornin bjó í Hans og Grétu?) á Hróarskeldu. Þar verður sjálfsagt hvorki norn né Hans ellegar Gréta, heldur franskar krepes pönnsur og chili con carne og annað þvílíkt. Og hún ég, ójájájá.
Roxette er í sjónvarpinu. Að syngja og spila lag sem er nákvæmlega eins og öll önnur Roxettelög, og söngkonan er enn með aflitað hár. Sumu fólki skilst greinilega ekki hvenær þeim ber að setjast í helgan stein.


Á morgun skila ég inn sextán blaðsíðum af snilld undir heitinu "Sprogforstyrrelser i Dobbeltgængeren og Kappen", og kemst þar með einu skrefi nær BA-gráðunni. Jibbíjei! Svo hoppa ég upp í rútu til Rostock að heimsækja hana Steffi mína. Á myndinni hér til vinstri má sjá okkur að reyna að vera krútt á nöprum vordegi í Kaupmannahöfn, fyrir u.þ.b. ári síðan. Þó við séum orðnar gamlar og ráðsettar (lesist "hundleiðinlegar") miðað við óskapnaðinn sem gekk hér á í den, er aldrei að vita nema okkur takist að lyfta okkur dulítið upp. Og í þetta sinn skal mér takast að komast með bölvaðri rútunni!!

mánudagur, maí 29, 2006

Í gær var sögulegur dagur. Hverju sætir það, spyrja lesendur þá og klóra sér kannski undrandi í kollinum? Jú, í gær gerði ég nefnilega ekki neitt, a.m.k. ekki neitt sem fól í sér praktískan tilgang. Allur dagurinn fór í það að sofa, liggja vakandi í rúminu, horfa á sjónvarpið, borða akfeita pítsu og fletta í dömublaði. Þegar ég loksins kom heim til mín (aðgerðaleysið fór fram í nýjum híbýlum Armens, Socialt Kollegium hér lengra úti á Amager), var dugnaðurinn ekki meiri en svo að mér tækist að fara í sturtu, hringja í Nönnu og svo horfa á Notting Hill og borða ís með því. Jú, reyndar lakkaði ég á mér neglurnar, en það má deila um praktískan tilgang þeirrar athafnar. Mikið var lekkert að gera svona ekki neitt.

laugardagur, maí 27, 2006

Tölvan mín kæra er fjarverandi og ég hef varla unnið eina einustu vakt í tvær vikur. Svona 'oplana[ fr'i u see. Veit sko ekki alveg hva] er gerast med takkabor[i[.

miðvikudagur, maí 24, 2006

Til hamingju Óskar og Belen!

Bróðir okkar systranna, það er að segja hann Óskar, er að fara að gifta sig eftir...minna en viku! Hin lukkulega brúður er frauka hans til margra ára, hún Belen María. Eins og þeim einum er lagið var þessi ákvörðun tekin og tilkynnt í skyndi, svo ég næ því miður ekki að koma og sjá þegar þau verða hneppt saman. Er það ekki það sem maður segir? Almennileg veisla verður haldin einhvern tímann í sumar, og það getur víst ekki talist annað en ærið tilefni til að kaupa sér nýjan kjól, sem og flugmiða til gamla landsins. En hjartanlega til hamingju krakkar mínir, ef ég ætti mynd af ykkur á stafrænu formi yrði hún birt hér. En svo er ei, held reyndar að ég eigi enga mynd af ykkur saman yfirleitt.

Sjitt. Var að sjá að stúdentaskírteinið mitt rennur út níunda ágúst tvöþúsundogátta. Það er eins gott að maður verði kominn héðan út (úr háskólanum, altso) fyrir þann dag. Ef ég á að segja eins og er, þá vona ég líka að svo verði. Þann góða dag verð ég komin vel á tuttugasta og áttunda árið og búin að vera í háskóla í sex ár. Sem telst notabene ekki neitt hér í landi.

mánudagur, maí 22, 2006

Arg smarg. Af hverju þarf ég alltaf að velja mér abstrakt og flókin nörda-viðfangsefni þegar ég á að skrifa ritgerð. Hví, ó hví? Svarið við þeirri spurningu er sennilega: "Einu sinni nörd, ávallt nörd."

Frétt dagsins er að í morgun voru settir upp stillansar fyrir utan gluggann minn. Það þýðir að allur friður er úti og ekki lengur hægt að valsa um klæðlaus eða stunda kynlíf fyrir frádregnum gardínum, þar sem að áhorfendur hafa nú færst nær en góðu hófi gegnir. Reyndar varð ég ekki vör við að maðurinn sem gekk fram og tilbaka framhjá glugganum mínum í morgun virti mig svo mikið sem viðlits. Hann hefur sjálfsagt séð allt sem hægt er að sjá í þessum bransa.

sunnudagur, maí 21, 2006

Úrslit Júróvisjón sanna það sem ég hef alltaf haldið fram, Evrópubúar hafa engan húmor fyrir neinu nema sjálfum sér. Því skal þetta ei rætt meir og í staðinn birtar hér nokkrar myndir af því sem hefur verið að gerast undanfarið. Hér má t.d. sjá okkur félagana að grilla og taka lagið. Þessi mynd var tekin meðan veðrið var gott. Það varði nú aldeilis ekki lengi, og núna er bara vibbi fyrir utan.























Unga fólkið í fullum partískrúða....

fimmtudagur, maí 18, 2006

ÚFF! Ég er búin að vera í HRIKALEGU skapi í allan dag, enda fátt betur til þess fallið að eyðileggja lundina en leiðinda málþing þar sem fólk blaðrar allan daginn og notar löng og merkileg orð. Ég sá það reyndar á leiðinni heim, þar sem ég rölti eins og lítið þrumuský í pilsi, að ein af aðalástæðunum fyrir fýlu minni var að ég hafði hlustað á annað fólk tala í allan dag og ekkert sagt sjálf. S.s., enginn hluti dagsins fyrir utan morguninn snérist um mig og það féll greinilega ekki í kramið hjá litla narkissistanum henni Önnu. Eníveis, það voru nú líka aðrar ástæður að baki fýlunnar miklu en ég nenni ekki að fara út í þær núna. Enda Lise komin yfir og engin ástæða til að vera í fýlu lengur.

Á morgun er Júróvisjón. Ég hef nú aldrei verið mikið fyrir þennan menningarviðburð gefin, en í ár er eitthvað sem heillar mig og vekur forvitni mína um hvernig þetta muni nú fara allt saman. Annað kvöld verður því safnast saman hjá Pawel Bartozsek ad Prags Boulevard númer eitthvað, og fylgst vandlega með keppninni. Hver veit nema ég detti bara alveg inn í þetta. Það má a.m.k. sjá fram á að dottið verði örlítið í það, enda veit ég ekki hvernig ætti að gera þetta öðruvísi. Armen verður víst fjarri góðu gamni, á einhverju arkitektafylleríi, og það þó ættjörð hans (eða þannig), Armenía, sé að fara að taka þátt í fyrsta sinn. Ég ræddi þetta við hann en litla föðurlandssvikaranum fannst mikilvægara að drekka ókeypis bjór og borða pizzu í boði DIS. Og hver getur láð saklausum Kana það? Ekki eins og maðurinn hafi nokkurn tíma heyrt um Júróvisjón talað fyrr en ég fór að nefna það um daginn. Hin menningarlega sinnaða kanadíska Lise ætlar þó að koma og horfa á sprellið, ásamt gliturdívunni Alexander Petrossov. Þetta verður stuð.

sunnudagur, maí 14, 2006

Mér þætti gaman að heyra ( eða kannski væri það ekkert svo gaman) hvað nágrannar mínir segja um mig. Þeir hljóta að halda að ég sé léttrugluð, a.m.k. þekki ég engan annan sem hlustar á sömu Destiny's Child lögin hátt - og aftur og aftur. Svo er fólkið í húsinu á móti búið að sjá mig og held ég bara alla þá karlmenn sem ég hef átt nánari kynni hér inni nakin. Ég nenni nefnilega oft ekkert að draga fyrir þegar verið er að spranga um í fæðingargallanum, þá verður svo hrikalega dimmt í íbúðinni. Í dag er ég þó með smá tilbreytingu á dagskránni. Ég er í fötum að hlusta á Dido.

Kom heim úr vinnunni fyrir sirka fjörutíu mínútum og er núna að hlusta á Ice Cube að syngja hið skemmtilega lag You Can Do It. Það minnir mig á hversu hryllilega langt er síðan ég hef komist út að hrista minn rass, eins velskapaður og hann er til þess arna. Vona að það gerist bráðlega. Svo er ég líka búin að hringja til Amríku, í hana Amberly sem ég bjó með í Moskvu. Hún er núna að fara að giftast Tim nokkrum sem er pastor og lawyer og ég veit ekki hvað og hvað. Því miður kemst ég ekki í brullaupið þann þrítugasta og fyrsta júlí, en ætla mér hinsvegar að heimsækja þau hjónin þegar ég fer til Kaliforníu í september og október. Jahérna, ég trúi ekki enn að það sé satt. Anna litla í Ameríku.

föstudagur, maí 12, 2006

Ég skil ekkert í því hvar hvíti eyrnalokkurinn minn er. Eilíflega skal mér takast að týna eyrnalokkum, og alltaf bara einum í einu.

Ég er búin að ákveða að skella mér á Hróarskeldu með sæta sæta kærastanum mínum, sem verður þá nýorðinn 22ja ára. Ungur aldur hans fékk móður mina til að hvá og súpa hveljur á Skæpinu í gær, mér til mikillar skemmtunar. Svo er Jon Kyst kominn inn á Skæpið mitt. Minnist þess ekki að hafa boðið honum þangað.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Írland var mjög hressandi um helgina, þó að veðurfarslega séð hafi Írar (og allar aðrar Evrópuþjóðir) mátt bera lægri hlut úr býtum, þar sem að góða veðrið hélt sig einvörðungu við Skandinavíu. Við Lise settumst galvaskar upp í flugvél á laugardagsmorguninn, og þegar við héldum heim í gærmorgun höfðum við náð að klífa The Sugarloaf, skoða lítið leynivatn og skiptast á draugasögum, heimsækja Trinity College og bókasafnið The Long Room, skoða The Book of Kells, fara í hringferð um Dublin í túristarútu (sátum uppi á þaki og ég var um það bil að lognast út af kulda og roki, en hrökk iðulega upp við gjallandi rödd bílstjórans sem romsaði upp úr sér staðarheitum, árstölum og mannanöfnum í samkrulli við löngu dauða brandara), fara í búðarráp (auðvitað var ekki sleppt að koma við í búð lífs míns, Boots!), drekka Guinness á bar sem hét Temple Bar - i Temple Bar hverfinu, borða írskan blóðbúðing, eggs and rashers og ég veit ekki hvað og hvað.

Núna er ég hinsvegar heima hjá mer að reyna að smala fólki í grill. Það virðist þó ekki freista mjög, a.m.k. svarar enginn skrifum mínum.

fimmtudagur, maí 04, 2006

Ég var að kaupa svoldið magnað. Svoldið rosalega magnað. Hollywood, here I come!!!

miðvikudagur, maí 03, 2006

Úti skín sólartutla í heiði og minn kæri vinnufélagi Eric Gilham er búinn að laga tölvuna mína, sem fékk bláskjásflensu hér á dögunum. Því ætla ég að hjóla inn á DIS og sækja mitt ástkæra barn, og jafnvel kippa einhverju smáræði með handa sveinka. Get ekki alveg gert upp við mig hvort það eigi að vera bjór eða nammi.

Svo fór ég á fyrsta fótboltaleik lífs míns á sunnudaginn var. Þar komu við sögu hin frægu lið FCK og Bröndby, og er frá því skemmst að segja að ég skemmti mér konunglega og var m.a.s. farin að rjúka upp og æpa "KOMA SVO!!" og þvíumlíkt, enda skildi ég eiginlega alveg það sem var að gerast. Þetta var líka hörkustemning sem var búið að hita upp fyrir með brunch heima hjá James (set myndir frá þessu inn á föstudaginn), með tilheyrandi eggja, kartöfluklatta, osta og brauðáti ásamt sterku kaffi og mómósum. Það má kannski taka það fram að ég fékk frímiða á leikinn, enda hefði ég ekki farið að borga 195 danskar krónur fyrir fótboltaleik. En ekki ætla ég að missa af þessu í framtíðinni. Áfram FCK!!