blog... the modern person's cry for attention

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Aftur dreymdi mig um hana Lizu mína í nótt! Ef að mig dreymir líka um hana í nótt, sé ég ekki annað til ráða en að hringja í stúlkutötrið og spyrja hverju þessu sætir!

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Dreymdi í nótt að Liza vinkona mín kom í heimsókn frá Arkhangelsk og við vorum í nærfatabúð í Gentofte að kaupa blúndusokka, og ég keypti þessa líka dýrindis húðlituðu sokka sem náðu upp á lær. Svo ætluðum við að koma okkur heim og hafa okkur til í djammið. Nema hvað að allt í einu var metrókerfið í Köben orðið fáránlega flókið, og eiginlega fannst ég mér vera í St.P og þóttist búa á grænu línunni, á Vassilíeyjunni. Við vöfruðum um lestarkerfið og fórum svo loksins úr þar sem rauða línan mætti appelsínugulu línunni, á stöðvunum Holiday/Royanino (sem eru sko hreint ekki til) og vorum að fara að taka lestina á rauðu línunni til að geta skipt yfir á grænu línuna. Ég var að brjálast úr pirringi af öllu þessu villuráfi og töskuburði, en náði að hemja skapið í mér með því að hugsa um að Liza væri í heimsókn og við hefðum ekki oft tækifæri á að sjá hvora aðra. Draumurinn endaði þegar ég spurði hana hvað hún ætlaði að vera lengi í heimsókn...og ráði svo draumspakir í þetta.

Bráðavaktin er að byrja, verð að þjóta.

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Úff úff, ég finn hvernig blessaðar lakkríssnörerne eru strax farnar að brenna í malla mér. En mikið djöfulli er þetta gott.

Já, damer miner og herrer, the pjall vil fortsætte. Er s.s. búin að skrá mig í salsa með Miguel og undirtektir hans voru að hvísla "suavemente, besame" í eyra mér og taka nokkur létt dansspor á miðju Ráðhústorginu. Aukinheldur skráði ég mig í "orientalsk funk" og geri ráð fyrir að svífa um gólfið með handleggina í 80°horni og mjaðmirnar á 250 km hraða hringsnúning, ja svona næst þegar ég fer að djamma. Anna Hera ætlar líka að taka Orra og aldrei að vita nema við skráum okkur í næstu Popstar keppni sem dansarar.

föstudagur, apríl 22, 2005

Ég er að deyja úr myrkfælni á kvöldin. Í nótt svaf ég við ljós í fyrsta sinn í Guð má vita hversu mörg ár. Hvað gerir maður við slíkum kvilla?

Í grunnskóla einum hér í landi hefur verið ákveðið að setja lög um klæðaburð og málfar nemenda, þar sem stelpurnar þykja vera of ögrandi til fara og nemendur almennt með ljótan munnsöfnuð. Samtök danskra grunnskólanema mótmæltu í gær á Amagertorgi, og fór þar mikinn ungur drengur með hátalara, sem krafðist þess að bekkjarsystur hans fengju að mæta berrassaðar í skólann.

Ég er eiginlega sammála þessum lögum frekar en krökkunum. Auðvitað er alltaf auðvelt að setja sig í stellingar og hneykslasts á "æskunni í dag", en ég held að hugmyndir barna og unglinga um hvernig sé best að hegða sér og klæða sig séu að mörgu leyti á rangri braut. Og ég held að ég geti fullyrt það að MTVsé versti uppalandi mannkynssögunnar. Á þessari stöð gefur að líta svo innilega steikta og heimskulega hegðun, að maður trúir því varla að fullorðið fólk standi fyrir þessu. Og sú mynd sem er gefin af svertingjum er svo stórfurðuleg, að ef maður ætti að trúa því, myndi ég persónulega halda að allt svart fólk væri andlega heft. Ég var t.d. að fletta milli stöðva um daginn og stoppaði á MTV, þar var verið að sýna þáttinn Making the Band. Eftir svona tíu mínútur þoldi ég ekki við lengur...ég veit ekki hvort þetta fólk í þættinum var í alvöru svona illa gefið eða hvort það fær borgað fyrir að haga sér svona.

Eitt annað. Stundum get ég orðið ógeðslega pirruð á þeirri mynd sem karlmenn í rapptónlist gefa af sjálfum sér. Það fær mig líka oft á tíðum til að efast um gáfnafar þeirra. Hver vill í alvörunni láta sýna sig sem hálfgert dýr sem hugsar ekki um neitt annað en að ríða, ríða og ríða og að skjóta fólk? Og hver hagar sér svona?
Í augnablikinu eru tvö dönsk rapplög í mikilli spilun í útvarpinu. Eitt heitir Hvis jeg var min kæreste og tekstinn er nokkurn veginn svona:

"Hvis jeg var min kæreste...så ville jeg hente øl når du sku se fodbold og så give dig et blowjob til matchen var slut... (ok, ég kann svo sem ekki allan tekstann en þetta er það sem ég man)....altid holde min mis blød og glat ...ikke lave vrøvl når du skal ud med dine drenge...og når jeg har mit lort (túr) må du kneppe med mine veninder..."

Mér verður óglatt af þessu. Grey drengirnir hljóta að hafa farist á mis við eðlilegt fjölskyldulíf og alist upp við MTV...eða þeir eru bara svona heiladauðir. Og þvílík botnlaus fyrirlitning á konum.

Hitt lagið heitir Tag det af ", eða s.s. farðu úr fötunum. Í gegnum allt lagið eru þessi þrjú orð endurtekin, halló, ég veit að ungir karlmenn eru að drepast úr greddu en þarf að hamra svona ROSALEGA á því? Já, því karlmennskan þeirra og tippið þeirra má sko ekki fara fram hjá neinum...

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Svei þér Helga að hafa sett þennan ófögnuð inn á bloggið þitt og kalla það "skemmtilegt". Ljótt er það - að hrekkja saklausar sálir, sem mega svo hvað eftir annað setjast upp og kveikja á lampanum eftir að gengið er til náða, og skima í alla króka og kirnur með blessað litla fuglshjartað að springa í brjóstinu!

Hinsvegar má benda á það að hver er sinnar (ó)gæfu smiður og oft væri betra að láta forvitnina ekki ráða förinni. En skaðinn er skeður, snökt, snökt, ég sem var rétt farin að ná mér eftir auglýsingarnar á The Grudge.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Mér líður eins og ég sé að skrifa vonda ritgerð. Yfirleitt standast svona "mavefornemmelser" hjá mér. En er við öðru að búast þegar maður hefur einungis lesið helming bókartuðrunnar og skilið innan við einn fimmtahluta af henni.
Mikið er þessi Goran Brecovic diskur unaðslegur. Ég trúi því ekki að ég sé búin að eiga þessa gersemi í tvö ár og aldrei hlustað á hana.Æ, getur önnin ekki verið búin og ég á leiðinni til Spánar að baða mig í sól og troða í mig hvítlauksgrilluðum risarækjum (og þamba hvítvín úr trogi)?

Á morgun ætla ég að skrifa ritgerð um bók sem ég er búin að lesa minna en helminginn af. Ef einhver sem er vel að sér í symbólisma og Petersburgh eftir Bely rekur augun í þessa færslu, þá er um að gera að vera ekki a ð liggja á fróðleiknum eins og ormur á gulli...

Ætlaði annars að fara út í kveld og súpa öl, í tilefni frídagsins á morgun. En nei, þessir blessuðu vinir mínir breyttu áætlunum sínum, sem er sjálfsagt ágætt fyrir mig og mína ritgerð. Kannski maður ætti að hætta alveg að drekka? Ok, sé það reyndar ekki alveg fyrir mér, en ég hef hvort sem er öngvan tíma fyrir slíka vitleysu.

Meðal annars. Muniði að ég var eitthvað að röfla um skattfrelsi fyrir útlenska námsmenn hér í landi? Jú, það er í boði - EF MAÐUR SKRIFAR UNDIR AÐ MAÐUR MUNI YFIRGEFA DANMÖRKU TAFARLAUST EFTIR NÁMSLOK!!! Mér finnst þetta nú hálfgerð mannréttindabrot, og hvað þá þegar við Íslendingar eigum í hlut. Hvað ef ég væri komin í sambúð með Dana eða búin að gifta mig/eignast barn með dönskum ríkisborgara áður en námi lyki? Ætti ég þá bara að pakka mínu hafurtaski saman og fara? Nei, enda þakkaði ég pent nei og tjáði dömunni á skattstofu útlendinga að ég hygðist ekki skrifa undir á neitt slíkt, enda ætluðum ég og kærastinn minn að vera hér og enginn gæti haggað því. Og megi dönsk yfirvöld svo eiga sinn persónuafslátt sjálf.

sunnudagur, apríl 17, 2005

EKKI skoða linkinn frá Jóa á blogginu hennar Helgu! Ég skellti tölvunni saman og þorði varla að snerta á henni þar til óskapnaðurinn var liðinn hjá, og nú er ég ekki viss hvort ég geti sofið í nótt...

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Er búin að hugsa aðeins um þessi tímabil...Útideildartímabilinu deili ég með Sif og þó nokkrum öðrum. Þetta tímabil tel ég þó vera samofið "Café Au Lait" tímabilinu, sem varði aðeins lengur, eða frá 1995 til 1999. Ég held að starfsfólkinu á því góða kaffihúsi hljóti stundum að hafa liðið eins og það væri að vinna á leikskóla.

Svo var ég náttúrulega á föstu meira en helminginn af mennto, en finnst það samt eiginlega ekki vera tímabil, af því að ég var svo lengi að ná mér eftir þetta samband, var mjög bitur og reið í mörg ár. Hmmm...en ég hef alltaf verið óttaleg dillu-manneskja, t.d. má nefna Pílu Pínu æðið sem stóð á seinasta árið í menntó. Einn daginn fann ég nefnilega gömlu Pílu Pínu plötuna mína inni í skáp, setti hana á og felldi geðshræringartár yfir glataðri bernsku minni. Næstu fjölmarga mánuði var ei um annað rætt en hana Pílu Pínu, og "Saknaðarkvæði Gínu Mömmu" sungið við hvert tækifæri með tilheyrandi táraflóði (jafnvel edrú um hábjartan dag á Matgarði).

Svo var boxtímabilið. Fyrir þá sem hafa gleymt því, var ég nefnilega í boxi í svona hálft ár þegar ég var tvítug, og það tók yfir allar mínar hugsanir. Mér finnst þetta hálfvandræðalegt tímabil og ætla því ekki að skrifa meir um það.

Alkatímabilið. Jú, undirbúningurinn að þessu tímabili hófst snemma, sjálfsagt um 15-16 ára aldurinn, og tímabilið stóð sem hæst á árunum 2000 - 2003. Á þessu tímabili komst ég nálægast því að verða alki sem ég hef komist (og vonandi kemst ég ekki nær því, frekar ólíklegt reyndar), og flest og óskemmtilegustu mistök ævi minnar áttu sér stað á þessu tímabili. Þetta tímabil endaði til allrar hamingju vel, þegar því lauk og þerapíutímabilið hófst.

Svo var "hata Ísland"tímabilið. Flestir sem hafa búið í útlöndum ættu að kannast við vissan viðbjóð á klakanum, sem vaknar sérstaklega þegar maður kemur heim í lengri tíma. Í svona tvö ár hataði ég Ísland og fannst allt íslenskt óþolandi, sérstaklega aðrir Íslendingar utan landsteinanna. Svo gróft er það nú ekki lengur, en mig er enn ekki farið að langa að flytja heim.

Svo eru svo mörg önnur mínítímabil sem kennast við stað, eins og t.d. Moskva, Arkhangelsk, Listaháskólinn...

...og allskyns áráttur, eins og hakkísakk tímabilið, grænmetisætutímabilið, megrunartímabilið þegar ég bjó með Tönju, eða frelsaða tímabilið, þegar ég var nýbúin að kynnast Guði og reyndi að lauma því inn í allar samræður, eins og öllu frelsuðu fólki ber skylda til.

Veit ekki alveg hvaða tímabil er í gangi núna. Af og til langar mig helst til að hætta öllu veseni og rugli, gifta mig, eignast þrjú börn og kött og flytja í lítið hús úti i sveit og tala aldrei við neinn nema manninn og börnin. Kannski er þetta ..."hringl í eggjastokkum"tímabilið? Er samt ekki að fíla þetta nafn. Uppástungur eru vel þegnar.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Var að lesa bloggið hennar Sifjar og rak þá augun í skemmtilega færslu um mismunandi tímabil í lífi hennar. Það rifjaði upp eitt og annað fyrir mér, og ég er ekki frá því að ég skrifi svona færslu sjálf. Þegar ég hef tíma til. Fyrsta tímabilið sem rifjaðist upp fyrir mér var þerapíutímabilið mitt fyrir svona tveimur árum (varði í amk ár), þegar ég var nýbúin að fara í þerapíu og talaði vart um annað, var sífellt að ráða drauma fyrir fólk og öll samtöl mín og Böngu systur innihéldu orðasambönd eins og "greinileg afneitun" "svo rosalegt analitet" "það er náttúrulega bara litla barnið þarna inni í honum að kalla á hjálp". En ég var frelsuð, hvað get ég annað sagt?

mánudagur, apríl 11, 2005

Undanfarna þrjá daga hef ég sagt meira á spænsku en öll síðustu fimm ár samanlagt. Hver veit nema ég geri það að sjötta máli? Hey annars ef einhver er á leið til eða um Köbbsa, nennir sú manneskja að taka Íslandskort með handa mér (stórt til að hafa í ramma)? Ég læt þig fá pening...

fimmtudagur, apríl 07, 2005

LÍN er besti vinur minn - not!!!

Hressandi þetta líf, og sérstaklega þegar Lánasjóður hefur haft hönd í veskinu manns...Jæja, þýðir ekki að fárast yfir því.

Í gær kom Miguel með gjafir handa mér. Eina öskju af Ferrero Rocher kúlum, sem hann át helminginn af sjálfur. Einnig færði hann mér fimmfaldan hring, fjögur nautin feit, þrjú spök hænsn, tvær dúfur til og einn talandi páfugl á grein. Án gríns kom hann með kippu af óhugnalega sterkum bjór sem er 10,5 FOKKING prósent. Ég drakk eina flösku eftir matinn yfir fréttunum áðan og fann hvernig hreyfigeta mín hamlaðist mjög eftir fyrsta sopa. Svo mjög að ég velti flöskunni nokkrum mínútum seinna, og hellti svo seinustu tveimur sopunum í vaskinn, svo eg ég hef varla drukkið meira en rétt rúmlega hálfa flösku af þessum eitursterka bjór. Klukkutíma seinna sit ég enn dösuð og og hálfrugluð með brennheit eyru. Sussubía. Hver framleiðir þetta?

Annar vélsagamorðingjanna hefur gefið sig fram við lögregluna hér í bæ, en hinn er enn á æðisgengnum flótta, get ég ímyndað mér. Hinn handsamaði Jared Heller neitar þó að svara nokkrum spurningum og situr á öllum upplýsingum um blóðbaðið eins og ormur á gulli. Ég er ekki frá því að ég hafi skipst á nokkrum orðum við þennan mann á búllu einni (Krasnapolsky) fyrir nokkrum árum. Hann er eitthvað svo kunnuglegur á myndunum í blöðunum. Mig minnir að hann hafi verið frekar sérkennilegur og ófríður í framan, en ekki þesslegur að búta fólk niður með vélsög.

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Um daginn var ég að hneykslast á grein í B.T. , sem hélt því fram að karla dreymi um skotvopn, eltingarleiki og kynlíf (á nóttunni, altso), en konur dreymi um mat, innkaup og búðaráp og vinkonur sínar. Aldeilis ekki, hélt ég og rifjaði upp ýmsar æsilegar og oft miður siðsamlegar draumfarir mínar. Neinei. Hvað haldiði að mig hafi dreymt næstu nótt? Að ég væri í Hagkaup að kaupa kjúklinga í súpu, af því að ég hafði boðið Sif í mat! Hí á mig.


Ferðin til Spánar ER bókuð, og við Mr. Serrano hér með orðnir fullgildir íssalar á Hróarskeldu 2005.

föstudagur, apríl 01, 2005

Nú er ég loksins búin að þrífa ísskápinn, sem ég er búin að veigra mér við í mánuð. Þegar allt kom til alls tók þetta ekki meira en tíu mínútur, og að öllu leyti létt verk og löðurmannlegt.

En hvað um það, nú er ég á sokkabuxunum að sötra hvítvín hér uppi í rúmi og Gwen Stefani var að klára að syngja If I Was A Rich Girl. Mér finnst það ágætis afstaða til lífsins sem kemur fram í því lagi. Til gamans má benda á að Gwen er komin vel yfir miðjan fertugsaldur, sem þó er ekki að sjá á konukindinni. Er að fara að borða sushi með Miguel og einhverjum ítölskum vinum hans í kvöld...Miguel er búinn að klippa sig alveg stutt og er viðurstyggilega karlmannlegur og lekker á að líta. Mæli með þessu fyrir alla karlmenn.

Hmmm...undanfarna tvo daga hefur mig dreymt mikið af frægu fólki. Í gær sofnaði ég á sófanum eftir vinnu og dreymdi fyrst draum um J-Lo, þar sem hún var að biðja mig um að koma á tónleikana hennar, og átti miðinn að kosta 4 $ og bjór 1 $. Á eftir dreymdi mig draum þar sem ég var Natalie Portman og var að leika með Sigourney Weaver í geimverumynd. Í nótt dreymdi mig svo að ég og fullt af öðru fólki misstum vegabréfin okkar í Thames-ána, og tvívegis mátti ég kasta mér í gruggugt vatnið til að reyna að hafa upp á vegabréfinu mínu. Á endanum fann ég íslenskt vegabréf, sem þó var ekki mitt, heldur einhverrar annarrar Önnu. Í lok draumsins var ég grátandi inni í verslunarmiðstöð að ráðfæra mig við gamlan skeggjaðann mann, sem krotaði símanúmer vinar síns niður á blaðsnepil handa mér og sagði mér að fara til Albany Street, þar sem íslenska sendiráðið myndi vera til húsa. Ég vaknaði örvingluð og tárvot eftir þessar raunir og grét nokkrum beiskum tárum í koddann minn. Og bið ég svo draumspaka að ráða þetta.