Í gær bauð Sóley mér með sér á forsýningu Rumour has it með henni sætilínu Jennifer Aniston í aðalhlutverki ásamt myndarmenninu ...alveg dottið úr mér hvað hann heitir, hann sem dansaði við úlfa um árið. Allavega, fín mynd sem fjallar að einu leyti um fjölskyldu sem á sér leyndarmál, og að öðru leyti um unga konu sem getur ekki tekið réttar ákvarðanir í lífinu og er nærri hætt með unnustanum út af einhverri vitleysu. Þarf að vera að núa manni þessu um nasir? Ég bara spyr. Er ekki hægt að gera myndir um...jæja, maður hefur þó alltaf Sex in The City.
Í dag er gamlársdagur. Nú er ég að bíða eftir að Hallgerður komi heim með hárþurrkuna svo ég geti farið í sturtu og svo sett rúllurnar hennar mömmu í hárið. Svo ætla ég á Nesveginn í rauðum prinsessustígvélum. Ekki fyrr en eftir miðnætti þó.
laugardagur, desember 31, 2005
fimmtudagur, desember 29, 2005
Þetta er nú ALDEILIS búið að vera skemmtilegt frí og því er ekki nærri því lokið. Jólin voru eitt hygge-paradís í gegn og líkami minn nú fullur af kjöti, ostum og öðrum illmeltanlegum fæðutegundum. Því verður kippt í liðinn í janúar. Svo var afmælið á Allanum. Takk, allir sem komu - þetta var geðveikt skemmtilegt og frábært að sjá alla aftur. Nú er ég s.s. orðin tuttugu og fimm og þar með fuldt berettiget til at have en mid-twenties crisis, eins og ég sagði við einn félaga minn á msn.
Seinustu dögum hef ég eytt í góðum félagsskap systra minna og fjölskyldu og þetta er bara allt búið að vera frábært. Því miður er systir mín kær á leið tilbaka til Stokkhólms á morgun, en nóg er af góðu fólki hér á landi.
mánudagur, desember 26, 2005
Unaður, unaður. Klukkan hálfellefu að kveldi jóladags og ég er enn í fínu rauðu og bleiku náttfötunum frá Victoria's Secret. Ekkert skynsamlegt hefur verið innbyrt í dag og ekki heldur farið út fyrir dyr. Þetta letilíf er svo ljúft að það er eins gott að það er bara einn dag á ári. Ég er búin að fá meget lækre gaver og er bara mjög sátt - svo er afmælið mitt á morgun á Alþjóðahúsinu, er fólk nokkuð að gleyma því?
laugardagur, desember 24, 2005
Á Íslandi er allt fullt af börnum og bílum. Síðan að ég kom hef ég varla gert annað en að vaða um, ýmist ein eða í fylgd fjölskyldumeðlima, og það er varla að maður mæti nokkrum fótgangandi manni. En mikið ósköp er landið nú fallegt.
miðvikudagur, desember 21, 2005
Afmælið mitt verður haldið í samkrulli við afmæli Dagnýjar Skúladóttur á Alþjóðahúsinu þann 26.des. Mæting hálfellefu ellefu eða hvenær sem lystin grípur yður.
Ég var búin að gleyma íslenska skammdeginu. Núna er klukkan að verða níu og koldimmt fyrir utan, rétt eins og væri hánótt! Í Danmörku kvartar fólk og kveinar þó að birti upp úr átta, hér lítur ekki dagsins ljós fyrr en um ellefu.
Ég komst semsagt heim með miklum töfum í gær, það er eins og þessi ódýru flugfélög séu gjörsamlega ófær um að halda tímaáætlanir - mér finnst það hafa gerst í hvert einasta sinn sem ég hef flogið með slíku félagi. Alltaf skal vera að minnsta kosti klukkutíma töf. Ég mátti því húka á Kastrup nærri fjórum tímum lengur en ég hafði gert ráð fyrir, umkringd gráhvítum víkingum og þeirra barnakraðaki. Það er nú meira hvað þessi litla þjóð okkar framleiðir af börnum! Það er langt síðan að ég hef séð svona mikið af litlum börnum á einum stað (sem var ekki leikskóli/vuggestue). Og skrýtnast fannst mér að heyra íslensku allsstaðar!
En auðvitað var æðislegt að koma heim, mamma eldaði hangikjöt í matinn, smá forskot á sæluna. Bönga kemur í dag, jibbí, og ég er að spá í að skella mér í sund eftir en liten stund.Tinna, hringdu í mig!
þriðjudagur, desember 20, 2005
Jæja krakkar þá kem ég bara heim á morgun...ég verð utan alls farsímasambands nema einhver búi svo vel að geta lánað mér síma með simkorti í? Annars er hægt að ná í mig á gamla góða 554 1596....
Sjáumst!!
sunnudagur, desember 18, 2005
Eruði að kynda mig með því hvað það er stutt í jólin? Ég á eftir að kaupa nærri allar gjafir, þvo fötin mín, svo mikið sem hugsa um hverju eigi að pakka og þar fram eftir götunum. Enda ekki von að maður komi einhverju í verk með þeim slæpingshætti og landeyðuskap sem hefur verið hér við lýði undanfarið.
Nadja kom hingað í stutta heimsókn í gær og sýndi mér myndir af sínu feita og fagra barni og gaf mér eina þar sem barnið heldur rauðum plastgaffli upp að kámugu andliti sínu og starir ákaft inn í linsuna með hálfgeðsýkislegu brosi. Það leikur ekki nokkur vafi á því að barnungi þessi er af hreinum víkingaættum og mun hún eflaust láta hraustlega til sín taka í framtíðinni.
Auðvitað vorum við ekki bara með myndasýningar, einnig var rápað um miðbæinn, snætt á Rizraz í hádeginu þar sem ég og einn þjónninn störðum mikið á hvort annað. Fyrst hélt ég að það væri bara af því að hvoru um sig þætti hitt frítt sýnum, en þegar við yfirgáfum staðinn áttaði ég mig á að þessi strákur var eiginlega mjög kunnuglegur og ég er nokkuð viss um að hafa einhvern tímann talað við hann áður. Vonandi hef ég ekki verið að slumma hann á einhverju diskótekinu. Hann hefur þvælst mér fyrir hugskotssjónum í allan dag en ég get engan veginn komið dýrinu fyrir mig. Það er kannski bara eins gott. Annars vinnur svo mikið af sætum strákum á Rizraz að maður veit varla hvert á að horfa, alls staðar svífa dökkeygir draumaprinsar milli borða og skilja eftir sig sæta angan af eyðimerkursandi og þúsund og einni nótt....Neiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii djók.....aðeins að missa sig!!!
miðvikudagur, desember 14, 2005
Maður hlýtur að fá appelsínuhúð af pebernödder, því mikið gríðarleg ósköp hefur það fyrrnefnda færst í aukana undanfarið á mínum annars svo velsköpuðu rasskinnum. Ég er ekki sátt við þetta. Ekki nóg með að ég sé með viðurstyggilega koffín/rauðvíns/eitthvaðs bletti á þrem tönnum, sem afskræma ungmeyjarbrosið blíða, nú er svona ófögnuður líka farinn að gera vart við sig. Það er ekki mánuður síðan ég tjáði Felix yfir Robinson úrslitunum að nei, ég væri sko ekki með neina appelsínuhúð, annað en sundbuxnaklæddu dömurnar á skjánum. Það hefði ég greinilega látið betur ósagt. Og það versta er að það er nákvæmlega ekki neitt hægt að gera í þessu, því ekki er hægt að airbrusha veruleikann?
Jon Kyst er búinn að ákveða að ég eigi að fara á fund með honum kl.8.45 á þriðjudagsmorgun. Það samræmist ekki mínum plönum. Því miður er hann ekki einn í þessu samsæri, nokkrir háttsettir DIS-aðilar eru þar með í ráðum, svo það þýðir víst lítið að malda í móinn. Ef ég vil halda stöðu minni þar. Hún er nú reyndar fremur óskilgreind og dularfull að öllu leyti og margir sem halda hreinlega að ég sé nemandi þar en ekki starfsmaður.
þriðjudagur, desember 13, 2005
Á algerum mettíma gleypti ég í mig dágóðan skammt af fölskum héra, kartöflum og brúnni sósu, svona á milli anna. Samt finnst mér kjöt-sósu- og kartöflu-þörf minni alls ekki vera fullnægt, er svo langt komið að ég fari að kaupa mér annan skammt á 25 kr? Og hvurslags níska er það að vilja ekki gefa manni smá ábót, nógu dýrt er þetta nú samt! En almáttugur, hversu ég þrái að hafa heilt lamb fyrir framan mig og stærðarinnar sósupott og kartöflur með því, svo megi sitja að sumbli þar til magasekkurinn brestur!
Jæja, en ég er semsagt á fullu að vinna, vinna vinna. Er í augnablikinu úti í skóla að fara í seinasta bókmenntafræðitíma annarinnar, og er búin að sjá það að það dugir ekki að skilja bækurnar eftir heima, þær verða víst að koma með til Íslands eins og hver önnur plága. Á morgun á ég þó frí og ætla að eyða deginum í fegrunaraðgerðir. Við Anna Hera tökum daginn snemma og eigum okkur mælt mót við snyrtifræðing einn úti á Frederiksberg, sem ætlar að framkvæma vafasömustu operasjónir á okkur, en hinsvegar hef ég heyrt því fleygt að þær geri hverja konu fagra sem Beyoncé og lekkera sem Lopez. Og þá þýðir ekkert að ligge på den lade, eins og danskurinn segir. Enda er julefrokost framundan og um að gera að skarta sínu besta, sama þó að þar verði sömu leppalúðarnir og alltaf. Já. Jon Kyst, yfirmaður minn og andlegur leiðtogi, kvæntist 23 ára gömlu kærustunni sinni í gær. Hann er ótrúlegur, karlsnakkurinn.
sunnudagur, desember 11, 2005
Og ljóskusteik ársins er...
Og ekki komst ég til Rostock í þetta skiptið heldur. Þrátt fyrir ítarlegar áætlanir og útreikninga milli landa, tókst mér að klúðra ferðinni áður en hún svo mikið sem hófst.
Mér var sem sagt boðið í 28 ára afmælið hennar Steffi í Rostock, og ég var búin að bjóða Armen að koma með. Mín bókaði miðana, við pökkuðum svefnpokum, ginbokku, tannburstum og ég gekk meira segja svo langt að útbúa gulrótasnakk og pakka naglaþjölinni fyrir ferðina. Samkvæmt áætlun hittumst við á Hovedbanegården og náðum í miðana og röltum svo út að stoppistöðinni og settumst þar á bekk, þrem korterum áður en rútan átti að leggja af stað. Fyrir framan okkur stóð stærðarinnar græn rúta með gylltum stöfum, en þar sem að ég hef nú ekið með Safflebussen marg, margoft, var ég ekki mikið að spá í langferðabílnum þeim, þar sem að ég VEIT að Safflebussarnir eru hvítir með rauðum stöðum. Von bráðar birtist einn slíkur.
Eftir að hafa spurst fyrir komumst við að því að þetta væri rútan til Osló, og að rútan til Berlínar væri væntanleg innan nokkurra mínútna. Í þessum töluðum orðum rann græna rútan úr hlaði og sáum við hana ekki meir. Við biðum örlítið lengur, og allt í einu er fólk farið að tala um að græna rútan hafi verið á leiðinni til Berlínar, og þá er óhætt að segja að skelfing mikil hafi gripið um sig meðal vor! Við tvö ásamt Dana og þýskum homma sem höfðu ætlað með andskotans grænu rútunni, en horft á hana aka af stað með sama sauðarsvipnum og við, rukum niður á miðasöluna og rákum þar upp mikil ramakvein og sorgarsöng. Feiti maðurinn í miðasölunni gat nú lítið hjálpað okkur, þegar hann loksins hafði upp á bílstjóra grænu rútunnar var hún komin lengst norður og niður og of seint að snúa við. Ekki gat hann heldur endurgreitt okkur miðana, þó hann feginn vildi, og máttum við snúa heim 200 krónum fátækari (svona rétt fyrir jólin, æði) og lömuð af undrun.
Við ókum því sem leið lá heim á Amager og hringdum í Steffi til að aflýsa komu okkar, og svo var ekki um annað að ræða en að byrja kvöldið snemma og fá sér gin og tónik. Svo fórum við enskan pöbb og hittum þar einhvern net-vin hans Armens, hálfrottulegan Englending sem hafði aldeilis góðar sögur að segja af kvenhylli sinni í Skandinavíu. Mér fannst nú það eina aðlaðandi við þennan mann vera enski hreimurinn, get ekki séð hvað hópar af ljóshærðum valkyrjum hefði annars getað fallið fyrir. Svo kom mín fagra vinkona Lise og við fórum svo þrjú saman á Studenterhusið, en enska rottan fór heim til danskrar konu og dansk/enskra barna. Á Studenterhúsinu var gleði og glaumur og ensk ska-hljómsveit að spila jólalög og annað skemmtilegt í ska-útsetningu, og ekki um annað að ræða en að stíga dans af fullum krafti. Gaman gei. Svona hélt nóttin áfram með dansi og freyðandi veigum, þar til fátt var eftir en að fá sér sudda á Makkanum og svo halda heim á við. Laugardagurinn fór svo í almenna leti og iðjuleysi og nú er ég að fara í vinnuna á eftir. Jibbíkóla.
miðvikudagur, desember 07, 2005
Einstæðir foreldrar eru ekki þeir einustu sem eiga bágt á jólunum....gleymið ekki einstæðum stúdínum...
Fjárráð mín eru að verða svo ískyggilega mínímalísk að mér er farið að verða um og ó. Ég vona svo sannarlega að ég fái sæmilega útborgað í næstu viku, því annars get ég alveg eins lagt mig fyrir utan Lokal Kommúnusentrið hér á Amager og beðið dauða míns. Allar þessar reisur hér í haust og þar með fjarvera frá vinnu hafa greinilega farið illa í veskið mitt. Ég sem var algerlega búin að gleyma hvernig það er að vera blönk. Sem er sjálfsagt ástæða núverandi ástands.
Anne týndi gemsanum sínum um helgina. Það er nú verra, því nógu erfitt var að ná í hana í litla kvikindið. Heimasíminn hennar virðist nefnilega vera í annarri vídd en hún, því hún svarar sirka tvisvar á ári í hann.Ekki nógu gott. Við sem ætluðum að hafa filmaften í kvöld.
Ég komst að því í dag að SU-styrelsen er miskunnarlaus gagnvart svona lopanegrum eins og mér, og þar á bæ láta menn sig engu varða hvort ég þræli mér út við skeiningar eður ei. Með öðrum orðum, klögubréfið mitt hafði víst lítil áhrif en góða konan á skrifstofunni gat ekki útskýrt hvaða ástæður lágu að baki þessarar göfugu ákvörðunar þeirra stjórnarmanna. Ég setti þá upp harðan svip og sagði "nå, men de hörer fra mig igen, for jeg stopper ikke för jeg får det her" (litla gungan í mér fékk þó munnvikin til að kippast aðeins til eins og alltaf þegar ég ætla að fara að æsa mig).
Þetta var mikið reiðarslag ofan á þá midtwenties krísu sem ég og allir aðrir eru í. Ég er þó búin að skrifa þessum varmennum kuldalega orðað bréf og svo geta þeir drullast til að svara mér almennilega og helst láta mig fá fjandans peninginn. Svo vil ég að Guð gefi mér svar á því hverju ég er að leita að.
mánudagur, desember 05, 2005
Du har ringet til SU-styrelsen. Der er i øjeblikket lang kø. Ring venligst senere.
Slík voru svörin þegar ég reyndi að heyrast fyrir um stöðu minna mála hjá Statens Uddannelsesstötte. Það þýðir víst ekki annað en að koma þar við á morgun og hvessa augun á mannskapinn. Ég hef nú alltaf þótt góð í að senda stingandi augnaráð. Einu sinni hafði Ingibjörg systir mín að orði að ég væri hreinlega eins og segði í kvæðinu, "kuldaklónum slær og kalt við hlær". Hahahaha. Að ég hafi verið svona grimm, sá ljúflingsengill og himnaríkisgullfugl sem ég er orðin í seinni tíð.
sunnudagur, desember 04, 2005
Enn ein helgin liðin hjá með tilheyrandi ólátum, sem eigi skal greint nánar frá að stöddu. Tónleikar á morgun. Hlakka til. Hlakka líka mikið til að koma heim um jólin, jibbí!