blog... the modern person's cry for attention

þriðjudagur, maí 31, 2005

Ég er brjáluð. Hélt næstum því að ég væri búin að finna hjolið mitt, þar sem að ég kom auga á ljósblátt hjól við Amagercentrið, sem á vantaði standarann og bjöllluna eins og mitt. Mér til mikillar furðu passaði lykillinn ekki í og nýleg karfa var framan á, sem og miði með nafni og heimilisfangi konu sem hafði greinilega nýlega sótt hjólið úr viðgerð. Í viðgerðinni hefði t.d. vel verið hægt að skipta um körfu og lás.
Ég skrifaði stellnúmerið á hjólinu niður, stikaði heim eins og þrumuský og fann kaupspappírana frá hjólinu mínu fram. Stellnúmerin pössuðu ekki saman - en er hægt að breyta þeim? Getur verið að þetta hjól hafi bara alveg óvart verið eins og mitt? Eníveis, hringdi í lögguna og tilkynnti stuldinn, lögginn í símanum var sammála því að þetta væri sérkennileg tilviljun og ráðlagði mér að svipast um í nágrenninu. Eins og ég sé ekki búin að gera það.

Ef ég finn hjólið mitt verður þjófsrakkinn sótt/ur til saka og negld/ur á bretti og látin/n stikna í sólinni fyrir hunda og manna fótum. Eða leysast upp í rigningu, fer eftir veðri.

mánudagur, maí 30, 2005

Notað hjól óskast

Hjólinu mínu var stolið um helgina, og mega því dagar Önnu og Ljósbláu Eldingarinnar taldir. Ég er búin að ná mér núna, en var næstum því farin að grenja þegar ég mætti í vinnuna, illa sofin eftir drykkjulæti lýðsins fyrir utan (sem án efa hefur átt þátt í hvarfi stálfáksa). Allir voru ýkt hressir nema ég, og ekki batnaði það þegar ég tók eftir stærðarinnar kaffibrúnum bletti á fætinum á mer, og það rann upp fyrir mér að kremið sem slettist á mig í ISO var ekki rakakrem heldur brúnkukrem. Til allrar hamingju höfðu fínu hvítu sandalarnir mínir ekki beðið skaða af. Jæja, en núna skima ég ákaft eftir mínum bláa gæðingi, semog ólæstum hjólum, en ætli það endi ekki með að ég kaupi einhverja ódýra járnhrúgu bráðlega.

þriðjudagur, maí 24, 2005

Suma daga þrái ég fátt heitar en að sitja við eldhúsborðið í Álfatúninu og vera með fjölskyldunni minni. Í dag er svoleiðis dagur. Það er nefnilega svo erfitt þegar maður býr einn, að það er sjaldnast neinn sem sér um mann eða getur tekið uppvaskið/keypt inn/eldað. Oftast neyðist maður til að gera þetta sjálfur.

mánudagur, maí 23, 2005

Ég sá að Þóra nefndi Bridget Jones 2 í nýlegri færslu, og var stalla mín óánægð með myndina atarna. Ég verð reyndar að segja að mér fannst þessi mynd ekki léleg og alveg skiljanlegt að greyið Bridget væri orðin ástsjúk. Enda held ég að ég væri nákvæmlega eins , ef ekki bara verri,ef ég væri komin yfir þrítugt og enn á lausu. Fyrir utan það að ég væri örugglega farin íhuga að ræna ungabörnum annarra til að fullnægja móðurlegum hvötum.

Ég skil samt alveg frá hvaða sjónarhorni Þóra gagnrýnir myndina, en ég held að einhleypi og persónulegur styrkur þurfi ekkert endilega að vera tengt...ef fólk skilur hvað ég er að meina. Bridget er nú þarna á fullu með frama sinn og dundar sér við eitt og annað - hvað sem því líður held ég að flest fólk langi til að eignast maka, og það gildir jafnt um konur og karla. Ef ég miða t.d. við sjálfa mig, þá fannst mér hreint ekkert leiðinlegt að vera á lausu og hafði bara nóg að gera við að skemmta sjálfri mér. En mér finnst líka frábært að eiga kærasta sem ég get knúsað og borðað með, og vilja ekki flestir hafa einhvern til að tala við þegar þeir koma heim úr vinnunni? Ég kannaðist a.m.k. mjög vel við margt af því sem er lýst í myndinni...

sunnudagur, maí 22, 2005

Stundum skoða ég hina ágætu síðu Single2000 , og þar eru gjarnan linkar á alls konar vitleysu, eins og t.d. heimasíðu fyrir Ungfrú Ísland. Alveg var ég búin að gleyma öllum þessum fegurðarsamkeppnum á Íslandi. Hefur fólk í alvörunni ekkert betra að gera en að senda tvítugar stelpur í megrun og svo klæða þær í bíkíni og spyrja heimskulegra spurninga eins og "Er eldhúsið staður fyrir konur?". Ja maður spyr sig. Og hafa þessar ungu dömur ekkert betra að gera en að taka þátt í svona vitleysu? Annars verð ég að segja það að einn skríbentinn á single2000 er andstyggilega fyndin og orðheppin, ef að henni yrði hleypt í að stýra þessum keppnum væri að minnsta kosti hægt að hafa gaman af þessu.

Hvað sem því líður, þá er ég hér ein, hinar þýsku bombur fóru í gær eftir æsilega heimsókn sem ég náði því miður ekki að taka þátt í að fullu sökum vinnu. En eftir vinnu var að sjálfsögðu slegið á létta strengi, þrammað um Kaupmannahöfn þvera og endilanga, drukkinn bjór og freyðivín og haldið fast í gamlar hefðir. Jæja, ég ætla að fara að koma mér að verki á einn eða annan hátt, umpotta plöntur og bora holur í veggi.

fimmtudagur, maí 19, 2005

Mínar eiturhressu þýsku vinkonur eru mættar á svæðið, á reyndar eftir að hitta Helene þar sem að hún kom í morgun, og ég var auðvitað að vinna. Þrældóm ætti nú frekar að kalla þessa vinnu suma dagana, í dag er ég búin að vera að þrífa eins og geðveik fyrir misklikkaðar gamlar konur og það lá við að ég skriði heim. Jæja, þarf að fara að drífa mig að búa til hommsa (hummus), svo að þær haldi að ég sé afskaplega húsleg. Ciao!

þriðjudagur, maí 17, 2005

My body too bootylicious!!!!!!!!!!!!

Hér með er opinberlega búið að viðurkenna að ég og Anna Hera erum beib. Fyrir þá sem ekki fengu myndina senda í meili, er um að gera að drífa sig inn á www.guide2party.dk og skrolla niður og velja linkinn fredag 13.maj (til vinstri) og velja myndir frá Australian Bar. Þá ættum við að mæta þar eiturhressar. Annars sendi ég nærri öllum þessa mynd til að monta mig, hehehe.

mánudagur, maí 16, 2005

HVAÐ er að þessu veðri? Ég er að fara að fá fólk í heimsókn, og svo er ekki hægt að rækta basilikum í gluggakistunni þegar úti er 11 stiga hiti og grámóska. Mér finnst að þessi síberíska kuldabylgja megi alveg fara snúa aftur til síns heima og leyfa sumrinu að komast að.

Spurning til lesenda: Er það eðlilegt að maður vakni a.m.k. tvisvar á hverri nóttu, ef ekki oftar, af ýmsum ástæðum eða bara engum ástæðum? Er þetta eitthvað sem fylgir aldrinum? Annars var mér nú sagt það í vinnunni í dag að eftir tíu ár yrði ég orðin meira þroskuð og myndi skipta um skoðun á vændi, og finnast það allt í lagi og nauðsynlegt til að halda ró í samfélaginu. Ég veit ekki hvernig á að svara svona tali.

sunnudagur, maí 15, 2005

Mikill æsingur átti sér stað í Kaupmannahöfn hér á föstudagskvöldinu. Þrjár dauðadrukknar konur á þrítugsaldri herjuðu á miðborgina og létu öllum illum látum, vitað er að þær beittu íslenskum vögguljóðum, rassahristingum og hernaðarlega mikilvægri staðsetningu gullsandala á barborði til að trylla lýðinn. Ekki fara neinar sögur af tryllingi lýðs, en almennt mál manna að konukindunum hefði betur sæmt að sitja heima á kollegíbarnum í stað þess að bera slíka hegðun á almenn torg.

Allt byrjaði þetta þó vel og siðsamlega heima hjá einni kvensanna, borið var fram rækjuspagettí og hvítvín og hlýtt á ljúfa tóna og malað um jafnrétti kynjanna, kærasta og barneignir. Skyndilega rann æði á konurnar þrjár og ekki vissu þær fyrr en þær voru komnar heim til annarrar í hópnum og teknar að máta föt þar af miklum móð, og popptónlist spiluð á hæsta styrk. Rósavin var þambað og glimmeri smurt á sig. Síðan var lestin tekin inn í bæ og öðrum farþegum skemmt með vísum Vatnsenda-Rósu. Leiðin lá á helstu öldurhús bæjarins, meðal annars þótti konunum vel fara um sig á glæsibúllunni Aura, en er það mál manna að þær hafi almennt gert sig að fífli þar inni með ofsafengnum danssporum, bak og afturenda-hnykkjum, sem og blikkljósasýningu með hjólaluktum.

Þaðan lá leiðin á ungbarnaskemmtistaðinn Australian Bar, þegar hér var komið sögu hafði sú þriðja í hópnum gefist upp og drattast heim til manns og barns. Hinar tvær héldu þó ótrauðar áfram þrátt fyrir svívirðingar dyravarða sem heimtuðu skilríki og ásökuðu konurnar um að vera átján ára. Inn komust þær þó og héldu áfram berfættum regndönsum sínum, og settust þar á milli á barinn og drukku ókeypis drykki með gullskóna uppi á barborðinu. Um fjögurleytið voru iljar kvennanna svo gatslitnar að þær sáu sér ekki annað fært en frá að hverfa, og gengu þær sem leið lá inn á Makkdónalds á strikinu, enn með gullskó í hönd og kyrjandi poppslagarann Dimmar Rósir, öðrum vegfarendum til hryllings og skelfingar. Eftir slafr og slurp á Makkdónalds hélt önnur kvennanna heim til sín en hin tók leigubíl til Vanlöse og vakti þar heitmann sinn með höggum á dyr og köllum. Samkvæmt vitnum mun miðborgin sjaldan hafa verið í álíka ástandi, og ekki laust við að aðrir vegfarendur hafi átt í hættu að verða fyrir sjónmengum og skaða á sómakennd.

fimmtudagur, maí 12, 2005

Var að máta græna bolinn sem ég keypti í London, og komst að því, mér til mikillar skelfingar, að bæði hef ég greinilega grennst og brjóstin á mér minnkað síðan um páskana, því ég fylli ekki eins flott út í þennan bol og fyrir einum og hálfum mánuði síðan. Hvað er til ráða? Þá er amk komin ágætis ástæða fyrir Makkaheimsókn á morgun eftir djammið.

Reyndar virðist þetta ætla að verða að föstum lið að ég hríðhorist á sumrin, vegna þess að ég tryllist af orku og hreyfi mig stanslaust og háma svo í mig rúkóla og spínatblöð í hvert mál. Vandamálið er svo að ég hætti að passa í öll fínu fötin mín. Yfirleitt hefur svo Rússland séð fyrir því að ala Önnu litlu vel á mæjónesi og feitum ostum yfir haustmánuðina, en í þetta sinn er ég náttúrulega á leiðinni í fiskiparadís, svo kannski smá möguleiki á að eitthvert jafnvægi haldist.

Er annars að missa mig í pjatlinu. Haldiði ekki að mín hafi skellt sér á tilboð í Matas, þar sem boðið var upp á snyrtitösku með bodyscrub, bodylotion og brúnkukremi frá Garnier fyrir 100 danskar krónur? Slík kostaboð má ekki láta framhjá sér fara. Annars má bæta því við að ég er líka að lesa mjög áhugaverða bók eftir Graham Greene, svona til að lesendur haldi ekki að heilinn hafi skolast út í seinustu sturtu.

Í dag glefsaði ég í samstarfskonu mína, eða amk hefði það verið þannig værum við hundtíkur. Hún er svosem óttaleg tík og alltaf eitthvað að urra á mann, svo ég fann fyrir mikilli ánægju við að svara henni örlítið.

miðvikudagur, maí 11, 2005

Er búin að skrifa ritgerðina!! JÚHÚ!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Þá er hægt að fara að slaka á heilanum og fara að einbeita sér að brúnku og magavöðvum í tilefni (vonandi) sumars. Á reyndar eftir að fara yfir dýrið og senda, en það verður gert á morgun þegar ég verð búin að estrange-a mig nóg. Ef einhver hefur áhuga á að lesa ritgerð í formi blaðagreinar um furðuleika og tvískinnungshátt St.Pétursborgar, þá má senda mér tölvupóst og ég sendi hana á viðkomandi. Ég ætti nú að vita eitthvað um málið, hef varla um annað talað undanfarin þrjú ár. En semsagt, gleðilegt sumar!

Júhúuuuuuúúúúúú´puúúpuldfgæashga ureguaeqrp9ug´v.....

Jæja. Ég er alltaf að reyna senda myndir á bloggið mitt með þessu helvítis Hello. Það tekst aldrei. Hvað er málið?

Ég held að það sé alveg sama hversu mikið ég hreyfi mig og hversu mörgum gulrótum ég torga á dag, EKKERT getur stöðvað fíkn mína í nammi og óhollustu. Það er kannski ágætt, aðeins verður maður bara of leiðinlegur, eins og hollu hjónin í vísnabókinni hans Davíðs Þórs....Hvar er sú bók annars?

Fann hana í hillunni með myndaalbúmunum. Það er ágætt að einhver íslenskur kveðskapur er til hér á bæ, svo hægt verði að kenna krakkagrislingunum gullaldarmálið þegar þeir koma. Eftir örfá ár.

Úff. Ritgerðartuðran hangir enn yfir mér, ef ekki væri fyrir þessar bölvuðu tilvísanir og tilvitnanir í rússnesk ljóðskáld (hvert öðru leiðinlegra) sem heimtað er að séu með, hefði ég getað krotað þetta sofandi fyrir aftan bak. Ég þoli ekki þegar er ÆTLAST til að maður sé sífellt að vísa í þennan og hinn, því það kemur yfirleitt frekar kreist út og asnalegt. Tilgangurinn er sjálfsagt að æfa akademíska vöðvann. Minn akademíski vöðvi er til allrar hamingju að fara í sumarfrí á morgun, og verður því fagnað með glitrandi djammi með Önnu Heru á föstudaginn. Langþráð pjatl, ójá.

þriðjudagur, maí 10, 2005

Í dag er ég búin að vera að hlusta á Rás 1 á netinu. Ekkert smá huggulegt...mæli með þessu fyrir alla fjarri heimahögum. Það liggur við að mér finnist ég vera betri manneskja af því.

mánudagur, maí 09, 2005

Skólinn er búinn, júbbí! Þá get ég virkilega farið að einbeita mér að gamlingjunum...djók. Á reyndar eftir að skrifa eina ritgerð í formi blaðagreinar, og nenni þvi ei. Enda er ég í fríi á morgun og get gert það þá. Jæja ég ætla að fara að gera e-ð af viti.

sunnudagur, maí 08, 2005

Btw, fyrir nokkru síðan rakst ég á strák sem ég svaf hjá seinasta sumar, og rakst ég einmitt á hann á þeim stað þar sem ég fann hann það ágæta júlíkvöld, þ.e.a.s. hinu fræga öldurhúsi The Moose. Ég er ekki frá því að þessi ungi maður hafi haldið að ég væri ÝKT hrifin af honum og vildi beinlínis giftast honum, þó að svo færi afar fjarri. Halló, hann var atvinnulaus og bankinn hafði tekið kreditkortið hans af honum. Ekki mikið í svona gutta varið.

En hvað um það, kauði hékk þarna upp við barborðið, nákvæmlega eins klæddur og fyrir...10 mánuðum síðan, og slafraði fleðulega framan í stúlku eina, sem tók því vel. Ég stóð í klósettröðinni og þegar hann loksins leit á mig, horfði ég beint í flagaraaugu hans og kastaði kveðju á hann, enda veit ég ekki betur en að við höfum skemmt okkur ágætlega saman. En nei, hann tók ekki undir hæið, heldur varð sérkennilegur til augnanna og eftir nokkrar sekúndur kastaði hann sér inn í miðja röðina og æpti "kan jeg ikke komme foran, jeg skal pisse herre meget". Svo kútveltist hann um gólfið og svo aftur á barinn að taka dömur á löpp.
Hann hefur kannski haldið að þetta hæ mitt bæri í sér örvæntingaróp um heldjúpa ástarsorg og höfnun. Díses.

Er að eipa á skorti á verkefnum í vinnunni minni...mér líður eins og svindlara, letingja og landeyðu þegar ég stelst heim til mín í eyðunum sem myndast á hverjum einasta degi. Að vísu stelst ég bara heim til mín um helgar, þar sem að þá er enginn til að fylgjast með manni. En ég spyr, er það mín sök að gamalmennin hér á Amager hrynja í gröfina í lange baner, eða leggjast inn á spítala eða hvíldarheimili, með þeim afleiðingum að við höfum ekki sjitt að gera? Ja ég spyr.

Úti er kalt. Er ekki kominn maí?

laugardagur, maí 07, 2005

Í dag féll ég fyrir freistandi auglýsingaplakötum í gluggum Matas og festi kaup á brúnkukremi. Ég hef ekki notað svona græju síðan fyrir Verslóballið í MH, og nú spyr ég sjálfa mig hvað ég hafi verið að hugsa, því maður verður einkar lekker af þessu. Á klukkutíma náðist sami árangur og næst með a.m.k. þriggja vikna hardkor sólböðum úti í garði og passa sig að aldrei að ganga i skugga. Eða það er allavega það sem þarf til fyrir helgráa ánamaðka eins og mig.
Þrátt fyrir einstaka klessur hér og þar sem mátti jafna út með kremi, er þetta bara ágætt og náttúrulegt, svei mér þá. Mæli semsagt með þessu.

Ég og Anna höfum stundum verið að rifja upp MHárin, og það rifjaðist t.d. fyrir okkur að það versta sem hægt var að gera var að vera í húðlituðum sokkabuxum við...(andköf) háhælaða skó/stígvél. Háhæluð stígvél voru auðvitað einungis fyrir bimbó, og ef MHísk stúlka lét sjá sig í svona átfitti var það auðvitað með ísköldu háði, og ekki hjá því komist að koma með netta hæðnislega athugasemd um eigin múnderingu. Hvað var ég að spá...? En þessir dagar eru liðnir og ég get einungis vitnað í frænda/vina Pawels sem komst svo viturlega að orði: "Jæja, þá er maður er búinn í menntó og hægt að fara að hlusta á það sem manni finnst skemmtilegt."

miðvikudagur, maí 04, 2005

Þegar ég var unglingur óskaði ég þess að lifa á sjöunda áratugnum, en því var ei að heilsa. Enda er ekki seinna vænna að drulla sér að verki NÚNA strax og hengja nokkra blúndubrjóstahaldara upp áður en þeir morkna í bleyti.
folknik
You are a Folkie. Good for you.

What kind of Sixties Person are you?
brought to you by

mánudagur, maí 02, 2005

Eitthvað er rotið í ríki Dana. Miguel sendi mér sms í nótt til að segja frá því að ölvuð unglingsstúlka af sænsku bergi brotin hefði ráðist inn til hans í nótt, og sagt honum grátandi frá því að reynt hefði verið að myrða hana. Skelfdist unnustinn mjög við þetta, og ég veit ekki hvaðan á mig stendur veðrið. Í kvöld ætlum við í bíó og ég vonast til að fá þetta dularfulla mál upplýst fyrst.

sunnudagur, maí 01, 2005

Fyrir nákvæmlega ári síðan var ég á kóreskum veitingastað með þáverandi, Ivan. Seinna sama kvöld hættum við saman. Í dag fór ég með elsku krúttið mitt í Fælledparken og sýndi honum danska komma og sossa af eldri og yngri gerðinni, og fulla unglinga. Hinir síðarnefndu voru í miklum meirihluta. Við ætluðum að hitta fólk en fórumst á mis við það, og nýttum því tækifærið til að liggja í grasinu og kyssast á almannafæri, enda samkundur eins og 1.maí kjörnar til slíkrar hegðunar.