Í morgun upplifði ég í fyrsta sinn, eftir fimm ára búsetu hér í borg, að sjá aðra hinna tveggja stóru brúa, sem tengja Amager við meginlandið, ljúkast upp. Ég var á leiðinni í gufubaðið á Nörrebro og kom hjólandi út Torvegade og upp þá brú sem ég er nokkuð viss um að heiti Börsbroen (ég ætti náttúrulega að vita það eftir að hafa búið hér þetta lengi), og sá þá að brúin stóð upp á endann og skip að sigla undir hana. Akandi vegfarendur og hjólreiðafólk safnaðist saman í biðröð eftir brúnni og beið þess að hún lykist saman á ný. Ég hafði aldrei séð þetta áður í Kaupmannahöfn og starði opinmynnt á undrið, og þar sem mér varð litið í kringum mig á fjöldann, tók ég eftir að það ríkti alger þögn. Dauðaþögn. Og það er nú svolítið sérstakt, því Danir eru vanir að röfla og kvarta hástöfum við sjálfa sig eða næsta mann, ef eitthvað verður til þess að hindra ferðir þeirra, eins og t.d. löng röð í Nettó. En mannfjöldinn þagði, í lotningu liggur mér við að segja. Ég held að ég hafi aldrei séð jafn marga Dani samankomna í jafn djúpri þögn.
þriðjudagur, febrúar 27, 2007
mánudagur, febrúar 26, 2007
Á morgun ætla ég að byrja daginn á að fara í sánu hjá Sjællandsgade Badeanstalt. Ég hefði átt að vera búin að gera þetta fyrir löngu. Annars er held ég ekkert merkilegt í fréttum. Skóli, sem ég er alltaf að verða betri og betri að sinna, eftir nokkurra ára hálfnám, vinna, sem ég hef gaman af og er krefjandi, og veður sem er hvorki betra né verra en það sem gengur og gerist.
sunnudagur, febrúar 25, 2007
þriðjudagur, febrúar 20, 2007
sunnudagur, febrúar 18, 2007
ARG
Bóla á tungu minni. Hún gerist sí aumari og meiri um sig með degi hverjum. Ó að ég væri enn svo trúgjörn að "Ein bóla á tungu minni, engin á morgun" gæti enn haft áhrif.
föstudagur, febrúar 16, 2007
Annars...hlæhlæ, hún Anna Hera sendi mér tengil á hinn alrómada Kastljósthátt med drykkjusvolanum A.F. Stórkostlegt. Ég vildi ad ég hefdi unnid ad gerd thessa tháttar.
Fann thetta á netinu og vard eiginlega bara óglatt. Hvernig er hægt ad fara fram á ad nokkur líti svona út?
þriðjudagur, febrúar 13, 2007
Nú er ég búin að baka rúgbrauð. Hlakka til að smakka á því á morgun. Ég held að það geti verið að ég endi eins og amman sem ég átti ekki, þessi sem er með hárið í hnút að baka og brasa ofan í börn og barnabörn allan daginn, og þess á milli að dytta að heimilisverkum og vökva blóm. Svo segi ég skemmtilegar sögur frá því þegar ég var ung, og barnungarnir sem sitja við fótskör mína trúa því varla að amma hafi einhvern tímann verið svona klikkuð eða gert svona margt spennandi. Reyndar er helmingurinn af mínum sögum ekki beinlínis við hæfi barna.
sunnudagur, febrúar 04, 2007
Á föstudaginn fór ég út að djamma í fyrsta sinn síðan julefrokostinn í byrjun desember, og tókst það nokkuð vel. Ég kom ekki heim fyrr en um sjö á laugardagsmorgun, á útjöskuðum hælum og útklínd í tómatsósu (babybites eru óhjákvæmilegur hluti af næturlífi mínu) og fór að sofa eftir að hafa talað við Armen, sem var orðinn fremur áhyggjufullur yfir skeytingarleysi mínu um að svara farsímanum. Hann hafði alveg gleymt því að ég ætlaði út og skildi ekkert í því að ég svaraði ekki. Svo lá í ég í bælinu þar til klukkan var farin að ganga fimm. Þá reis ég úr rekkju og fékk mér að borða, fór í sturtu og hlúði að sjálfri mér. Sumir hefðu nú haldið að ég myndi svo eiga erfitt með að sofna um kvöldið, en nei, ég sofnaði yfir Almost Famous upp úr níu og hraut í sófanum í tvo tíma áður en ég hafði mig inn í rúm. Ég svaf svo til rúmlega átta í morgun! Þetta getur maður kallað alvarleg eftirköst.
Í dag er ég hinsvegar búin að vera afar iðjusöm. Ég fór í ræktina og hamaðist þar á tækjum og lóðum, keypti svo inn og fór heim og bakaði brauð og bollur og þreif íbúðina mína. Svo kom Lena í kaffi og núna er dagurinn líka bráðum búinn.
föstudagur, febrúar 02, 2007
Mikið ógurlega get ég eytt miklum tíma í vitleysu á netinu þegar ég á að vera að læra. Ég held líka að aðalástæðan fyrir því sé að mér leiðist að búa ein og vil ímynda mér að ég sé að tala við einhvern. En þar sem ég er greinilega ekki að fara að leggja í Karamzin næsta hálftímann held ég að mér sé réttast að fara í Nettó og kaupa klósettpappír. Aldrei að vita nema ég kaupi svolítið nammi til að stytta mér stundir við lesturinn. Þá getur verið að ég bæti aðeins á mig og vonandi sest það þá á júllurnar, þær eru því miður ekki svipur hjá sjón miðað við það sem áður var. Ég vil helst stöðva þessa þróun.
Hinn ameríski draumur í Santa Monica.
Svo vil ég smella hér inn einni mynd af mér og kærastanum mínum, til þess að vera soldið væmin. Hann er nefnilega alveg óhugnalega sætur og ég er alveg fáránlega skotin í honum.
fimmtudagur, febrúar 01, 2007
Ég er ekki í lagi. Í gær þurfti ég að ná í mömmu en hún var ekki á Skæpinu og ég hvort sem er á þvælingi um bæinn. Ég sendi henni því sms, en mig grunar að hún kunni ekki að opna smsin á símanum sínum, því aldrei hef ég fengið nein svör við þeim fáu smsum sem ég hef sent henni. Og svo kemur hún alltaf af fjöllum þegar ég fer að spyrja. Svo datt mér í hug að senda Hallgerði sms og biðja hana um að biðja mömmu að hringja í mig, og var að rifja upp símanúmerið hennar þegar ég mundi allt í einu eftir að stúlkan sú er í Suður-Ameríku og búin að vera í einn og hálfan mánuð. Það má lesa um ævintýri hennnar, villt og tryllt eins og þau eru á www.suduramerika.com .