blog... the modern person's cry for attention

miðvikudagur, mars 29, 2006

Jesús minn eini. Það er kannski ljótt að leggja nafn Jesúsar Guðssonar við slíkan hégóma og mitt einhæfa og hallærislega stúdentalíf hér á danskri grundu, en ég veit ekki hvaðan á mig stendur veðrið. Úti er grátt og alveg að fara að rigna. Ef ég færi út myndi pottþétt byrja steypiregn og tveir þungir pokar birtast í höndum mér. Almennur doði og sinnuleysi einkennir skap mitt, ástmaðurinn er týndur og tröllum gefinn og lætur ekki svo lítið sem að senda eitt ímeilstetur til vesællar grasekkju sinnar. Ég á aftur engan pening, vaknaði í morgun við draum um að ég væri brjáluð út í fjölskylduna mína og núna get ég ekki einu sinni loggað mig inn á msn. Gah.

mánudagur, mars 27, 2006

Ég get svarið það, stundum finnst mér ég lifa álíka spennandi lífi og Frasier. Alltaf þegar mig langar að hitta fólk, þó ekki nema til að bjóða einhverjum yfir til að horfa á sjónvarpið, þá svarar enginn í símann.

Hressleiki, hressleiki. Heilsaði upp á nýja tannsann í morgun, hann reyndist vera ungur og sætur og nokkuð markvissari í sínum vinnubrögðum en daman sem ég fór til í fyrra. Mér er enn á huldu hvernig ég slapp þaðan lifandi. Sæti tannlæknirinn gerði við eina holu og hreinsaði tennurnar í mér, sem eru núna hvítar sem nýfallinn snjór. Þetta er bara eins og ég hafi verið í The Swan eða 10 years younger in 10 days eða eitthvað álíka. Æði stæði.

laugardagur, mars 25, 2006

Það er merkilegt hvað enginn virðist vera viðlátinn þegar ég þarf sem mest á því að halda. Hér hírist maður á gráu laugardagskveldi og kærastinn stunginn af næstu þrjár vikurnar, og enginn svarar í símann. Það er víst best að hengja sig strax.

miðvikudagur, mars 22, 2006

Málþing í dag. Um Rússland og Evrópusambandið. Á maður ekki bara að skjóta sig strax? Hvernig er hægt að ræða svo leiðinlega hluti í þrjá klukkutíma, til allrar hamingju með hléum, en fyrr má nú aldeilis vera. Ég var að MYGLA og að drepast úr kvefi, og allir aðrir virtust vera að springa úr æsingi og málgleði og mikið sem fólki lá á hjarta. Mikið lifandis ósköp er ég fegin að það er enginn í mínum nánasta vinahópi sem vill alltaf vera að tala um svona lagað. Bara orð eins og "summit", "commission", "legislation" og allt þetta hellllllllvítis kjaftæði fær grænu geimbólurnar til að spretta fram á öllum líkama mínum.
Og svo var eitt. Man fólk eftir því þegar ég var í Arkhangelsk og kynntist gaur sem hét Ilja (keyra niður á síðunni)? Ég hélt nú að Guð myndi hlífa mér við að sjá það fyrirbæri aftur í þessu jarðlífi. En svo virtist eigi vera ætlunin, því helvítið hann Ilja var þarna lifandi kominn og muldraði "I know you, I know you". Ég var smástund að átta mig en þegar það gerðist stökk ég á fætur og frussaði "But how???!!! What are you doing here?" og mátti öllum vera ljóst að þarna voru ekki perluvinir á ferð. Fáránlegt dæmi.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Úff. Var að láta ofan í mig þrjár og hálfa sneið af Dómínós pizzu og finnst núna eins og í maga mínum fljóti þrjár úldnar kýr ofan á tjörn af bráðnum mör. Ég held að skyndibitadagar mínir séu liðnir, amk í bili. Það er búið að vera eitthvert voða pizzuát á mér undanfarna viku og nú finnst mér komið nóg, langar bara í fersk og góð salöt og gulrótarstengur og álíka hollustufæði. Svo var líka skinka og pepperóní á pizzusneiðunum áðan - hrikalega er skinka mikið ógeð! Sorrí mamma og Gunnar, ég held að grænmetisætuöldin sé að ganga aftur í garð hjá mér. Í bili a.m.k..

Rakst á Erik úr IT áðan. Hann sagðist vilja fara út eftir vinnu og drekka bjór. Merkilegt hvað bjórlöngunin grípur þennan unga mann alltaf þegar hann sér mig. Ég sagði honum að það mætti vel líta inn á búlluna hér við hliðina á og drekka EINN bjór, en einungis einn. Cos I'm a busy lady you know.

mánudagur, mars 20, 2006

Um daginn prófaði ég að senda spurningu á Yahoo. Það var nú meira hvað fólk var fúst að deila með sér af fróðleik sínum um blessuð litlu þvottabjarnagreyin. Sem eru notabene svo mikil krútt að mér liggur við að hoppa og skrækja þegar ég sé mynd af einum slíkum. Hvernig dettur fólki í hug að skjóta þá, eitra fyrir þeim og búa til húfur og jakka úr svona litlum snillingum? Hversu mörg önnur dýr (sem ekki eru apar eða fólk) kunna að opna glugga, róta í kössum og ruslatunnum og stela öllu sem hönd eða loppu á festir?

Þegar ég verð stór ætla ég pottþétt að eiga þessi dýr:

1. Kisu.
2. Lítinn grís eins og George Clooney á (Krúttmundur Rassason, grísinn, sko!)
3. Þvottabjörn.

sunnudagur, mars 19, 2006

Ég minnist sjálfrar mín í gær að veifa gyllta sjalinu mínu á dansgólfinu eins og nautabani með rauðan klút. Einnig minnist ég vina minna í sleik á þvers og kruss og Nönnu að veifa kattarskottinu sínu á vægast sagt óviðeigandi hátt. Þegar ég var lítil hélt ég að þegar maður yrði t.d. 23 ára, myndi maður sjálfkrafa breytast í einhvers konar dragtadömu og hegðun manns yrði einnig sjálfkrafa viðeigandi og fullorðin. Ég get hinsvegar staðfest að svo er ei. Óhemju skemmtilegt kvöld að öllu leyti, tónlistin var frábær og allir í þvílíku stuði. Þarafleiðandi er ég búin að vera fremur óhress og meðvitundarlaus í dag.

föstudagur, mars 17, 2006

Påskeøl

P-dagur í dag, með öðrum orðum verður páskabjórnum hleypt af stokkunum og ofan í kok þyrstra landsmanna og kvenna kl.20.59 í kvöld. P-dagurinn og J-dagurinn (jólabjórinn) eru jafnan miklir hátíðisdagar hér í landi, enda páska og jólabjórinn sterkari en venjulegur bjór og þar að auki pínulítið eins og nammi á bragðið, þannig að það er hægt að vera enn fyllri en venjulega. Hvert mannsbarn hlýtur að skilja að slíkum tækifærum ber að fagna með tilheyrandi öldrykkju og ölæði, og aldrei að vita nema slíkt eigi eftir að gerast í kveld. Ég er reyndar orðin svo gömul að mig hálfhryllir við tilhugsuninni um að vera mjög full - engu að síður gerist það nú af og til. Eini munurinn er að þegar það gerist fer ég yfirleitt að sofa mjög fljotlega eftir að vissu stigi er náð, í gamla daga hefði ég hinsvegar tvíeflst og haldið áfram til morguns.
Haha, Armen spurði mig í vikunni hvort við ætluðum að vera "completely wasted or just drunk on Friday". Hvernig á maður að geta svarað svona spurningum? Yfirleitt fara plön og áfengi ekkert mjög vel saman, hvað þá plön um hversu mikils áfengis eigi að neyta. Mér hefur a.m.k. afar sjaldan tekist að fylgja þeim plönum.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Vortrikkið bar ekki tilætlaðan árangur. Veðurfræðingarnir spá áframhaldandi andstyggð langt fram í apríl. Á maður ekki bara að kasta sér fram af Langebro strax?

Ég fór að sjá Damian Marley í gær. Það var gaman og mikið af svörtu fólki og hvítu fólki að þykjast vera svart. Damian var alveg eins og snýttur út úr nös föður síns sáluga, nema að hann var í jakkafötum. Með honum á sviðinu var stærðarinnar maður sem veifaði enn stærri djamaískum fána alla tónleikana, og gerði ekkert nema það. Svo voru þarna beibsur að syngja bakraddir og röndóttur MC sem birtist af og til og sagði óskiljanlega en hvetjandi hluti. Ég skildi reyndar ekki mikið því sem Daddi sagði, nema það að hann boðaði líf án kjöts og fullyrti að hans og hans fólk "only be eating da fruits and da leaves". Mér fell þetta vel í geð þar sem ég borða orðið aldrei kjet. Tónleikarnir voru bara skemmtilegir og góð tilbreyting frá mínu fáránlega skedúlíseraða lífi. Svo var líka hressandi að sjá allt þetta svarta fólk með risastór afró og dredda. Hvar elur þetta lið manninn dagsdaglega og hvað er það að bralla hér? Við ætluðum svo að fara og hitta Önnu og Ausu en gáfumst upp og fórum heim og lögðum okkur. Á morgun er hinsvegar Karneval fest og mikið í uppsiglingu...

miðvikudagur, mars 15, 2006

Þessi Lakerol Giants auglýsing er mesta þvaður sem ég hef nokkurn tímann séð (ég elska að taka svo sterkt til orða, orðið nokkuð margt sem toppar mína lista). Hver færi nokkurn tímann að segja hluti á borð við: "Mmmm, this taste should last all night!" Hvern langar að bragðast eins og lakkrís í marga klukkutíma og persónulega myndi mig ekki langa að kyssa munn með Lakerolbragði. En hvað um það.


Þegar ég fór út í Amagersentrið í gær undir því yfirskini að ætla að kaupa kuskrúllu, endaði ég auðvitað á því að kaupa föt, í fyrsta sinn í heila eilífð. Ég var heltekin ótrúlegri léttistilfinningu þegar ég gekk þaðan út með dulitla poka í hendi mér. Mikið lifandis ósköp er gott að eignast nokkra nýja boli.

þriðjudagur, mars 14, 2006

Ýlir á vormánuðum

Í dag er helmingur marsmánaðar liðinn og af því tilefni ætla ég að prófa vortrikkið mitt. Vortrikkið felst í því að fara í vor/sumarjakka og sjá hvort að fari ekki að hlýna bráðlega úr því. Ég ætla reyndar aðeins að svindla og fara í lopapeysu undir, en ég þoli þennan kulda hreinlega ekki lengur. Svo nú ætla ég að labba mig út í Amagersentrið og festa þar kaup á nokkrum nauðsynjum. Og hei, ég er að fara á tónleika með Damian Marley á morgun - how cool is that?

Djöfull er múslí með mjólk gott. Belsöe múslí er líka frábært, besta múslí í heimi. Og ókeypis fiskiuppskriftabókin úr Nettó er fjársjóður ársins. Svo er líka frábært að vinna á DIS. Alltaf eitthvað ókeypis. Eins og t.d. ferskur og freyðandi kranabjór í ómældu magni (engin níska þar, ónei) í partíum fyrir nemendur og starfsfólk.

Annað má nú segja um þetta Veet vax-kjaftæði. Ég keypti mér pakka af strimlum hér á dögunum og hugði mér gott til glóðarinnar að þurfa nú einungis að reyta hárin af löppunum einu sinni í mánuði, já og undan armkrikunum líka. Mánaðarlega skyldi gripið til strimlanna góðu og þar á milli svífa um silkimjúk og sköllótt á leggjunum og undir höndunum. Adam var þó ekki lengi í paradís, því tja, ég veit það ekki, annað hvort kann ég ekki að nota þessa vitleysu eða þetta er bara meingallað rusl. Eitt og eitt hár á stangli tætist af og svo er maður bara allur klístraður og krímóttur eftir á. Og í guðanna bænum, aldrei að láta þetta koma nærri handarkrikanum. Maður límir strimilinn á og þar hangir hann eins og hver önnur gömul borðtuska, með svipaðan háreyðingarkrafti og fjaðrakústur. Þegar mér loksins tókst að tosa þetta af, var þykkt lag af gulu klístri í handarkrikanum á mér (og ekki eitt einasta hárstrá farið af!!), sem var ekki nokkur leið að ná af nema með sérstakri og þartilgerðri hreinsiservíettu.

Ég veit ekki um ykkur, en ég stend a.m.k. ekki í svona DIY-kjaftæði.

sunnudagur, mars 12, 2006

Leti mín er alger. Alger. Löngun mín í óhollustu er líka alger. Gersamlega alger.

föstudagur, mars 10, 2006

Mega það ekki með vissu teljast ellimerki að vel svífi á mann eftir 0.8 lítra af bjór, innbyrta á tveimur tímum (milli átta og tíu að kveldi), svo vel að röflað sé alla leiðina heim, eftir að hafa krafist að fara heim ekki seinna en strax? Kannski er þetta bara skynsemin loksins að pota sér inn í líf mitt. Enda er hennar þörf, þar sem ég hef nú í fórum mér um tuttugu vegabréf sem tilheyra ríkisborgurum annarra þjóða, og þarmeð velferð þeirra í hendur mér lögð.

fimmtudagur, mars 09, 2006

Í dag var fræðslufundur um Rússlandsferðina, hverrar undirbúningur er að taka yfir allt líf mitt. Krakkarnir virtust öll vera hin bestu skinn, nokkrir hressilegir strákar sem glottu við tönn þegar næturlífsdagskráin barst í tal, restin frekar friðsamleg og svo Sune. Sune er nærri fertugur og ókrýndur eilífðarstúdent ØI. Honum má best líkja við Furða í HÍ eða gaurinn í gulu dúnúlpunni í MH. Hann ákvað auðvitað á seinustu stundu að koma með, frekar óþolandi grey en grey samt.

Jæja, svo steig ég á vigtina í dag heima hjá Thomasi. Mér var brugðið og létt að sjá að líkamsþyngd mín var talsvert minni en ég átti von á, og hef því ákveðið að láta öll plön um að borða minna súkkulaði fjúka norður og niður. Enda er lífið ekki mikið fjör án súkkulaðs.

föstudagur, mars 03, 2006

Þetta finnst mér frábært. Spurning um að lesa fréttirnar aðeins betur áður en ráðist er í stórvirki.