Í gær var lokaspretturinn í stress og vinnumaraþoni ársins, og endaði ég það með því að verða mjög full, eins og ég hafði ákveðið fyrr um daginn. Mér finnst nefnilega langauðveldast að slappa af og vera ekkert að stressa mig þegar timburmennirnir eru í heimsókn, eins og ég útskýrði fyrir öðrum torsdags-bargestum á meðan ég serveraði öl og vodka í stríðum straumum. Svo varð ég full og ræddi margt og merkilegt málefnið við aðra viðstadda, og ráfaði að lokum inn í CNI-barinn í næsta herbergi. Þar hitti ég fyrir hann Thomas, nágranna minn og flagara mikinn. Við settumst við barinn og drukkum ókeypis bjór og töluðum um ástina og lífið, og ég sagði honum að nú ætti hann ekki að reyna neitt við mig, því við værum vinir og fyrir utan það er hjarta mitt lofað öðrum manni, sem ég tjáði mig einnig mikið um. Svo neyddi ég hann til að dansa við mig og eitthvað fannst honum erfitt að halda viðreynslunni í skefjum, því hann var sífellt að reka upp gól: "Pas på, nu er jeg altså meget tiltrukket af dig!" Haha! Gaman að þessu.
Hvað sem timburmönnum líður, er ég bara alveg að verða ferðafær, á eftir að raspa, pússa og lakka á mér táslurnar, henda nokkrum varalitum ofan í tösku og svo er ég bara reddí. Ástmaðurinn yndisfagri tekur svo á móti mér í San Fransiskó og svo verðum við þar eina nótt, og svo förum við heim til hans í San Luis. Jii, ég er svo spennt!
föstudagur, september 22, 2006
miðvikudagur, september 20, 2006
Ég er alveg að verða búin með stresskvótann yfir Ameríkuferðinni. Held svei mér þá þetta verði bara í lagi. Sjálfsagt ekkert öðruvísi en öll þau önnur skipti sem ég hef mætt út á völl með vegabréf og prentaðan snepil í hendi, sest upp í vél vandræðalaust, tekist á loft, flogið og lent á sama hátt vandræðalaust. En nú þarf ég að fara að byrja að leggja ofan í tösku svo allt þetta megi gerast.
mánudagur, september 18, 2006
Halló halló. Ég er svo spennt yfir yfirvofandi Ameríkuferð að mér finnst ég ýmist þurfa að pissa í buxurnar eða þá er ég hrædd um að gleyma að mæta út á völl. Efast nú um að það seinna gerist, eða það fyrra heldur. En svei mér, ég hef aldrei farið í svona langferðalag, og hvað sem öllu Rússlandsbrölti heilsast, þá finnst mér ég aldrei hafa verið svona stressuð og spennt yfir nokkru ferðalagi síðan að ég var lítil. Allir að krossa fingur fyrir mér!
Svo er hér mikið familíuhúllumhæ, mamma, Gunnar, Sigga Stína frænka (langskemmtilegast frænka mín) og maðurinn hennar Þór, og börn Vala og Hákon, eru í bænum. Alveg frábært að vera svona mikið samvistum við þessa blessuðu fjölskyldu, sem ég sé því miður allt of lítið af, t.d. hef ég ekki séð Siggu Stínu og kó í tvö ár!
þriðjudagur, september 12, 2006
" Og það gekk allt svo vel", eins og Hilmir Snær frændi minn tjáði sig um frammistöðu sína í þýskri bíómynd um árið. Mér finnst líka að mér hafi gengið vel að kenna rússnesku í dag, alltaf var ég að skrifa á töfluna, taka framburðaræfingar og koma með ný orðasambönd og reyna að hafa þetta í þokkalegu samhengi svona. Nemandinn er ung stúlka af amerísku bergi brotin og virðist hún vera vænsta skinn. Ég var að vísu með fitugt hár, síþambandi vatn, sjúgandi upp í nefið og tvístígandi af pissiþörf mest allan tímann, en mér finnst samt að þetta hafi gengið sæmilega fyrir sig. Bráðum verð ég orðin jafnklár og hún Júlía dökkeyga og sæta, sem kenndi mér rússnesku á Spetsfak í Pétursborg. Þeirri konu á ég sko mikið að þakka.
En nú er klukkan svei mér orðin tíu og ef ég á að ná að lufsast í gegnum Karamzin, lesa um horf rússneskra sagna og undirbúa mig fyrir næsta kennslutíma á fimmtudaginn, ásamt því að sinna annarri vinnu, heimili mínu, sjálfri mér og ýmsum öðrum, er ekki til setunnar boðið. Og hananú.
sunnudagur, september 10, 2006
Hor í nös og sussubía.Haustkvefið og þartilheyrandi snýtingar og óþverri láta ekki á sér standa þetta sólríka haust. Nú er ég orðin rússneskukennari á DIS og kenni þar ungri dömu að snúa upp á tunguna á sér og segja skál og góðan daginn. Mikið er ég ánægð með þessa þróun mála. Fyrsti tíminn er á morgun og ég þarf að kíkja í bækurnar.
þriðjudagur, september 05, 2006
Ég get svo svarið það að ég er alltaf með eitthvað í auganu. Spurning hvort að það komi eitthvað nýtt á hverjum degi eða hvort það sé alltaf sama kuskið að angra mann?
Steve Irwin er dáinn og mig langar að senda Australia Zoo póstkort, eða konunni hans eða einhverjum sem þekkti hans. Ég tók andköf þegar ég sá fréttirnar um daginn og mín fyrsta hugsun var að hringja í Armen, því við horfðum gjarnan á þættina hans saman. Skrýtið þegar frægt fólk deyr og maður tekur það nærri sér. Ekki þekkti ég Steve Irwin neitt nema úr sjónvarpinu, en hann var nú þar ansi oft og virtist gefa sig allan í það starf. Hvíldu í friði, Steve Irwin, ég og milljónir fólks um heim allan munum syrgja þig og aldrei gleyma þér.