laugardagur, mars 31, 2007
föstudagur, mars 23, 2007
Bágt á ég að bíða
Hvernig á ég að lifa af fram að klukkan fimm á morgun? Hvar ertu, Rómeó, hvar ertu?
fimmtudagur, mars 22, 2007
miðvikudagur, mars 21, 2007
Ég ætlaði að gera einhver ægileg ósköp í dag. En þegar ég hjólaði heim úr vinnunni um hádegisbilið, var svo kalt og slydda og haglél að angra mann, að ég gafst upp og eyddi öllum tímasetningum úr dagskránni. Nú ætla ég að hygge mig hérna heima, leggja stund á nám og heimilsverk og hver veit nema ég búi til kakó seinna í dag.
mánudagur, mars 19, 2007
Þessa dagana er ég á fullu að lesa mér til um sögu Sankti Pétursborgar, Moskvu og hins fornar bæjar, Novgorod. Þetta er umfangsríkur lestur, enda margar frægar persónur og staðir sem koma við sögu, og þetta þarf ég að hafa á hreinu þegar ég legg af stað sem ferðastýra þann 1.apríl. Til allrar hamingju hef ég heyrt þetta allt oft áður, en aldrei lagt sérstaklega á minnið. En mér finnst bara fínt að endurnýja kynnin við sögu Rússlands, það væri nú ekki gott að útskrifast með meistaragráðu í rússneskri tungu og menningu og standa svo alveg á gati, jafnvel þó að ég sé á málvísindabraut. Ég sé fyrst og fremst eftir því að hafa ekki hlustað betur í sögutímunum á fyrsta ári, en þá hafði ég mjög takmarkaðan áhuga á sögu yfirleitt, þó ég minnist að hafa þótt tímarnir í sögu Austur-Evrópu mjög spennandi, þar sem þeir tímar veittu mjög góða yfirsýn yfir þróun og samband austurevrópsku ríkjanna. Það eina sem mér fannst spennandi í sögu Rússlands var Katarína mikla, en ekki einu sinni henni veitti ég nógu mikla athygli. Kannski er söguáhugi bara eitthvað sem kemur með aldrinum, nema maður fæðist sögugrúskari. Ég fæddist málanörd og skáldsagnafrík, og er fyrst núna á seinni árum farin að hafa gaman af sögu. Ég man nú til dæmis hvað ég hefði fegin viljað brenna Íslandssöguna í grunnskóla, svo að ég þyrfti aldrei að heyra um hana meir!
laugardagur, mars 17, 2007
Ingibjörg er í heimsókn. Við fögnuðum því í gær með því að fara í bíó, kaupa 600 grömm af blandi í poka, og svo fékk ég mér pulsu og hún fékk sér ís með þremur kúlum. Það skal tekið fram að 600 grömm af nammi er sirka þriggja mánaða skammtur fyrir mig.
þriðjudagur, mars 13, 2007
Fólk hefur verið að gera athugasemdir við það að ég komi sennilega ekki til Íslands í sumar. Takið eftir orðinu "sennilega", því ekkert er ráðið í þessari stöðu. Ég vil auðvitað endilega koma í brúðkaupið hjá Sylvíu og Kjartani, en þar sem Kaupmannahafnarháskóli hefur fyrir reglu að tilkynna ekki dagsetningar sumarprófa fyrr en í lok maí (fáránlegt), get ég því miður ekkert sagt til um það eins og er. En það er aldrei að vita nema ég komi í skreppitúr í lok sumars, ef svo fer að ég komist ekki þarna í júní. En takk Hrafnhildur, ég er líka mjög ánægð með fríið mitt, og hlakka gríðarlega til.
Af mér er það að frétta að ég er komin á fullt í félagsstarfsemi af ýmsu tagi. Ég er með í barstjórninni (torsdagsbarinn góði), er ásamt Ditte og Mette vinkonum mínum að setja upp heimildamyndakvöld og málstofu um stríðsglæpina sem Rússland fremur gegn sínum eigin þegnum í Tsétséníu, og er svo búin að bjóða mig fram sem sjálfboðaliða í integrationsverkefni fyrir börn og unglinga (hvað heitir integration á íslensku?) í sumar. Mér finnst gaman að vera orðin virk á ný. Síðan að ég hætti í Bríet (það var bara af því að ég flutti hingað), hef ég eiginlega ekki haft tíma eða löngun til að sinna neinu öðru en sjálfri mér. En núna er eins og ég sé komin á alveg rétta hillu í lífinu, allt gengur svo vel og mig langar að leggja mitt af mörkum til að hjálpa öðrum og gera heiminn að betri stað.
sunnudagur, mars 11, 2007
Kæru vinir á Íslandi! Þrátt fyrir mín fögru fyrirheit um að koma til Íslands í sumar með unnustann, neyðist ég vegna praktískra kringumstæðna til að aflýsa því. Nú hef ég keypt mér miða til Kaliforníu og hyggst dvelja þar allan júlímánuð í sólinni með kærastanum. Þetta verður mitt fyrsta frí í meira en tvær vikur seinustu 12 -13 árin og er ég mjög kát yfir þessu.
miðvikudagur, mars 07, 2007
Í dag, 7.mars, sótti ég bleika jakkann minn úr hreinsun og hengdi gráa vetrarfrakkann minn inn í skáp. Hér með skora ég á vorið að fara að koma.
mánudagur, mars 05, 2007
FutureSex/LoveSounds er frábær plata. Allt sem hann Justin minn kemur nálægt verður að gulli. Mér er alveg sama hvað fólk segir um hann, að hann sé fjöldaframleitt afsprengi gróðasýknar, drengurinn er hæfileikum hlaðinn og þessi plata er persónuleg, full af ást, hita, losta, sorg, kvíða og orku. Ég veit ekki hvers lags dauðyfli maður þarf að vera ef hún hreyfir ekki við manni. Fyrir utan það að snillingurinn Timbaland hefur sett mark sitt á verkið, sá maður mætti nú vera svaramaður í brúðkaupinu mínu.
sunnudagur, mars 04, 2007
Lífsgleði
Góðan daginn, segi ég, því þetta er mikill dásemdardagur. Sólin skín, ég er með gúlinn troðfullan af nammi og lífið er hreinlega bara skemmtilegt.
Ég tók þátt í fjársöfnun fyrir Folkekirkens Nödhjælp í morgun, og er ánægð með að hafa lagt hönd að verki í baráttunni við eyðni í Afríku. Svo dreif ég mig inn á Vesterbro og hitti Nönnu Skibber, vinkonu okkar Armens á einhverju rokdýru kaffihúsi og borgaði þar himinháa upphæð fyrir gras og kjötbita á diski. Svo fór Nanna í vinnuna, en ég fór í söstrene grene og keypti kerti og vasa fyrir páskaliljur, sem ég fékk svo hjá blómasala. Nú á ég bara eftir að ryksuga og skúra og setja liljurnar út í glugga í nýja vasanum og kveikja á ilmkertunum, og þá verður þetta ekki betra.
Svo finnst mér bara allt svo gott og allir svo skemmtilegir í dag. Það er yfir mörgu að gleðjast í lífi mínu, t.d. því að ég á frábæran kærasta, frábæra fjölskyldu og fullt af frábærum vinum. Mér finnst gaman í skólanum og ógeðslega gaman í kennaravinnunni minni. Það er líka alveg gaman í hinni vinnunni, en ég á eftir að læra almennilega á hana. Ég er ekki blönk. Það skiptir miklu máli. Heilsa mín er eftir því sem ég best veit í góðu lagi, og yfirleitt tekst mér nú að halda tilveru minni nokkurn veginn saman og hafa gott yfirblik yfir þetta allt saman. Æ, það er bara svo gaman að vera til. Það er efni í heilan annál ef ég á að fara að telja allt upp.
föstudagur, mars 02, 2007
Allt að verða vitlaust
Þið hafið kannski áhyggjur af mér, að vera stödd einsömul í voðabýnum Kaupmannahöfn, þar sem æstur lýðurinn fer mikinn og mölvar rúður og bíla með götusteinum, reiðhjólum og tómum bjórflöskum. En ég er heil á húfi og varð ekki vör við þessi læti á annan hátt en í fjölmiðlum, og svo sá ég að það var búið að hálfrústa Christianshavn og Nörrebro, þegar ég átti leið þar um í dag. Hálfbráðnar ruslatunnur, spýtnabrak, glerbrot og leifar af varnarvirkjum uppreisnarseggja lágu eins og hráviði um allt og heilmikið af lögreglubílum á götunum. Einstaka tötraklæddan ungling mátti sjá á stangli, þá ýmist að sulla í sig bjór til að ná sér eftir gærdaginn, eða þá í samræðum við löggumenn. Ég veit sossum ekki hvað mér á að finnast um þetta. Ég hef hvorki mikinn áhuga eða samúð með þessu Ungdómshúsi, læt mig það eiginlega litlu varða þar sem að ég þekki lítið sem ekkert til þess. Á hinn bóginn finnst mér upplífgandi að sjá að pólítískur vilji sé fyrir hendi hjá einhverjum í landinu, en allri þessari orku hefði betur verið varið í mótmæli gegn því hvernig danska ríkisstjórnin fer með flóttamenn og útlendinga.