blog... the modern person's cry for attention

fimmtudagur, júní 22, 2006


Smá ferðasaga, þótt gömul sé. Þetta eru myndir úr fyrstu Rússlandsferðinni minni með DIS, haustið 2005.


Ég og Armen á Ultra Bar í Moskvu. Hér vorum við nýbúin að kynnast og vorum sko "bara vinir", en það átti nú eftir að breytast fyrr en nokkurn varði!
















Hótel Úkraína í Moskvu. Þar hef ég gist og þar er allt vaðandi í mellum.























Ég á einhverju safni. Á flestum rússneskum söfnum þarf að fara í skóhlífar, sem eru yfirleitt mjög fornfálegar að sjá, einhvers konar leðurleppar sem festir eru á skósólana með böndum. Þarna er ég samt komin í venjulegar svartar úr plasti en voða fannst öllum gaman að sjá mig með þær yfir rauðu stígvélunum!



















Ég og Lisa hið sama kvöld á Ultra Bar að fá okkur fyrsta glasið (þau áttu eftir að verða fleiri) eftir "a long and hard week"!

Hvaða vitleysa er hér í gangi? Nú er ég búin að skemmta mér yfir Ópru og Dr.Phil allt síðdegið (eftir að ég kom heim úr prófinu sko) og gripið í húsverk í auglýsingahléum, og svo slokknaði bara óforvarandis á bæði Kanal3 og Kanal3+. Það er eins gott að þessu verði kippt í lag snarest muligt, því ég vil vita hvaða stelpa verður send heim í TopModel, sem á að byrja eftir korter.

En prófið, já. Það gekk vel, fékk 9 sem er sjálfsagt eins og að fá 8 á íslenskan skala, er bara sátt við það og sérlega sátt við þá staðreynd að þetta var seinasta prófið í BA-gráðunni. Þegar ég fæ einkunnina fyrir bókmenntaritgerðina, get ég með sanni sagst hafa BA-gráðu í rússnesku, húrra! Í tilefni dagsins er ég að sjóða kjötsúpu úr lambaketi, sem brosmildur Írani seldi mér í dag, og svo koma Lisa Hoelle og Eric á eftir. Þau vinna á DIS og eru skemmtileg. Vonandi taka þau fullt af víni með svo við getum orðið pínu full, svona í tilefni dagsins já. Hér fyrir ofan má sjá mynd af mér og Lisu að fararstýrast í Rússlandi á seinustu önn. Í þeirri ferð kynntist ég einmitt honum Armen, sem er kærastinn minn í dag. Held ég skelli bara inn nokkrum myndum úr þeirri ferð, svei mér þá.

Hvaða voða er ég afslöppuð. Eftir tvær sléttar klukkustundir fer ég í próf og ég er bara að róla hér heima eins og ég sé að fara á snyrtistofu.

þriðjudagur, júní 20, 2006

Eins og fólk kannski man eftir, þá skelltum við Anne okkur á hvítasunnukarnevalið hér um svonefnda hvítasunnuhelgi. Fjörið var yfirgengilegt og fyrir þá sem ekki geta gert sér ójarðneska gleðina og taumlausan dansinn í hugarlund, fylgja hér myndir máli mínu til sönnunnar:






Söguhetjurnar.Voða sætir strákar þarna á næstu röð!



Svona var stuðið rosalegt!


Ég í sveittum dansi við dóttur höfðingjans.


Takið eftir því hversu ánægðir áhorfendur eru á svipinn.


Verið að reyna sig við kraftamennsku.


Anne og nýji besti vinur hennar, Anna Agarfa (eða eitthvað þannig).

Haldiði að sé stuð!!!




















mánudagur, júní 19, 2006

Arg. Ég á enn eftir að kaupa almennilegt tjald, fara í próf, vinna fullt af vöktum, kaupa afmælisgjafir handa ég veit ekki hvað mörgum, fara í klippingu og kaupa regnföt/hotpants, allt eftir veðurspá, áður en þessi Hróarskelda þarna skellur á. Andskotinn.

sunnudagur, júní 18, 2006

Rakst á þessa vænlegu gríslinga í politiken.dk og fannst tilvalið að skella þeim inn, enda fátt annað betur til þess fallið að kveikja bros á vör en lítill iðandi og bleikur smágrís, hvað þá ef um er að ræða nokkur stykki.

laugardagur, júní 17, 2006


Til hamingju Ísland og Íslendingar allir, á Fróni og erlendri grundu! Í dag er þjóðhátíðardagur og því ber að fagna. Ef ég væri á Íslandi eða amk nálægt öðrum landsmönnum myndi ég gera eitthvað í fagnaðarmálum, en svo er ei. Hér sit ég í landi fyrrum herraþjóðar vorrar, í hálfruslalegu herbergi með blautt hár og fulla þvottakörfu að bíða eftir mér. En svona til að marka daginn hef ég sett hér inn mynd af lítilli kisu. Eitthvað verður maður að hafa. Til hamingju allir og til hamingju Ásdís sem er 27 ára í dag!

fimmtudagur, júní 15, 2006

Um daginn var mamma að tjá mér hversu mikið hún óskaði sér að við systurnar værum eða yrðum bráðlega vel giftar. Nú er hann bróðir minn bæði búinn að gifta sig og eignast barn, og þar með tekist að skjóta okkur systrunum ref fyrir rass í þessum efnum. Það hljómar sjálfsagt kjánalega að segja svona þegar maður er tuttugu og fimm ára, en mér finnst á þessu stigi málsins að ég hafi lifað svo lengi og gert svo margt að mér er farið að finnast hálfólíklegt að þetta giftingardæmi og börn muni nokkurn tímann gerast. Sérstaklega þegar ég sé hversu margir sem ég þekki meira eða minna eru að gifta sig og koma börnum í heiminn. En svo á þetta eflaust eftir að gerast, enda eru fjögur og hálft ár fram að þrítugu (eins og það sé eitthvað aldurstakmark), heldur ekki eins og gröfin bíði manns eftir The Big 30. Það er heldur ekki eins og mér liggi á með þetta...en skiljiði hvað ég er að meina, þið sem eruð ógift/ar og barnlaus/ar?

Hér á Sjálandi er musvåge nokkur að hrella hlaupara í skógi norðarlega á eyjunni. Þetta minnir mig á þegar Ivan laug að mér að það væri sífellt eitthvert illfygli með stærðarinnar gular glyrnur að guða á gluggann honum, mursejler að heiti. Slíkur fugl er mér vitanlega ekki til en ég trúði þessu eins og hvert annað nýborið lamb. Trúgirni hefur löngum loðað við Álfatúnsfjölskylduna, til dæmis er nú hægt að ljúga flestu í hana mömmu og hún trúir því í a.m.k. smástund. Á hinn bóginn eru þau Gunna og Hreggi frændsystkini mín lygnasta fólk sem ég hef nokkurn tímann kynnst. Þau skemmtu sér yfirleitt konunglega við að plata okkur Óskar þegar við vorum í sveitinni í gamla daga. Hildigunnur frænka var líka oft að plata mig hér áður fyrr, svo ég veit ekki alveg hverju þessi lygasýki annars vegar og trúgirni hins vegar sætir, því ekki veit ég til annars en að við séum öll náskyld.

mánudagur, júní 12, 2006

Hrikalega er ég löt þegar kemur að próflestri. Það er svona rétt að maður nenni að glugga í þetta. Hugsanir mínar snúast aðallega um hvernig sumarskó ég eigi að kaupa mér, hvenær og hvað eigi að grilla og hvort ég sé nú orðin bara pínu brún. Ykkur að segja verð ég sennilegast aldrei brún, í mesta lagi svona smá gyllt slikja þegar best lætur. Svo er ég búin að fylla gluggakistuna af kryddplöntum af ýmsu tagi svo hér ríkir mikil jurtagarðstemning. Nú ætla ég að fara og kaupa mér nammi og ekki læra meira í kvöld, heldur horfa á The Client á Kanal5.

föstudagur, júní 09, 2006

Varð bara að koma þessu að, ég er svo ánægð með þetta!

Hótanir mínar virðast hafa borið árangur, veðrið er orðið svo hrikalega gott og fer einungis batnandi, að það er ekki nokkur leið að sitja inni. Hugsanir mínar snúast einvörðungu um strandferðir, skærbleik bíkíní, letilíf á útikaffihúsum og grillpartí á kveldin. Og svo af og til vitfirrt partí þar sem allir eru geðveikt sætir og brúnir (nema ég, ég er auðvitað hvít sem lilja og þarafleiðandi pale and interesting) og í geeeeeeeeeðveiku stuði. Bara svona hversdagsfantasíur sko.

mánudagur, júní 05, 2006

Í gærkveldi var brjálæði. Litadýrð, trumbusláttur, brosandi andlit í öllum litum og æsandi taktur rennur út í eitt...veit varla hvar ég var, fólk segir að þetta hafi átt sér stað í Fælledparken en fyrir mér hefði þetta getað verið í Kenýu eða einhverju álíka framandi landi. Konur í glitrandi bikiníum með fjaðraskraut á höfði, indjánar í fullum skrúða, svartir menn í hóp að syngja og spila á trommur og ég að dansa í hringnum. Núna finnst mér eins og þetta hafi verið draumur en aumir vöðvar og óhreinir skór bera þess vitni að þetta hafi gerst í raun og veru. Hið sama segja silfureyrnalokkar í líki drekaflugu, sem ekki lágu í skartgripaboxinu mínu í gær.