blog... the modern person's cry for attention

fimmtudagur, september 30, 2004

Alexandra og Jóakim ætla að skilja! Jeg er dybt chokeret!

miðvikudagur, september 29, 2004

Jafnrétti á Íslandi í dag - er jafnréttisbaráttan úrelt

Var að skoða svona skemmtilegan spjallþráð á Tilverunni á visir.is .
Ótrúlega gáfulegar umræður. Lesendum óska ég góðrar skemmtunar við að lesa þessa ansi málefnalegu rökræðu.

þriðjudagur, september 28, 2004

Í morgun fann ég hina fljúgandi meinvætt örenda í gluggakistunni. Það breytir þó eigi þeirri staðreynd að umgjörð hægra auga míns er bólgin og rauð og á ég í engu að líkjast þeirri snotru skrifstofudömu sem ég hef verið undanfarnar þrjár vikur. Þetta líður þó vonandi fljótt hjá.

Í dag ætla ég að prófa að fara í Pilates. Kannski hjálpar það gegn stirðleika mínum og vöðvabólgum. Er að verða desperat.


mánudagur, september 27, 2004

Blóðsugur næturinnar

Vaknaði í nótt við ákaft suð yfir andliti mér, suðið færðist í sífellu fjær og nær og gaf sig ekki sama hvað ég reyndi að berja og slá út í loftið. Afleiðingar þessa litla en óskemmtilega næturgests má nú sjá á tveimur blettum á vinstri upphandlegg mínum, neðarlega á vinstri þumal og undir hægra auga mínu! Af öllum ummerkjum að dæma hefur næturgesturinn sennilega verið nýkominn með hraðflugi frá Síberíu og ekki fengið vott né þurrt um allnokkurt skeið, því ekki varð ég vör við nema eitt kvikindi (sá ókindina miklu með eigin augum í morgun en tókst ekki að koma henni fyrir kattarnef).

Og ekki er enn búið að kveikja á miðstöðvarhitanum. Aftur á móti var ég þrisvar spurð í gær hvort ég væri að leita að íbúð. Einhver dularfull Soffía hafði víst haft samband við TsentrInn og verið að leita að Önnu sem vantaði íbúð. Ég er ein af þrem Önnum á hæðinni, og ekki voru hinar Önnurnar að leita sér að íbúð, svo ég veit ekki hvað er í gangi. Samsæri um að koma mér út, kanskje? Ja maður spyr sig.

Nú er bloggið orðið voða fínt á litinn en öll komment hinsvegar horfin og ég veit ekki hvernig ég á að gera þau sjáanleg aftur. Duló.

föstudagur, september 24, 2004

Jæja, gærkvöldið gekk nú vel og sómasamlega fyrir sig og ég er því hér heil á húfi á skrifstofunni en ekki bundin og kefluð á hraðleið til Tbilisi. Reyndar að mörgu leyti áhugavert kvöld, spennandi að heyra um þau vandamál sem kákasíski minnihlutinn er að slást við, en ég held að ég geti með góðri samvisku sagt að þessi ungi maður sé ekki mannsefnið mitt tilvonandi. Veit samt ekki hversu mikið hann var að hlusta á útskýringar mínar um einhleypingalíf og þar fram eftir götunum, því hann vildi amk endilega hringja í mig aftur. Ojæja.

Ég sef ekki almennilega á nóttunni! Í nótt vaknaði ég a.m.k. þrisvar, fyrst af því að ég þurfti hrikalega mikið að pissa, í annað skiptið af því að mér var illt í hausnum, næst af því að mér var illt í maganum og svo vaknaði ég af engu rétt undir sjö. Það er reyndar búið að vera að endurtaka sig um skeið að ég vakni klukkutíma áður en ég þarf að vakna, frekar pirrandi. Svo dreymir mig alltaf mjög mikið á nóttunni, mjög líflega og áhrifamikla drauma og ég er ekki frá því að það fari heilmikil orka í þessar draumfarir mínar.

fimmtudagur, september 23, 2004

Og fleira...

Hmm...voðalega lætur hann Blogger illa. Djöfull er ég orðin svöng. Kálsúpa, pönnukökur og te, ætli það ekki. Það er alltaf gaman aðfara í mötuneytið hérna í næsta húsið. Er ekki frá því að ég fái mér steiktan paltus...nei það er lúða. Er ekki svo hrifin af þeim fisk. 'I gær fékk ég rammíslenska baunasúpu, en saltketið var þó fjarri góðu gamni. Afleiðingar baunanna létu hins vegar ekki á sér standa með tilheyrandi gasframleiðslu fram á nótt...

Og fleira...

Anna Karenína er stórkostleg bók! Það er eins og Tolstoj sjái inn í huga manns...

Lexía vikunnar

Fimmtudagur, hellirigning og Elena stungin af á einhverja aðalskrifstofu með þeim afleiðingum að ég kemst ekki í mat fyrr en hun kemur aftur.

Í kvöld liggur vafasamasta stefnumót ársins (eða lífs míns) fyrir. Eftir miklar vangaveltur og krísuhjálp símleiðis frá London (hringdi í Eilis til að ræða málið) hef ég komist að því að það sé varla nokkuð annað að gera en að hitta manninn, drekka með honum kaffi og tjá honum svo að milli okkar geti ekkert orðið og ég vilji öngva kærasta eiga hér í bæ. Lexía vikunnar er svo að láta ALDREI ókunnuga karlmenn fá símanúmerið manns, sama hversu krúttulegir þeir kunna að virðast við fyrstu sýn. Sérstaklega ef þeir hafa eldheitt dökkt augnaráð. Fyrst ber, eins og Tinna sagði, að krefjast ýtarlegrar skýrslu um aldur, menntun og fyrri störf og helst blóðrannsóknaniðurstöður.
Mikil lífsspeki að komast að þessu hátt komin á tuttugasta og fjórða aldursár, sérstaklega þar sem kynni mín af fávitum (held nú að þessi sé ekki endilega fáviti, við eigum bara ekkert sameiginlegt) eru orðin nokkuð mörg og litrík.
Ilja hefur þó til allrar hamingju ekki látið á sér kræla. Það er þó alltént betra.

miðvikudagur, september 22, 2004

Blogger virðist ekki vera of hress þessa dagana, mér sýnist sem pósturinn minn hafi ekki komist í gegn.

Í stuttu máli sagt er allt að verða vitlaust hér af verkefnum og dagskrám sem þarf að sinna, kvöldverðarboðum með blaðamönnum, hringingum og smsum frá þrjóskum Georgíumönnum sem "gátu ekki gleymt bláma augna minna" (OMG), klassískum bókmenntum og lingvistik sem þarf að lesa og fólki sem þarf að hitta. Að öllu leyti spennandi og áhugavert! Segi frá þessu í smáatriðum síðar og í áföngum...

föstudagur, september 17, 2004

Stuðmenn eru að spila í St.Pétursborg um helgina. Ganz unglaublich.
Ég er oft að spjalla við hana Guðrúnu Dalíu á msn þessa dagana, og er nokkuð undir þýskum áhrifum sökum þess.

Annars labbaði ég heim úr vinnunni í gær (partur af antifitu-átakinu) eftir að hafa skrifað Dostojevskíritgerðina mína - húrra, þá þarf ég ekki að sitja yfir henni um helgina!! En hinsvegar þarf ég að lesa kaflann um Prag fónólógíuna í lingvistikkúrsinum. En á gönguferð minni tókst mér að ramba á nákvæmlega sömu leið heim og Ilja fór með mig kvöldið góða (eða ekki góða) og sá fullt af littlum krúttulegum tréhúsum í öllum regnbogans litum. Ef bæjarstjórn Arkhangelsk myndi leggja fé í að malbika eða flísaleggja göturnar yrði þetta frábært.
að var nú ekki lítið sem var búið að vara mig við ljótleika og ömurleika Arkhangelsk, en mér finnst bara vinalegt hérna.
á eftir er ég að fara á Margaritinskaja Jarmarka, þ.e.a.s. árlegan markað þar sem seldur er varningur frá öllu Norðvestur-Rússlandi, að mér skilst. Einnig hef ég heyrt að við innganginn sé hellt í mann vodka og boðið upp á pylsubita með. spennó, spennó. Í kvöld er svo planið að fara á þjóðdansasýningu og á morgun liggur leiðin í baðhúsið. Þó skammarlegt sé að segja frá hef ég aldrei í rússneskt baðhús komið, eins og ég er nú búin að eyða miklum tíma í þessu landi. En á morgun á það víst að gerast.

Hvað varðar símanúmerin mín, þá virðist ég enn aftur hafa verið að deila út vitlausum númerum. Sannleikurinn er sá, að farsímanúmerið mitt er + 7 8182 8 911 588 88 33. Það má prófa að sleppa þessu 8182 eða 8, sem kemur á eftir, það er ekki gott að vita með þetta.
Heimasíminn er + 7 8182 26 17 69. Ef maður hringir í það númer fær maður samband við móttökuna og þar skal biðja um herbergi númer 209.

fimmtudagur, september 16, 2004

Ærðist í gær af hreyfingarleysi og fitusöfnun og hljóp út í Poljús verslunarmiðstöðina og festi kaup á joggingbuxum og iþróttaskóm. Fór svo í eróbikk hjá afródítu og skoppaði þar um eins og lítill hvítklæddur bolti, algerlega úr takt við allt og alla. Hinar nýju brækur reyndust svo vera of víðar í mittið og þurfti ég sífellt að hysja upp um mig, sem bætti ekki úr skák.
Eróbikk hefur nú aldrei verið mín sterkasta hlið (en af einhverjum ástæðum finnst mér mun auðveldara að vera í fönkdansi, órökrétt eins og það er), en þessi mambóspor sem eróbikkkennarar þurfa alltaf að vera að troða inn í flétturnar með tilheyrandi skrækjum "Mambó!" - á rússnesku útleggst það "mama!" eru mér óskiljanleg og gjörsamlega utan míns kóreografíska skilnings.
Mér leist nú samt ágætlega á pleisið og ætla að byrja í fönkdansi í næstu viku. Eftir að ritgerðinni um Dodda og kristilega boðskapinn í Glæpi og refsingu hefur verið skilað. Er eiginlega að spá i að byrja að skrifa hana í vinnutímanum í dag, ef ekkert fer að gerast hérna.

miðvikudagur, september 15, 2004

Dundur dagsins...

Var eitthvað að reyna að breyta útlitinu á blogginu mínu, veit þó ekki hvort það hefur tekist. Krunka, ef þú ert enn að leita að skrifstofuvinnu, þá gætirðu kannski prófað að kíkja hérhttp://norden.org. Aldrei að vita nema þeir séu með eitthvað handa þér.

Nú má yfirkonan mín hún Elena Khorosjkina alveg fara að koma aftur frá Sankti Pétursborg. Er komin með nett leið á að sitja hér ein í þögninni með ekkert að gera. Nema að svara í símann og skoða www.arnews.ru í von um að einhver samvinna milli Norðurlandanna og Rússlands hafi átt sér stað. Igor frá skrifstofunni við hliðina á (held að það sé Megafon) kom í heimsókn í gær og lagaði prentarann, sem lét engan veginn að stjórn. Hann bað mig endilega að líta við í kaffi en ég er einhvern veginn of feimin til þess. er þess vegna Önnum kafin (hohoho) við að skipuleggja heimferðina.
Flugmiði til Köbba frá Pétri kostar 135 dollara. ég held að ég taki því bara þar sem að það kemur út á eitt ef ég væri að bögglast til Helsinki með rútu/lest og þaðan með flugi. En á maður að borga 3800 rúblur (u.th.b. 100 $) fyrir að fljúga frá Arkhangelsk til St.P eða 500 rúblur (11$) fyrir 26 tíma lestarferð. Það fer auðvitað eftir ýmsu. Hvenær ég má fara héðan t.d. Fer þó ekki seinna en 15.desember. Það er eftir þrjá mánuði. Mig grunar að þetta eigi eftir að líða hratt. Íslandsreisan er áætluð þann 21.desember. á reyndar eftir að panta miðann....geri það á morgun bara.

áðan var ég að skoða bloggið hennar Krunku og sá á færslum frá því í ágúst að Bill Clinton og Julia Stiles hefðu verið á Íslandi í sumar. Er þetta satt?

Svo talaði ég við Guðrúnu Dalíu á msninu í gær og hló mörgum sinnum upphátt, er ennþá að hlæja að lýsingu hennar á hvernig Stuttgart væri eins og ferð 100 ár aftur í tímann, "konur að kaupa egg í stykkjatali og raða í bastkörfuna sína". Svo gat ég ekki sofnað í nótt fyrr en seint, fyrir endalausum spekúlasjónum...í þetta sinn um atvinnumöguleika mína eftir áramót og um ókomna framtíð yfirleitt. Var allt í einu farin að gera plön um hversu margar einingar ég myndi taka á önn á námsárinu 2005 - 2006 (!!) og hversu marga tíma ég gæti unnið á viku, ímynda mér atvinnuumsóknir og viðtöl og þar fram eftir götunum. Spurning um að lifa í núinu eða hvað?


þriðjudagur, september 14, 2004

Hvað þýðir það að dreyma um frægt fólk? Mig hefur þó nokkrum sinnum dreymt að ég og J-Lo séum perluvinkonur (og hef m.a. verið með henni á djamminu og i kaffiboði hjá henni), en um daginn dreymdi mig að ég og Beckham værum kærustupar! Hann ætlaði meira að segja að dömpa Viktoríu til að geta verið með mér. Það seinasta sem ég man úr þessum draumi var að við vorum í Nóatúni í Hamraborginni að kaupa læri í einhverja hátíðamáltíð og svo ætlaði hann að skutla mér í vinnuna - á Borgarspítalanum! Og bið ég nú draumspaka að ráða í þetta.

Er annars að tapa mér í sælgætisáti. Það er mín helsta ánægja þessa dagana. Er búin með helminginn af Glæpi og Refsingu, sé fram á að eyða a.m.k. öllum laugardeginum í að skrifa ritgerðina um hana. áðan las ég á mbl.is að pottar hefðu gleymst á eldavél í Kópavoginum. Fékk strax heimþrá. Þess má annars geta að hér á skrifstofunni eru nokkrir bæklingar um íslensk menntamál, og í þeim gefur að líta nokkur kunnugleg andlit, t.d. Maríu Markúsar fiðlustelpu, og svo vinkonu hennar tinnu sem líka spilar á fiðlu, og stundar skylmingar. Man ekki hvað hún heitir. Einhverjir fleiri kunnuglegir voru þarna líka. Fékk líka heimþrá af því að skoða þessa bæklinga.

mánudagur, september 13, 2004

Hvað er hægt að fitna mikið á tveimur vikum? Ja maður spyr sig. ég nefnilega bæði sé það og finn að líkamsummál mitt hefur aukist svo sjá má á tveimur vikum. Þetta er ótrúlegt.
Ég er því búin að leggja strangar áætlanir um matarræði, labbitúra heim úr vinnunni og kaup á íþróttaskóm og eróbikk og danstíma í bjútícentrinu Afródíta, sem er í næsta húsi við mitt nýja heimili, Hostel Centr-Inn. Þetta er nefnilega það sem er mest pirrandi við að vera alltaf að fara til Rússlands. Sifelld fitun sem þarf svo að berjast við næstu mánuði.

Nú er ég sem sagt ein í vinnuni og er búin að fara í gegnum og safna öllum helstu fréttum um samvinnu norsks og rússnesks olíu og málmiðnaðar. Veit ekki alveg hvað ég á að gera núna. Prentarinn er bilaður, Elena er í St.Pétursborg so I am all alone and helpless.

Lenti alveg óvart á nettu djammi um helgina. Anne marie kom dragandi með vinkonur sínar, Zariönu og Lenu og poka fullan af bjór og víni. Þess skal hér getið að Anne Marie er um fertugt og ráðsett dama, en þykir þó greinilega sopinn góður. Eða amk ekki verri.
Zariana er 27 ára og frá Úkrainu, en hefur búið í Noregi í 4 ár. Hún er rosa skemmtileg! Lena vinnur með Anne marie á barnaheimili. við drukkum bjór og fórum svo á veitingastað og fengum þar að sitja í VIP herberginu sökum útlensks rikisfangs okkar. Þar var mjög eksótísk stemning, arabísk popptónlist og meirihluti gesta ættaður frá Armeníu, Dagestan, Aiserbadjsan og Georgíu. Mikið fjör og gaman.
á sunnudeginum tók ég vitlausan strætó (það er búið að gerast nokkrum sinnum). Á einni stoppistöðinni kom blindfullur maður með tvær vodkaflöskur og hálfétna appelsínu í fanginu inn. Svo settist hann og nagaði appelsínuna á milli þess sem hann saup á. Þess má geta að þetta var ekkert ómyndarlegur maður um þrítugt, en annan eins alka hef ég ekki séð lengi. Svo byrjaði hann að blikka mig og brosa til mín og kalla yfir þveran vagninn "Hei sæta! Hei litla" og eitthvað meira sem ég skildi ekki. Þegar hann fór út stóð hann í smástund fyrir utan dyrnar og kallaði til mín og hljóp svo á eftir vagninum mín megin. Alltaf gott að eiga sér aðdáendur.

laugardagur, september 11, 2004

Þrjú ár liðin síðan hin örlagaríka árás á Tvíburaturnana í New York átti sér stað, á þeim degi var ég alls óvitandi og ómálga í Shevtsjenkó kollegíinu i St.Pétursborg. Það tók mig tvo daga að fá að vita hvað hefði nákvæmlega gerst...

Í dag er ég þó stödd í Arkhangelsk við Hvíta Hafið að ég tel (landafræði sem áður fyrr ekki mín sterkasta hlið), nánara sagt á skrifstofu Norðurlandaráðs hér í bæ. Nú er ég búin að vera hér í ...þrjá daga rúma og allt gengið feiki vel.

Lestarferðin tók 26 tíma, ferðafélagar mínir voru vinaleg armensk fjölskylda sem fóðraði mig af mikillli gestrisni og góðmennsku. Eftir að þau yfirgáfu lestina kynntist ég einum fullum manni sem var á leið í jarðarför æskuvinar síns og svo tveimur unglingsstelpum sem voru á leiðinni í heimsókn á heimaslóðir. Allir voru boðnir og búnir að aðstoða mig sem mest þeir máttu, og fengu stelpurnar bræður sína til að bera farangurinn minn í leigubíl þegar á lestarstöðina í Arkangelsk kom. Svo var mér ekið sem leið lá í Centr-Inn kollegíið sem einnig er hótel. ég verð að segja að á dauða mínum átti ég von en ekki þeim herlegheitum sem þar biðu mín.
Fyrstur manna varð fyrir mér ljóshærður Norðmaður á mínum aldri, sem hjálpaði mér að drösla töskunum upp á aðra hæð. Þar var mér var útdeilt stórt og rúmgott herbergi með sjónvarpi (!!!), borði, skáp, tveimur stólum og tveimur rúmum. Klósetti og baði deili ég með norskri konu sem heitir Anne Marie, og við erum meira að segja með heimasíma og ísskáp. Ég er ekki alveg búin að finna út úr hvaða númer ég er með, mig grunar að það eigi að hringja í móttökuna og biðja þar um nr 209, sjálfsagt kunna einhverjir þarna ensku en annars heitir það dvestidevjat á rússkí. :)
Farsíminn minn er þó...+7 8 911 588 88 33 ef einhvern langar að senda mér sms....

Næsta dag fór ég að hitta Krylov þennan og var hann glaður að sjá mig og fús til að skrifa beiðni um að ég fengi að búa á kolegíinu fyrir sömu leigu og aðrir námsmenn. Einnig spurði hann hvort ég gæti aðstoðað með íslenskukennslu í háskólanum, sem ég var til í (sé reyndar ekki hvenær ég ætti að hafa tíma til þess, en hei). Restin af deginum fór svo í reddingar og innkaup á nauðsynlegustu hlutum.
Um kvöldið var svo hringt í heimasímann og...þetta finnst mér hálfspúkí...maður að nafni Ilja kynnti sig og kvaðst hafa fengið númerið mitt í gegnum Krylov, og vildi gjarnan sýna mér borgina, þar sem hann kynni dönsku (hann talaði mjög bjagaða dönsku og ég skildi varla nokkuð af því sem hann sagði), ensku, norsku og japönsku, og hjálpa mér með það sem þyrfti. Svo var hann allt í einu kominn í heimsókn, hávaxinn og dökkleitur með gleraugu. Eiginlega varð mér strax hálfórótt í návist hans, hann talaði hátt og af miklum hroka um allt og alla, sagðist vera anarkisti og pönkari. Mér fannst nærri eins og þarna væri kominn annar Kíríll (fáviti sem ég kynntist í Moskvu), sama "ég veit allt og allir aðrir eru vitlausir og þú líka litla útlenska stelpa" attitjúdið. Samt sem áður fór ég með honum í labbitúr með þeim einum tilgangi að hann sýndi mér skemmsta og einfaldasta veginn fyrir mig að labba í vinnuna. Maðurinn dró mig í gegnum dimma húsagarða og stræti í meira en fjörutíu mínútur og var svo alveg standandi hissa á heimsku minni að finnast þetta of flókin leið. Svo löbbuðum við tilbaka og mér fannst hann alltaf vera að reyna að sýna fram á að ég væri naív (sem ég vissulega oft er), gjörókunnug rússneskum aðstæðum (ekki satt!), ófær um að sjá um mig sjálf og vitlaus á alla vegu og að hann einn gæti aðstoðað mig og ég veit ekki hvað og hvað.

Svo kom ég loksins heim og fór í háttinn, gat svo ekki sofið alla nóttina fyrir ýmsum vangaveltum, t.d. um hinar gríðarlegu skuldir sem maður steypir sér í með því að taka námslán. Eins og það þyði nokkuð að vera að velta sér upp úr því!
Mætti svo í vinnuna eftir 1 1/2 klst svefn. Alltaf gott að vera hress á fyrsta vinnudegi. Yfirmaðurinn minn, hún Elena Khoroshkina, reyndist vera góðleg kona á fimmtugsaldri og fór vel á milli okkar. Hún fer til St.Petursborgar á morgun og verð ég því ein alla næstu viku. Mér líkaði vel í vinnunni, fyrsta daginn var ég mest að fást við press-release og þýðingar (held að það sé mest það sem ég eigi að gera). Svo gerðist það skrýtna : Allt í einu var Ilja kominn inn á skrifstofu, rennblautur úr rigningunni og virtist ekki hafa neitt markmið með þessari heimsókn, nema það að bjóða mér í bönjuna (baðhúsið) - glætan að ég fari í bönju með ókunnugum manni!! Hann fór samt fljótlega aftur og ég skil ekki hverslags hegðun það er að dúkka upp á vinnustað hjá manneskju sem maður þekkir ekki neitt. Hann ætlar að hringja í dag og ég hef ákveðið að svara ekki símanum. Til allrar hamingju lét ég hann ekki fá farsímann minn! Ég skil heldur ekki hvað Krylov er að spá að deila símanúmerinu mínu og heimilisfangi út til hægri og vinstri og hvað þá til manns sem er bersýnilega snargeðveikur. Elena sagðist munu hafa samband við Krylov og spyrja hann út í málið, hún kannaðist við Ilja og hafði ekki góðar sögur af honum að segja.

Annars hefur allt gengið vonum framar vel, mér líst vel á Arkhangelsk, bærinn liggur alveg niður að sjó og minnir mig að nokkru leyti á Reykjavík. Ferskur gustur af sæ, mikið af lágreistum timburhúsum (sem eru öll skökk og skæld vegna þess hve jarðvegurinn er gljúpur) og fólk almennt vinalegra en gengur og gerist í St.Pétursborg. Er búin að grípa sjálfa mig nokkrum sinnum í því að vera dónalegri en afgreiðslufólk í búðum (yfirleitt þarf nærri að bíta það til að fá afgreiðslu). Ég hef a tilfinningunni að mér eigi eftir að líka vel hérna, verst hvað ég hef lítinn frítíma vegna vinnu og fjarnámsins, það síðarnefnda mun taka meiri tíma en ég hafði gert ráð fyrir. Er sem stendur að eiga við Glæp og Refsingu, það er nú meira hvað sú bók er seinlesin. Kemst varla nokkuð áfram og á að skila ritgerð þann 20.sept.
Jæja, þarf því fljótlega að lufsast heim og halda lestrinum áfram...Dazvidanja.

mánudagur, september 06, 2004

Legg af stað til Arkhangelsk á morgun - spennó... 26 tíma lestarferð fyrir höndum, jibbí.

Er annars loksins búin að ná mér af hrikalegustu mýflugnabitum sem ég hef nokkurn tíma séð, það var hreinlega eins og ég væri með einhvern hitabeltissjúkdóm en ekki bara mýflugnabit. er líka með eitthvað annað eksem á fótunum og maganum þannig að hver dagur hjá mér hefst með smurningu mikilli úr túbum og dollum.

Hlakka bara orðið til að byrja hið nýja líf í Arkhangelsk, komast inn í sína rútínu og svoleiðis. 'i dag hringdi ég í kollegíið þar sem ég mun væntanlega búa og laug því að ég væri "stúdjentka" Pomor háskóla (háskólinn í Arkh.) og að ég myndi svo sannarlega framvísa skriflegri sönnun þess efnis. 'i framhaldi af því skrifaði ég Alexander nokkrum Krilov meil (hann er einhver valdamaður í skiptinemadeild Pomor háskóla) og bað hann um að búa til svoleiðis snepil handa mér...svo er bara að vona að hann sé til í það. Málið er nefnilega að þeir sem ekki eru námsmenn þurfa að borga fáránlega mikið fyrir að búa á þessu kollegíi, svo það er vonandi að þetta gangi upp.Satu, praktikantinn sem var á undan mér í Arkh. gerði þetta og ráðlagði mér að gera slíkt hið sama.

föstudagur, september 03, 2004

Tha er madur kominn hingad i glapid og svitalyktina...

Vonandi ad Joi Ben se ad njota herbergisins mins sem mest!!! er semsagt stodd i midbae ST.Petursborgar og hef thau plon ad koma vid i Dom Knigi og festa thar kaup a bokinni 501 Russian Verbs. Bokabudir i Russlandi eru nefnilega opnar langt fram a nott. spurning um ad kikja svo a gamlar slodir a ulitsa Shevchenko og athuga hvort Dimitri nokkur Tortchanov se thar vidstaddur.

Allt i guddi semsagt, nema fokking yfirdratturinn er ekki kominn i gegn. Stundum grunar mig ad hid opinbera og allar stofnanir yfirleitt seu i samsaeri gegn mer. Hinsvegar er eg buin ad fa tvo email fra Miguel, hinum ljoshaerda Spanverja, sem aetlar ad verda fadir barnanna minna.