Seinasta vaktin mín í ellibransanum er á morgun! Seinasta vaktin að eilífu!! Jibbí! Ég er búin að fást svo lengi við umönnunarstörf að það er orðið hluti af sjálfsmynd minni. Nú mun ég sennilega fara í gegnum sjálfsmyndarkrísu.
föstudagur, desember 29, 2006
miðvikudagur, desember 27, 2006
þriðjudagur, desember 26, 2006
Jól dauðans
Jólin 2006 munu héreftir kallast Jól dauðans í mínum huga, fyrir utan aðfangadagskvöld sem var frábært og yndislegt. Tusind tak, Ditte, Ingelise, Sejer, Lasse, Agnes og Erling. Án ykkar hefði ég mátt húka heima og gráta í koddann minn.
Það sem ég hef semsagt skemmt mér við hér þessi jól, fyrir utan að kvíða þeim heilmikið eins og flestir einbúar og aumingjar eins og ég hljóta að gera, er að passa snaróða gamlingja, reyndar á ágætis kaupi. Það var nú nóg í sjálfu sér, án þess að sé verið að bæta ofan á það nöturlegri einveru í kollegíkytru minni, þegar allir aðrir eru með fjölskyldu og vinum eða í einhverjum andskotans julefrokostum úti í bæ. Ég reyndi mikið að herða upp hugann og minna mig á að þetta hefði nú verið mitt eigið val og margir byggju við enn verri kjör og ættu enga fjölskyldu og enga vini, hvergi í heiminum.
Samt sem áður vorkenndi ég mér ógurleg ósköp og var um það bil að sökkva í gríðarlegt þunglyndi á jóladag eftir að hafa skæpað við mömmu seinnipartinn. Þá hringir síminn og spurt er hvort ég geti tekið kvöldvakt á elliheimili á Nörrebro. Ég gat jafnvel gert það og að kúldrast heima ein, svo ég dreif mig. Það var reyndar fínt fyrir utan það að einn starfsmaðurinn var alltaf að strjúka mér um bakið og axlirnar, eins og hann ætti eitthvað með það. Svo hjóla ég heim dauðþreytt um miðnætti. Til Amager. Þegar heim kemur kemst ég að því að ég er ekki með húslyklana mína. Ég ætlaði varla að trúa þessu þar sem að ég hef ekki týnt lyklunum mínum síðan ég var smástelpa, sem er nokkuð ótrúlegt miðað við þann flæking sem hefur verið á mér síðan og miðað við hvað ég hef oft verið alveg rosalega full og verið um það bil að týna sjálfri mér á leiðinni heim. En það var alveg sama hvað ég snéri töskunni minni út og inn og rótaði í öllum hólfum og vösum, lyklarnir voru ekki þar. Ég flýtti mér strax að hringja í Alexander, sem er eina manneskjan með aukalykil og hjólaði aftur út á Nörrebro til hans og hamaðist þar á dyrabjöllunni, því ekki svaraði hann í símann. Enginn virtist vera heima og í algerri angist og táraflóði hjolaði ég aftur á elliheimilið og snéri þar öllu við, en án árangurs. Eftir mikinn grát og gnístran tanna og vangaveltur um hvort ég ætti að eyða nóttinni á hóteli eða í athvarfi fyrir heimilisleysingja (notabene, nærri allir sem ég þekki eru heima hjá foreldrum sínum yfir jólin) hugkvæmdist mér að hringja í Ditte og hún hafði upp á Önnu vinkonu sinni, sem býr líka á Nörrebro, og fékk ég að gista þar. Ég þekki Önnu ágætlega og ég þurfti svo sannarlega á því að halda að fá að vera hjá einhverjum kunnuglegum og vinalegum, því þetta var svo sannarlega ömurlegt og rúsínan í pylsuendanum ofan á öll leiðindin að vera í vinnunni og ein þess á milli yfir jólin. Í morgun tókst mér svo loksins að ná í Alexander, eftir að hafa hringt margsinnis í hann og svo í lásasmið og sætt mig við að þetta myndi sennilega kosta mig um 2000 danskar krónur, þar sem að líklega hefði þurft að skipta um lás og þar með búa til þrjá nýja lykla. Alexander var svo með aukalykil, og eftir hressingarkaffi dreif ég mig heim, öllu léttari í skapi. Nema hvað, við aðalinnganginn hangir miði frá Lasse nokkrum, sem segist hafa fundið lykla í skránni að ruslaskúrnum í gærkveldi. Hver haldiði svo að eigi þessa lykla og hafi gleymt þeim þar í gær? Jú, hún Anna litla. Mikið gríðarleg ósköp létti mér. Eftir allt saman kom ekki til neinna útgjalda, og í dag ætla ég að hvíla mig, því ég er uppgefin eftir þessar hremmingar. Ég er með Politiken hér hjá mér í rúminu, andasteik og sósu í ísskápnum og Lord of the Rings er í sjónvarpinu í kvöld. Á fimmtudaginn á ég afmæli og þá ætla ég að dekra við mig sem mest ég má. Því ég á það skilið.
laugardagur, desember 23, 2006
Kæra fólk sem les þetta blogg. Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og notalegheita á jólunum, hvar sem þið kunnið að vera stödd í heiminum. Sjálf mun ég verða í Hellested rétt fyrir utan Köge á aðfangadagskvöld, og svo í faðmi sjálfrar míns hina dagana. Einhvern tímann hlýtur sérhver manneskja að upplifa jólin ein sín liðs, og nú er komið að því hjá mér. Reyndar verð ég nú hjá vinkonu minni og hennar eldhressu fjölskyldu annað kvöld, svo það eru bara hinir dagarnir sem ég verð ein að dúlla mér. Til allrar hamingju á ég bæði sjónvarp og tölvu og bý að nettengingu og ég veit ekki hvað mörgum sjónvarpsstöðvum, svo þetta blessast eflaust.
Gleðileg jól.
fimmtudagur, desember 21, 2006
Elsku fólk, sérstaklega þið sem eruð á námslánum. Hvernig reiknar maður eiginlega út hversu mikið maður má hafa í tekjur? Ég er að fara að byrja að vinna á Academic Travels og þarf að vita hversu mikið ég má vinna mér inn áður en ég skrifa undir samninginn. Vissulega stendur eitthvað um 12% á heimasíðu LÍN, en 12% af hverju? Tekjum ársins 2006? Þær koma málinu ekki við þar sem ég ætla ekki að vinna mér eins mikið inn á árinu 2007. Hvar eru mörkin - skerðast lánin átómatískt ef maður er að vinna með námi, eða er hægt að halda sig undir einhverjum vissum mörkum til þess að fá ekki greiðslu hjá bankanum í hausinn?? Ég hef nefnilega lent í því og það var ekki skemmtilegt.
Ef einhver getur leitt mig í sannleika um þetta mál, er sú hjálp AFAR vel þegin.
Mange tak, Anna.
sunnudagur, desember 17, 2006
Það er nú merkilegur andskoti hvað maður fær aldrei leið á því að fara á fyllerí. Ótrúlegt alveg hreint.
Í dag er myrkur úti og rigning, hressandi svona í sambland við timburmennina. Jólin eru eftir viku og fjórum dögum seinna verð ég 26 ára. Mér finnst það ansi hár aldur miðað við ...tja, mig. Þetta árið er ég að spá að halda samsæti (kemur á óvart), er búin að vera að máta ýmislegt annað í huganum en er nú komin að þeirri niðurstöðu að það sé skemmtilegast að taka eldhúsið í brúk og bjóða fólki hingað í snakk og drykki.Ég þekki líka svo mikið af skemmtilegu fólki að það ætlar engan enda að taka.
Mér finnst óskaplega gaman að eiga afmæli og hefur alltaf fundist það síðan ég var lítil stelpa. Á afmælisdaginn minn vil ég helst láta allt eftir sjálfri mér og vil að aðrir veiti mér fullt af athygli. Mér finnst líka mjög gaman að fá afmælisgjafir og sérstaklega ef gefandinn hefur greinilega valið gjöfina spes handa mér. Ég hef eiginlega aldrei spáð svo mikið í brúðkaupsdeginum mínum eins og margar stelpur gera, eða látið mig dreyma um þann eina dag sem ég fæ að vera prinsessa. Því það vil ég helst vera á hverjum afmælisdegi.
miðvikudagur, desember 13, 2006
Skreið heim úr vinnunni fyrr en áætlað, þjökuð af hósta, hálsbólgu, eyrnaverk og túrverkjum og almennum slappleika. Það er samt alltaf eins og fólk haldi að maður sé að ljúga þegar maður meldar sig veika, þó að ég sé löngu vaxin upp úr því að skrópa í vinnunni. Svo kom ég heim og drakk tvo tebolla og borðaði eina mandarínu og heilt Ritter Sport og sofnaði. Fussumsuss.
þriðjudagur, desember 12, 2006
Nú er ég aftur farin að slást við SU-yfirvöld, það kemur í ljós hversu árangursríkur sá slagur verður, þar sem stjórn þessa apparats virðist samansett af illmennum og bjánum. Ég er svona að gæla við að fara með málið í blöðin ef ég fæ aftur neitun og var í dag að ímynda mér yfirskriftirnar og það sem ég myndi segja við blaðamennina. Ég er eiginlega alveg viss um að fá neitun, því reglunum fyrir útlendinga var breytt í vor (án þess að segja neinum frá því) og hér í Danmörku virðast stjórnvöld helst hafa það að markmiði að bola sem flestum útlendingum út með hvaða ráðum sem er. Á þessu ári er búið að senda fleiri tugir albanskra fjölskyldna aftur til Pristina og Kosovo, þrátt fyrir að þessar fjölskyldur séu flestallar svo veikar af póst-stríðstrámum, þunglyndi, hugar og líkamsmeinum af ýmsu tagi, að nærri engin þeirra er í ástandi til að sjá um sig sjálf. Þetta fólk var búið að hanga í flóttamannabúðum í mörg ár án þess að vita hvað snéri upp né niður á framtíð þeirra, og í millitíðinni orðið fárveikt á líkama og sál, og nú er búið að senda það heim, peningalaust og allslaust.
Í haust átti að senda fimmtán ára dreng aftur til Sri Lanka, þar sem eini ættingi hans var eldri bróðir hans, sem var stunginn af með Tamílska Tígrishernum. Stúlkubarn af rússnesku og dönsku bergi brotin var svipt ríkisfangi og má því ekki ganga í skóla. Innflytjendakonur í ofbeldisfullum hjónaböndum verða að þrauka í SJÖ ár áður en þær geta vogað sér að skilja við manninn, án þess að þeim verði hent aftur til síns heima, þar sem þær geta átt von á útskúfun, ærusviptingu ef ekki bara lífláti. Svona mætti lengi telja, og í hverri viku koma ný mál fram í dagsljósið, um óréttlæti gagnvart innflytjendum og innfæddum. Auðvitað snýst mitt mál ekki um líf og dauða, en það er samt óréttlátt og blóðugt ef ég þræla hér í mörg ár og borga skatt í ríkiskassan og get svo ekki fengið þessar skitnu 4500 dkrónur á mánuði til að geta verið í námi.
fimmtudagur, desember 07, 2006
Fékk nóg af því að horfast í augu við yfirvofandi klessuverk og keypti mér kort í líkamsræktarstöð, algert discount á 200 kr á mánuði og fór samdægurs og spriklaði þar í tækjum ýmsum. Það fannst mér bara gott, enda orðið alltof langt síðan ég hef gert nokkuð annað en að lyfta lóðum og gera magaaæfingar með hálfum huga niðri í kjallara. Og síðan að græjurnar voru teknar þaðan, er lítið lokkandi við þá kytru, því ekki á ég neinn Ipod og hef eiginlega takmarkaðan áhuga á að eignast slíkt apparat. Ég nenni engu. Eftir að hafa verið brjálæðislega upptekin í mörg ár, sérstaklega seinustu tvö, er ég komin með algera antipatíu á að hafa nóg að gera. Helst vil ég ekkert gera, nema skemmtilega hluti. Ég nenni sko ekkert að vera alltaf að vinna og læra og allt það. Ég vil fara í ræktina, leika við kærastann minn, kaupa drasl í HM og Smilende Sussi og lesa allar þær bækur sem mig lystir og horfa á Sex in the City þegar mér sýnist. Mig langar í frí í jólagjöf.
miðvikudagur, desember 06, 2006
Það verður sko bið á því að baunaborgarar verði hafðir í matinn hér í bili. Undanfarna daga hef ég verið að íhuga að bjalla í Saddam og impra á því við hann að koma á laggirnar Saddam's Gas Terror Resurrection Army, og þar færi ég auðvitað fremst í flokki. Mesta furða að fólk vilji ennþá tala við mig.
laugardagur, desember 02, 2006
Svei mér þá, ég hélt að mér tækist aldrei að komast aftur inn á þetta blogg mitt eftir að hafa staðið í allskonar veseni með password breytingar, google accounts og beta kjaftæði hingað og þangað. Svo sýnist mér ekkert hafa breyst og sé ekkert beta-legt við bloggið, það er nákvæmlega eins og það var áður.
Jæja, við Anna Hera erum búnar að skaffa okkur miða á BEYONCÉ tónleika í maí (lesendur taka andköf af öfund, undrun og hrifningu). Þetta verður rosalegt. Anna ætlar meira að segja að koma alla leið til Íslands til að skella sér á uppistandið, og ekki nóg með það, heldur fara tónleikarnir fram í Álaborg og því að fara þangað með lest. Magnað alveg hreint.
Helstu fréttir héðan eru að vissir aðilar fengu yfir sig nóg af vissum aðilum hér á dögunum, og settu því upp smá gjörning frammi í eldhúsi. Bangsatetur sem þar lifa friðsamlegri tilveru voru gripin föstum tökum og komið fyrir í dónalegum stellingum, og smokki með sjampógumsi í komið fyrir í sófanum. Ekki var að spyrja að viðbrögðum vissra aðila, mikið fár upphófst og enn veit enginn hver stóð fyrir ósómanum. Hlæhlæ.