blog... the modern person's cry for attention

miðvikudagur, mars 30, 2005

Haha, eitt mjög fyndið við ferðina var þegar ég ætlaði að taka lestina heim - ein. Ég tók lest frá Victoria Station sem mér skildist að ætti að fara til London Bridge, jújú, bara fyrst til Surrey!!! Ég sat sem sagt klukkutíma í þessari lest og skildi ekki upp né niður í hversu langan tíma ferðin tók (tja, ég var á ferðalagi um AÐRA SÝSLU, svo það er ekki skrýtið). Loksins komst ég þó til London Bridge eftir að hafa hringsólað um Surrey og velt fyrir mér hvort ég kæmist nokkurn tíma heim, og átti þá enn eftir að komast til Lee (sem btw var HVERGI að finna á neinum lestarkerfiskortum). Það besta er að ég stökk upp í þessa lest, full sjálfsöryggis og vissu um big city girl-eðli mitt...Andlega eru allir Íslendingar klæddir í eilífðarlopapeysu.

Kom heim frá London í gær, gjörsamlega uppgefin eftir að hafa risið úr rekkju klukkan tuttugu mínútur i fjögur um miðja nótt! Úff...engu að síður var viðurstyggilega skemmtilegt í London, það er sko engin lygi þegar þessi borg er kölluð shopper´s paradise. Til allrar hamingju tókst mér að halda mér nogenlunde á mottunni, festi þó kaup á nokkrum vel völdum pjötlum frá Topshop, Selfridges og Camden Market.

Við Eilis skemmtum okkur konunglega saman eins og alltaf og hún ætlar að koma í byrjun júní, jibbí!!
Við fórum að djamma bæði föstudags, laugardags og sunnudagskvöld, fyrsta skiptið var reyndar algert mis. Byrjuðum á því að fara á einhvern fleðulegan klúbb þar sem allt var morandi í múlöttum og blökkumönnum að dilla sér við ljúfa tóna, og leist mér vel á sjálfa mig og allar aðstæður þar inni. En nei, auðvitað þurftu vinir kærasta Carol (vinkonu Eilis) að heimta að fara á 333, sem mun vera fræg og kúl búlla, og ekki veit ég fyrir hvað. Þarna voru ALLIR á dópi, ógeðsleg tónlist og ég var að tryllast af þessari vitleysu. Næstu tvö kvöld fóru mun betur á Tiger Tiger á Picadilly, þar var pjatl að mínu skapi og reynt við mann aðra hverja sekúndu. Á sunnudagskvöldinu eignaðist ég vin frá Jemen og var nærri ættleidd af sex risavöxnum blökkumönnum sem sögðu hvað eftir annað "work that booty girl, shake that round booty" og dönsuðu eins og Usher og vinir hans.

Svo keypti ég pulsu af ómálga tyrkneskum götusala (hefði betur látið það ógert, var óglatt í tvo daga á eftir)og reyndi af miklum mætti að sannfæra hann um að snúa heim til hjarðlífsins á anatólísku hásléttunni. Hann svaraði mér engu, enda sjálfsagt aldrei nærri kind komið og sennilega komið beint úr einhverju skítahverfi í Ístanbúl.

Á meðan ég var fjarverandi var maður saxaður í búta hér í Kaupmannahöfn og bútarnir skildir eftir á götuhorni. Heimur versnandi fer. Dönsku fjölmiðlarnir velta sér upp úr þessu af mikilli ánægju, enda fátt sem kætir þá frekar en suddaleg morð á saklausu fólki.

þriðjudagur, mars 22, 2005

Tilraun nr. 2: Vorið er komið (vonandi). Eftir enn eitt viðurstyggilegt kuldakast sýnist mér að nú sé hægt að slappa af og fara bráðlega að pakka öllum kápum og vettlingum lengst norður og niður.

Er að fara til London að hitta Eilis á fimmtudaginn!! Það er hálf súrrealískt...höfum ekki sést í tvö og hálft ár...og svo verða mamma og Gunnar þarna líka og við ætlum út að borða með þeim. Þau eru nú að fara á Stuðmannatónleika, svona hress gamla settið.

sunnudagur, mars 20, 2005

Lífið er nú meira ævintýrið, og mér finnst það verða meira og meira spennandi með degi hverjum.

Þrátt fyrir háværar yfirlýsingar mínar um að nú ætli ég sko ekki að fara eitt né neitt, virðast örlögin ekki sammála þeim áætlunum. Nú er ég sem sagt orðin viðurkenndur þáttakandi í leiðangri til Tjúkotku í Rússlandi, sem er eins langt í burt og hægt er að komast...Planið er að skoða eskimóana og rostungana frá ágúst til október...ég er sjálf svo lens yfir þessum ótrúlegu tækifærum sem virðast hlaupa sjálf í fangið á mér...Takk, Guð!!!!

föstudagur, mars 18, 2005

Eru konur konum verstar?

Ó, ó, ó. Eins yndislegt og mér finnst að vera kona, þá er það oft flókið, og sérstaklega þegar það kemur að því að vinna á KVENNAVINNUSTAÐ!!! Nú er ég að vinna í heimaþjónustunni, og mikið lifandis ósköp geta þessar konur í vinnunni minni verið útspekúleraðar og illa innrættar gagnvart nýju starfsfólki, sérstaklega ef það er í yngri kantinum. Það vantar ekki ásakanir um að við séum/ætlum að skrópa í vinnunni, svíkjast undan verkum, skammir fyrir eitthvað sem við höfðum enga hugmynd um að við ættum að gera eða bærum ábyrgð á - enda hefur kynning á vinnustað verið sama sem engin. Nú er ég búin að vinna þarna í einn og hálfan mánuð og veit ekki enn hvað margar konurnar heita, en er um það bil komin með upp í háls af þeim. Af hverju þarf þetta að vera svona!!!
Er að hugsa um að leita mér að nýrri vinnu...
Kíkti annars stutt á fimmtudagsbarinn í gær og fann gjörla hversu mikið ég sakna þess að vera alvöru stúdína. Næstu annir ætla ég ekki að vinna svona mikið (ég mun náttúrulega aldrei fá þetta bévítans SU), enda búin að komast að því að sem íslenskur námsmaður geti ég unnið skattlaust!! AF HVERJU er enginn sem segir manni frá þessu...

fimmtudagur, mars 17, 2005

Kúka blogger. Var að skrifa langa og skemmtilega færslu sem týndist svo og eyddist. Eigðu þig þá bara.

þriðjudagur, mars 15, 2005

Jæja. Ekki gefst veðrið upp. Þrátt fyrir vorlykt í lofti og vonarglætu í brjósti hér fyrr í dag, hefur veðurdjöflunum (ja, varla standa guðleg öfl að baki þessari firru) vaxið ásmegin og nú vælir nístingskaldur norðangarrinn við gluggann minn og grætur klakatárum á helfrosna jörðina.

En út í aðra og meira hressandi sálma. T.d. sálma um Færeyjar. Færeyska, og Færeyingar eru tvö merkisfyrirbæri. Reyndar finnst mér færeyska alveg stórkostlegt tungumál.Tað, táða, leyði lauða løjður, allt einhvern veginn svona. Á Öresundskollegíinu er alltaf fullt af stórskemmtilegum auglýsingum á færeysku, eins og t.d. ein sem við sáum um færeyska dansfélagið Fótatraðk.

Annars veit ég ekki hvort ég þori að hætta mér inn á fyrrnefnt kollegí lengur. Á sunnudaginn mælti ég mér mót þar við Önnu Heru (sem býr þar,damnit)og röltum við yfir í pitseríuna sem er þar til húsa. Við stóðum við afgreiðsluborðið og kjáðum framan í hinn tyrkneska pitsubakara þegar mér þótti ég finna fyrirkunnuglegum andardrætti í hnakka mér, og snarsnéri mér við. Og viti menn, þar var tennisspilarinn frá því í fyrra sumar kominn, og mér varð svo hverft við að ég þagnaði og snéri mér aftur að pitsulistanum og lét sem það hefði aldrei neitt átt sér stað á milli okkar. Hvað var hann að vilja þarna? Maður á aldrei að sofa hjá fólki sem maður á almennt ekkert vantalað við...eða þannig. Það á það nefnilega til að birtast á ólíklegustu stöðum þegar maður hefur minnstan áhuga á að sjá það.

föstudagur, mars 11, 2005

Ef vorið fer ekki að koma bráðum, dey ég. Vissulega er ennþá bara 11.mars, en ég er sliguð eftir langan vetur.
Ég þrái að baða mig í sólskini og ganga í hvítum flögrandi pilsum og litlum jökkum, ekki síðum kápum og lopapeysum.

Til allrar hamingju er komin helgi. Keypti ógrynni af Superior súkkulaði í Nettó í dag, til að fóðra gesti mína á um helgina, sem og sjálfa mig. Miguel kemur í kvöld og honum verður boðið upp á lax í spínat og púrrulauksrjómasósu. Nanna, Anne og Alexander koma annað kvöld og ég ætla að elda kjötsúpu ofan í þau. Ó, mikil dásemdar húsmóðir er ég!

fimmtudagur, mars 10, 2005

Sumir eru komnir með blogg, af einskærri öfundssýki út í mitt blogg. Skil nú lítið í því sem stendur þarna, en gott hjá honum samt :-)

Kuldinn hér í landi er að ÆRA mig. Ég fæ ekki lifað svona lengur.

miðvikudagur, mars 09, 2005

Sumar sumar kom þú til mín

Einn af gamlingjunum gaf mér stærðarinnar núggatstykki í dag! Jújú, ekki er vanþörf á, enda er meinhollt að luma alltaf á nógu sykurdrulli ef ske kynni að löngunin yrði of sterk.

Er búin að vera að nostalgíuflippa smá undanfarna daga og hlusta á alla gömlu Nick Cave diskana mína, sem og fleiri fortíðardrauga. Ferðin til Stokkhólms var algert æði, rómantík mikil (og afslöppun!!!!!) og Miguel sló í gegn með því að vera fáránlega þolinmóður á meðan búðarápi okkar systra stóð, og svo hjálpaði hann Böngu að elda um kvöldið. Músí!!

Almennur grunur leikur á að vorið sé á næsta leyti. Samt sem áður voru einhver óþverra snjókorn að þrjóskast við að falla til jarðar, og loftið er ískalt. Get ekki beðið eftir sumrinu, sama plan og seinast: Svífa létt um (helst um 15-20 cm ofar jörðu), með ofurfíngerða háhælaða prinsessuskó á flauelsmjúkum fótum mér, klædd kjól sem minnir frekar á skýjaslæðu en jarðneskt efni, og brosa létt en yfirlætislega við hverjum vegfaranda. Allir munu að sjálfsögðu taka andköf og snúa sér við á eftir mér/kasta sér að fótum mér, en ég mun einungis svífa áfram á leið minni um hina sólgylltu borg, og í besta falli kinka kolli og sveifla silkimjúkum hunangslitum haddi mínum í kveðjuskyni.

P.S. Þetta tókst ekki í fyrra, en ég gefst ekki upp!

fimmtudagur, mars 03, 2005

Anna Hera segir að ormar herji á öll kollegí hér í borg. Mig grunar að það sé einhver andstyggileg naðra að naga tölvuna mína. Elsku litla tölva, gefðu frá þér hljóð!!! Og mamma mín, sendu mér nú þessar upplýsingar sem ég bað um.

Fattaði að lífskrísa undanfarinna vikna var að miklu leyti tengd ritgerðinni sem ég þarf að skila eftir viku. Um leið og ég var búin að finna mér efni til að skrifa um og slá inn fyrstu orðin steinlétti mér. Og allt í einu mundi ég eftir svipuðum krísum sem hafa lagst á mig í hvert sinn sem ritgerðir hafa verið í aðsigi. T.d. var ég nærri því búin að fá taugaáfall út af ba-ritgerðinni, alltaf grenjandi og ég veit ekki hvað og hvað.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Allamalla. Bara hríðarbylur úti. Núna finnst mér kannski allt í lagi að humma aðeins yfir veðrinu, enda man ég ekki eftir að hafa nokkurn tímann séð svona mikinn snjó hér í DK. Er létt frosin eftir vinnudag utandyra, og datt einu sinni af hjólinu.

Var annars að komast að því að það er mögulega hægt að hafa heilmikinn pening út úr ríkinu og borga lægri skatt og ich weis nicht was. Þarf að kanna þetta mál betur. Haha, svo gerðist fáránlegt dæmi í metróinu í gær. Metróið hér í Köben er til alls líklegt og það sýndi sig sko aldeilis í gær. Við Anna Hera ákváðum að nýta okkur samgöngukerfið í stað þess að hjóla í dansinn, en lögðum aðeins of seint af stað. Auðvitað voru miðavélarnar í algeru fokki og ég þurfti að berja þær og bölva til kaldra kola áður en út hrökklaðist hinn rándýri 17 kr miði. Svo fórum við niður og settumst í lestina, í þeirri góðu trú að hún myndi flytja okkur til Nörreport og þaðan mætti taka strætó inn á Nörrebro. Christianshavn, Kongens Nytorv, Nörreport...nei, allt í einu sé ég Nörreport þjóta hjá á eldingarhraða og lestin brunaði sem mest hún mátti áfram í áttina til Vanlöse. Ókennileg karlmannsrödd muldraði í hátalarana svo eigi mátti greina orðaskil, og við stigum því úr á næstu stöð og tókum lestina tilbaka. Og aftur þutum við framhjá Nörreport og nú heyrði ég að í hátölurunum var tilkynnt um "brandalarm på Nörreport station og vi vil advare alle passagere om at gulvene på andre stationer er EKSTREMT glatte." Hið ríkisrekna metró semsagt dauðagildra og sennilega betra að velta hundrað sinnum af hjólinu en að setjast upp í það feigðarfarartæki.

Stokkhólmur á föstudaginn!! Spennandi...

þriðjudagur, mars 01, 2005

Ég er búin að vera svo viðurstyggilega þreytt, a.m.k síðan um áramótin, að geðheilsu minni var farin að stafa hætta af. Fyrir utan velþekkt einkenni hefur þreytan líst sér í áhugaleysi á námi og matargerð, sem hefur leitt til einnar B- einkunnar og mikillar ruslfæðisneyslu. Þetta tvennt hefur svo leitt til stresskasta og vissu um eigin landeyðuhátt svo og tilgangsleysi lífsins.
Hámarki náði þetta allt saman í gærkveldi. Ég lá grá af þreytu og hálfvolandi á rúminu hans Miguels og tautaði "it's neverending, I can't do it". SVo var ég eiginlega búin að taka ákvörðun um að taka mér frí frá námi, en það strandaði allt á praktískum ástæðum og í dag finnst mér þetta óttalegt bull. Reyndar finn ég hvað þessi B- situr í mér. Því ég verð sko alltaf að fá toppeinkunn. Ég get varla hugsað mér að taka þessa leiðinda B-ritgerð upp og skoða hana...ekki frekar en slímugan snák. Brrrrrrrrrrrr.........