blog... the modern person's cry for attention

laugardagur, júní 30, 2007

Á leið í sólina

Jibbí....!

miðvikudagur, júní 27, 2007

Sumarfrí

Fékk 9 á prófinu, sem var aðeins minna en ég vonaðist eftir, en er núna komin í sumarfrí. Það syndaflóð sem streymir yfir mestalla Norður-Evrópu náði til Kaupmannahafnar upp úr hádegi og ég ætla bara að vera heima hjá mér í dag.

þriðjudagur, júní 26, 2007

Ég þarf margt að gera næstu daga. Eins og t.d. að þvo heilan helling af fötum, fara í próf á morgun (sem ég er ekki í stemningu fyrir), pakka niður, kaupa afmælisgjöf handa Eilis, snyrta á mér tásurnar, ákveða í hverju ég ætla að vera þegar ég flýg til Amríku (það þýðir ekki að koma fyrir eins og ruslapoki þegar maður hefur ekki hitt unnustann í þrjá og hálfan mánuð)ganga frá lyklamálum (þar sem múgur og margmenni hefur í hyggju að gista herbergi mitt á meðan ég er í burtu, þarf að skipuleggja lyklabýtti af mikilli nákvæmni), skrifa notkunarleiðbeiningar að íbúðinni fyrir Hallgerði og Co., þrífa íbúðina, og jedúddamía þetta tekur engan enda. Brottför er svo á laugardaginn og mikið lifandis ósköp verð ég fegin þegar ég verð komin til Los Angeles í fangið á honum Armen.

mánudagur, júní 25, 2007

Arg. Er með mýflugnabit á stærð við potthlemma á fótleggjunum, og nú er ég ekki að ýkja stærð þessara andskota. Prófið er á miðvikudaginn og ég sveiflast milli þess að vera viss um að ég muni brillera á þessu og að finnast ég ekki vita neitt um málið. Ef fyrri kosturinn reynist vera ómögulegur, þá væri einhvers konar millivegur ákjósanlegur.

Annars er það í fréttum að við skötuhjúin erum komin með íbúð á Nörrebro. 1.september flyt ég því héðan frá Amager, og inn í skrautlegt mannlíf Norðurbrúar, þar sem strákarnir keyra upp og niður Nörrebrogade með arabíska popptónlist á hæsta styrk í bílnum, og konurnar eru ýmist vafðar inn í slæður eða klæddar að vestrænum sið. Ég hlakka geðveikt til, ef ég á að segja eins og er. Ekki svo mikið út af þessu með klæðaburð kvennanna, heldur af því að ég og er að fara að búa í ÍBÚÐ í fyrsta sinn síðan sumarið 2003, og mun upplifa þann munað að geta gengið milli herbergja og elda í öðru herbergi en því sem ég sef í. Ekki er verra að í þessari íbúð mun minn heittelskaði búa með mér, og það verður þá í fyrsta sinn sem ég bý með manni (ef undan er talið sumarið 2000, þegar ég og Andri bjuggum í 15 fermetra herbergi í nokkra mánuði).

föstudagur, júní 22, 2007

Ó, ég þoli ekki svona rigningu allan daginn. Verð hreinlega þunglynd af henni, eins kjánalega og það kann að hljóma. En sumir eiga erfitt með myrkrið á veturna, og ég á erfitt með gráveður og bleytu. Svo fer það greinilega heldur ekki vel í mig að borða pizzur eða pasta á daginn. Öll þessi kolvetni lama mig og senda mig í djúpan dásvefn.

fimmtudagur, júní 21, 2007

Ég er dottin ofan í lífrænu bylgjuna af þvílíku afli að það jaðrar við að vera hálfvandræðalegt. "Maður á ekki að trúa hverju sem er", sagði stífmáluð snyrtidama við mig í Magasin í dag, þegar ég spurði hana um hvernig málum háttaði hjá Clinique varðandi paraben og önnur efni sem auka geymsluþol snyrtivara, en líkur á ofnæmi, krabbameini og alls kyns óþverra hjá okkur mannfólkinu. Já, víst á maður ekki að trúa hverju sem er. Ég kýs samt að trúa því að það sé hollara fyrir mann að nota vörur sem ekki eru unnar úr bensínrestum og plastafgöngum. Hinsvegar á ég langt í land með að verða al-lífræn, því ég hef ekki efni á því. Ég á hvort sem alltaf eftir að taka nammiflipp og drekka of marga bjóra í partíu, svo háheilög er ég nú ekki orðin enn, og verð tæpast nokkurn tíma. Einhverja lesti verður maður nú að hafa.

Annars er mýflugnatíminn kominn á fullt og þær virðast una sér vel í þeirri rakamollu sem hangir yfir Kaupmannahöfn þessa dagana. Þess til sönnunar skarta ég fagurrauðum mýbitum á stærð við potthlemma á læri og kjálka. Svo er Jónsmessa á laugardaginn. Þá er til siðs að standa í kringum brennu með bjór í hendi og syngja "Sankte Hans, Sankte Hans". Ég hef ekki enn tekið þátt í þessu, að ég muni. Það er hvort sem er spáð rigningu.

þriðjudagur, júní 19, 2007

Það er alveg stórmerkilegt að hafa svona lítið að gera. Til allrar hamingju er ég komin með leið á sjónvarpinu,og horfi í mesta lagi á Bráðavaktina á daginn. Enda er það einn af mínum allra uppáhaldsþáttum. En svo hefur mér tekist að lesa nokkrar bækur, sem ég hef sannarlega ekki gert nóg af seinustu árin.
Loksins tókst mér að komast framhjá fyrstu þrjátíu síðunum í Vefaranum mikla frá Kasmír, en þá bók hef ég átt í sjö ár án þess að geta klárað hana. Ég held að ég hafi þurft að kynnast Dostojevskíj til að geta lesið Laxness. Nú vil ég gjarnan lesa meira af Laxness, hef bara lesið Sjálfstætt fólk og hana má svo sannarlega lesa aftur. Svo hef ég verið að gera plön um að lesa dálítið af fræðibókum í sumar, og ég held svo sannarlega að ég sé að komast í gír til þess. Og í sumar SKAL ég komast í gegnum Bræðurna Karamazov - það er önnur bók sem ég á, en stoppa alltaf á sama stað. Það er í raun ekki af því að mér finnist hún leiðinleg, alls ekki. Að einu leyti er mjög mikið af persónum í henni og nokkuð erfitt að hafa yfirblik yfir hver er hver, og svo hefur það nánast alltaf gerst þegar ég hef hafist handa við lestur þessarar bókar, að það hefur hreinlega verið mikið í gangi og ég kannski sleppt því að lesa í henni nokkur kvöld í röð, og þá fer allt út um þúfur. En í júlí ætti ég að hafa nægan tíma, meðal annars á flugi yfir Atlantshafið!

fimmtudagur, júní 14, 2007

Lífrænt, já takk

Ég er komin í lífræna fílinginn á fullu, bæði náttúrunnar og sjálfrar mín vegna, að ég tali ekki um ófædd börn mín. Hér í landi er þessa dagana mikið verið að ræða um hin og þessi efni sem eru að gera út af við okkur mannfólkið, en eru samt í mat og snyrtivörum í miklu magni!!!!! Þess vegna hef ég tekið þá ákvörðun að lifa eins lífrækt og ég hef efni og möguleika á, og í dag henti ég vel flestu úr mínu alltof stóra snyrtivörusafni og keypti skaðlausar vörur í staðinn. Vonandi slepp ég án teljandi meina frá því efnamengaða lífi sem ég hef lifað hingað til.

þriðjudagur, júní 12, 2007

Ellefti júní í dag, tuttugu dagar þar til ég pakka mínu hafurtaski og sting af í mánuð. Tuttugu og einn dagar þangað til að ég hitti Armen aftur. Tuttugu og einn af því að ég millilendi í London yfir nótt. Sem er svo sem allt í lagi, því þar býr hún Eilis, og það er hvort sem er kvöl og pína að sitja á rassinum í þá sautján til tuttugu tíma sem það tekur að komast héðan til San Luis Obispo. Svo er eitthvað svo kosmó að eiga vinkonu í London sem maður getur heilsað upp á, svona meðan er beðið eftir næsta flugi.

miðvikudagur, júní 06, 2007

Viggó viðutan

Nú er ég orðin alveg rugluð. Síðan á mánudaginn hef ég ekki gert annað en að gleyma hinu og þessu. Það byrjaði með því að ég gleymdi að fá 100 kr tilbaka í Fakta, og fattaði það svo auðvitað ekki fyrr en eftir lokun sama kvöld. Í gær var lokað í Fakta sökum þjóðhátíðardags, en ég ætla að fara þangað í dag með kvittunina og sjá hvort ég geti fengið peninginn minn tilbaka. Ég hringdi svo í mömmu þegar ég fattaði að ég hafði gleymt peningnum, til að segja henni frá þessu. Og gleymdi að hún átti afmæli, sem hún minnti mig svo sjálf á.

Jæja, í gær ákveð ég svo að skella mér til Rostock að heimsækja Steffi helgina 15. - 17.júní. Sem er að öllu leyti góð hugmynd, nema það að Anna og Pawel stoppa í Kaupmannahöfn þann 16.júní, og ég var eiginlega búin að segjast ætla að hitta þau. Þetta rann ekki upp fyrir mér fyrr en ég var búin að kaupa miðana og plana heimsóknina í samráði við Steffi, og þá fannst mér of asnalegt að hætta við. Til allrar hamingju eru þau skötuhjúin þó ekki bara að koma að heimsækja mig, heldur eru þau á leiðinni til Póllandzs í schnitzel og súrkál. Svo á hún Tinna mín leið hjá þann 18., og hana ætla ég auðvitað að hitta. I mellemtiden hafði mér þó tekist að staðfesta mætingu mína í grillpartí sama dag og bjóða annarri vinkonu minni með, en því hef ég nú aflýst. Ég veit svei mér ekki hvað er að gerast með hausinn á mér. Kannski nota ég hann bara ekki nóg.

þriðjudagur, júní 05, 2007

Ég er að missa vitið. Það er eins og ég sé stödd í einhvers konar hryllingskúlu leiðinda, atburðaleysis og lesturs. Mér finnst ég alltaf vanta félagsskap, alltaf þurfa að pissa, alltaf vera svöng og þar fram eftir götunum. Ég vil að þetta bannsetta prófræksni fari að eiga sér stað, svo það sé hægt að pakka því niður og halda áfram með smjörið.

sunnudagur, júní 03, 2007

Miljøskade

Áður fyrr dreymdi mig stundum að frægt fólk væru vinir mínir, þar á meðal má nefna J-Lo, Beyoncé og Usher. Svo dreymdi mig líka einu sinni að Naser Khader væri alveg bálskotinn í mér og vildi feginn skipta Bente (þáverandi konunni sinni) út fyrir mig, en sá draumur var nú greinilega eitthvað svona wishful thinking. Í nótt dreymir mig svo að meðal vina minna og kunningja séu Dovlatov og Akhmatova (rússneskur rithöfundur og skáld)! Í draumnum var ég fremur hreykin af þessum nýju vinum mínum, og var alltaf að reyna að koma þessum staðreyndum á framfæri við annað fólk. Svo dreymdi mig líka einhver ósköp um kynskiptinga og Felicity Huffman, en það er bara af því að ég var að horfa á Transamerica í gær. Sem ég mæli með.

laugardagur, júní 02, 2007

Reykingabann strax!

Ég er komin með ÓGEÐ á reykmekkinum sem liggur yfir öllu alls staðar hér í landi. Til hamingju Ísland, að vera aðeins framarlega í þessum málum. 15.ágúst munu Danir færast aðeins nær nútímanum, þá tekur gildi reykingabann á öllum matsölustöðum, og öllum börum stærri en 40 fermetra. Sem er náttúrulega allt of slappt, það á bara að banna reykingar alls staðar, en Danirnir eru ekki að ráða við svona miklar breytingar í einu.

föstudagur, júní 01, 2007

Í dag hringdi síminn minn til að minna mig á nokkuð, og það var að hún Marie Louise á 26 ára afmæli í dag. Ég hef furðað mig nokkuð á þessu, þar sem að ég þekki engan sem heitir Marie Louise. En til hamingju, hvar og hver sem þú ert.