Það er ótrúlegt til að hugsa, en við erum víst á leiðinni heim til Íslands á laugardaginn!! Á laugardaginn! Það er svo langt síðan að ég keypti farmiðana að ég var hálfpartinn hætt að trúa að þeir væru yfirleitt í gildi. Og jólin á mánudaginn ...tíminn líður svo hratt að maður sér bara rétt undir gráleitt skottið á honum þar sem hann spænir framhjá. Mér tókst loksins í dag að klára að kaupa allar jólagjafir, nú á bara eftir að pakka inn. Í ár hef ég tekið þá stefnu og stungið upp á við hina fjölskyldumeðlimina að hafa allar gjafir innan við 100 kr. danskar. Maður fer bara á hausinn annars og svo var eiginlega bara gaman að reyna aðeins á sig að finna skemmtilega gjöf innan þessara marka.
mánudagur, desember 17, 2007
miðvikudagur, desember 05, 2007
Hvert fór peningurinn minn eiginlega? Fannst ég eiga nóg af honum fyrir nokkrum dögum síðan.
Hvað um það, er að lesa Sjálfstætt fólk þessa dagana. Mesta furða hvað þessi bók fór fram hjá mér í menntó, man alveg eftir að hafa lesið hana en minnist þess ekki að hafa fundist hún neitt annað en leiðinleg þá, eða bara langdregin. Í þá daga þurfti allt að vera svo spennó og helst eittthvað dónalegt á hverri síðu. Núorðið nýt ég þess bara að lesa íslenskuna hans Laxness, hún er svo falleg. Armen hefur reyndar lesið þrjár bækur eftir Laxness og þar með mun betur að sér í honum en ég, blessaður maðurinn minn sunnan úr höfum. Um daginn spurði hann mig hvort að það væri hægt að rækta eggaldin og avókadó í gróðurhúsum á Íslandi. Ég varð að hryggja hann með því að segja að það væri því miður ólíklegt, svona miðað við meðaltal sólartíma á landi voru.
laugardagur, desember 01, 2007
Það læðist að mér óhugnalegur grunur. Grunur um að sú staðreynd að ég bý með kærastanum mínum fái fólk til að halda, að ég hafi misst áhugann á að fara út um helgar. Eða fara út yfirleitt.