Ef ég ætti stafræna myndavél eins og hún Krunka mín, þá myndi ég taka myndir af flutningaferlinu hér á Brigadevej. Smátt og smátt minnkar búslóð mín í ummáli, húsgögnin hverfa smámsaman til annarra vistarvera, eða þá á haugana, og bækur, skrautmunir og hnífapör leggjast ofan í stóra brúna pappakassa. Allar þær fatadulur sem ég hef sankað að mér undanfarin ár fara í gegnum nákvæma skoðun og mat á því hvort það sé þess virði að drösla þeim með sér um heiminn, og sama hvað ég sortera og sortera, finnst mér alltaf vera hægt að henda einhverju meira eða gefa til Rauða Krossins.
Svo er ég búin að prófa hið reyklausa danska skemmtanalíf. Þvílíkur munur, segi ég bara, í gær var í fyrsta sinn hægt að sjá þvert yfir dansgólfið, þar sem áður var þykkur grár mökkur og ekki gott að vita hver var hver eða hvað.
fimmtudagur, ágúst 23, 2007
fimmtudagur, ágúst 16, 2007
Ævilangt garantí eller...?
Á dögunum keypti ég svona orkusparandi ljósaperu. Peran atarna var fokdýr, hinsvegar mun hún minnka rafmagnskostnað og endast í a.m.k. átta ár. Átta ár! Ég verð sem sagt orðin 35 ára áður en hún slökknar í seinasta sinn. Pælið í því.
Ég skil ekki þetta létta en taktfasta bank sem ég heyri úti í vinstra horni ofantil hér í kytru minni nærri daglega. Byrjar rólega en síðan eykst hraðinn þar til að það stoppar. Þetta getur nú varla verið fólk að eðla sig, nema það sé algerlega daufstummt og geti ekki komið upp hljóði, og þá hlyti það þar að auki að vera að athafna sig á einhverri ofurléttri mublu. Nei, ég skil þetta ekki.
miðvikudagur, ágúst 15, 2007
Reyklaust konungsveldi (næstum því)
Til hamingju, Danmörk, með að hafa stigið skref í átt til almennrar skynsemi í reykingamálum. Í dag gekk í gildi reykingabann á svo gott sem öllum vinnustöðum og öllum veitingastöðum yfir 40 fermetra að stærð. Ég held mig þá bara frá litlu búllunum.
þriðjudagur, ágúst 14, 2007
Ég nenni nú ekkert að skrifa á þetta blogg þessa dagana, enda er ég ennþá í hálfgerðu fríi og fátt um spennandi atburði í mínu lífi. Fyrir utan það að ég er að reyna að selja húsgögnin mín og á fullu að sortera föt og annað dót sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. Eða á fullu, það er nú kannski fullsterkt til orða tekið.
Svo fer ég til Berlínar á fimmtudagskvöldið, að hitta föður minn gamla og Ingibjörgu systur. Pabba hef ég ekki séð síðan...2003! Ég get svo svarið það. A.m.k. man ég ekki eftir að hafa hitt hann síðan.
miðvikudagur, ágúst 08, 2007
Úff. Ég var búin að gleyma hvað maður er alltaf sveittur og klístraður þegar sumarhitinn lætur loksins sjá sig hérna í Danmörku. Sumarið er semsagt á endanum komið, eftir mikið hryllingsveður og flóð allan júlí, sem ég slapp til allrar hamingju við.
Í gær fór ég að skoða íbúðina sem ég og Armen flytjum bráðum inn í. Hún er lítil, tveggja herbergja með pínu,pínulitlu klósetti og litlu eldhúsi og engri sturtu. Sturturnar eru niðri í kjallara, en þar sem að þessi íbúð kostar nærri ekki neitt erum við ekki að setja staðsetningu sturtanna fyrir okkur. Niðri í húsagarðinum er hægt að hengja upp þvott (jibbí, ég elska að þurrka þvott úti) og grillaðstaða og allskonar danskt hyggedót. Ég hlakka mikið til að flytja þangað, enda finnst mér stundum að líf mitt hafi staðið í stað í vetur á meðan ég var að bíða og bíða eftir einhverri óvissri framtíð sem fæli í sér að við Armen gætum búið einhvers staðar saman.
Undanfarið hef ég því verið að henda og sortera út úr dótinu mínu, gaf Joe og Nönnu fullan poka af geisladisku og henti öðrum fullum poka. Einhverju henti ég líka af bókum og er að reyna að troða sumum bókum upp á annað fólk. T.d. gaf ég Ninu í nr 238 Sushi for beginners, enda finnst mér sú bók vera bók af því tagi sem maður á bara að senda áfram til næstu konu að lestri loknum. Mest allt af húsgögnunum mínum ætla ég að selja, henda eða gefa, þar sem að öll húsgögn verða í íbúðinni. Mér finnst hvort sem er best vera ekki að sanka að mér drasli í lífinu, það er alltaf léttir að því að sortera og henda.
mánudagur, ágúst 06, 2007
Ó lord. Það fer ekkert framhjá manni að vinnan sé hafin á ný. Klukkan er hálfsjö og ég var að koma heim, búin að vera ellefu tíma á þeytingi. Sýnist á öllu að snælduvitlaus önn sé framundan, en skemmtileg og spennandi engu að síður. Til allrar hamingju var nýja platan hennar Eyvarar að detta inn um póstlúguna, og færeyska gyðjan léttir mér lífið með söng sínum.
laugardagur, ágúst 04, 2007
Það er eiginlega bara gott veður hérna. Ég átti von á að koma heim í haustdrunga, kulda og rigningu, og svo er bara hiti og sólskin.
Vaknaði snemma í morgun og tók minn tíma í það að lesa Politiken og borða múslí og drekka te. Eftir tíu tíma svefn, nótabene. Í gær ætlaði ég nefnilega að horfa á Elling (elska, elska, elska þessa mynd) en ég held að ég hafi séð í mesta lagi tíu mínútur af henni áður en ég lognaðist út af. Eftir morgunmat dúllaði ég mér við hitt og þetta og fór svo í ræktina, þar sem var múgur og margmenni að hamast á hlaupabrettum og maskínum af ýmsu tagi.
Það er nú svolítið spes stemning í þessari rækt. Í bland við sauðalitann og skvapaðann almúga ganga þar um gólf vöðvafjöll í netbolum með gullkeðjur um háls og einstaka dökk-appelsínugulbrúnar aflitaðar gellur í magabolum og allir einhvern veginn alltaf að tékka á öllum. Mér finnst a.m.k. alltaf vera þvílík glápt og einhver furðuleg höslstemning í gangi. Svo eru margir með farsímann með sér milli tækjanna. Hvað er það eiginlega? Fyrir mér er sá tími sem ég eyði í ræktinni minn einkatími og ég nenni ekkert að fólk sé að hringja og trufla mig.
Svo fór ég að hitta Alexöndru. Við drukkum kaffi á kaffihúsi á móti Kristjaníu, röltum svo inn á Christianshavns Plads og borðuðum þar pulsur og sátum við hafnarbakkann og veifuðum þeim sem sigldu hjá. Vinkona mín nýtti einnig tækifærið til að sýna túristunum sem voru á "kanaltur" nýju tútturnar, þeim til mikillar ánægju. Svo fórum við á Sofiekælderen og sátum úti og drukkum belgískan bjór. Eftir að hafa kynnst því frábæra úrvali af bjór sem er að finna í Kaliforníu, er ég eiginlega orðin hálfkresin á bjór. Bestur finnst mér hveitibjór eða bjór með sætum keim, helst ávaxta og blómakeim, eða jafnvel með ávaxtabragði. Því miður er úrvalið á börunum hér yfirleitt frekar slappt, en hinsvegar er orðið hægt að fá ýmis konar góða bjóra í Netto og í öðrum verslunum.
föstudagur, ágúst 03, 2007
Flugþreyta
Vaknaði klukkan hálfþrjú í nótt eftir þriggja og hálfs tíma svefn við ólæti í nágrönnunum. Þar sem ég hef sjálf ekki látið mitt eftir liggja í partílátum, tel ég mig ekki í neinum rétti til að segja öðrum að lækka, og mátti því liggja svefnlaus frameftir nóttu. Þegar gauragangurinn hætti loksins, gat ég hvort sem er ekkert sofnað og fór því á fætur um fimmleytið í morgun. Reyndar er það ekki bara nágrönnunum að kenna, líka blessaðri flugþreytunni sem gerir mann alveg kolruglaðan.
Það er bara ágætt að vera komin hingað aftur. Íbúðin mín er talsvert hreinni og fallegri en sú ungsveinakytra sem Armen og vinir hans bjuggu í (þeir voru fluttir út þegar ég kom en húsið var engu að síður viðbjóður), og allt dótið mitt er svo marglitt og fínt og stelpulegt. Á mánudaginn fer ég að sjá "nýju" íbúðina og hlakka mikið til þess. Íbúð! Ég hef bara búið í herbergjum síðan haustið 2003, svo það verður gaman að hafa smá meira pláss og geta gengið milli herbergja.
Annars er ég að lesa Íslenska þjóðhætti eftir Jónas frá Hrafnagili, svona í bland við Bræðurna Karamazov. Það er nú hollur lestur hverjum sem er, sérstaklega dekurbörnum eins og ungu kynslóðinni í dag (sem ég tilheyri líka). Ég hef alltaf haldið því fram að hefði ég fæðst í gamla daga hefði ég ekki lifað nema í mesta lagi til fimm ára aldurs. Efni þessarar bókar staðfestir þessa fullyrðingu mína, enda get ég ekki séð hvernig hálfblint, smágert barn með eilífa kvef- og ælupest hefði getað lifað af í reykfylltri og morkinni baðstofu , í kulda og myrkri og án efa alltaf blautt í fæturna. Ef foreldrar mínir hefðu lifað við sömu kjör þá og þau gerðu á níunda áratugnum, svona hlutfallslega séð, hefðum við sjálfsagt ekki haft annað en fiskbein og tægjur, soðnar saman við mjólkurbland til átu, og kannski skyrhræring á tyllidögum.