blog... the modern person's cry for attention

miðvikudagur, september 28, 2005

Stundin nálgast...

...og íbúðin mín er svo hrein að hún er nánast steríl. Viðbúnaðurinn við heimsókn þessari hefur verið svipaður og ef arabískur sheik væri að koma í konunglega heimsókn. En minna má það víst ekki vera í mínum fullkomnunarsjúku augum, ég er t.d. búin að kaupa rússneskt kampavín og get ekki alveg ákveðið hvað á að vera með því, svona nætursnakk þegar við komumst heim frá Malmö seint í kvöld.

Annars er ég algerlega að tryllast yfir geislaspilaranum mínum. Oftar en ekki harðneitar hann að spila nokkurn disk, heldur hringsnýr þeim með ömurlegu skurrhljóði og ég fæ ekkert að gert. Ekki dugar að berja kvikindið til hlýðni, það er margreynt og ég veit satt best að segja ekki hvað skal til bragðs tekið. Svo er ég svona að reyna að krafsa mig í gegnum langan, langan texta um historisk materialisme. Hver skrifar þetta og hví?

þriðjudagur, september 27, 2005

Snemma á þessu ári sá ég ótrúlega fallega stelpu í metróinu. Hún líktist helst Inkaprinsessu eða einhverri álíka eksótískri dömu, og ég gat tæpast haft augun af henni. Í dag framkvæmdi sú hin sama snót bíkínívaxmeðferð á mér, og ég var aldeilis lens hvað heimurinn er lítill. Ég var nú ekkert að hafa orð á þessu í svo innilegum aðstæðum, það hefði getað misskilist.

Veit annars einhver hvernig á að stoppa spamkvikindin sem herja á bloggið mitt?

mánudagur, september 26, 2005

Klukzch

Þá er ég víst búin að reikna út hvað þetta klukk er. Það á sem sagt að skrifa fimm atriði um sjálfa(n) sig. Eða er það ekki svoleiðis?

1.Mér finnst bjúgu góð, svona nokkrum sinnum á ári.

2. Sem fullorðin er ég ljóshærðari en ég var 12 ára.

3. Ég á rosalega mikið af vinum í ég veit ekki hvað mörgum löndum.

4. Þangað til að ég var komin yfir tvítugt gekk ég aldrei í háum hælum og lærði nýlega að blása á mér hárið.

5. Ég hef ekki átt frí í meira en tíu daga síðan ég var 15-16.

HVER fann upp á því að gallabuxur ættu að vera lágar í mittið? Það getur ekki nokkur manneskja með líkamsþyngd yfir tuttugu kílóum verið í þessu, því um leið og sest er niður, vella keppirnir niður á lærin á manni. Til allrar hamingju eru eðlilegar buxur komnar aftur í búðirnar, ekki það að ég eigi nokkurn pening til að kaupa þær, snökt snökt. Þar sem ég er bara að vinna einn dag í þessari viku sé ég fram á gjaldþrot (á að senda mig í Happy Therapy eða hvað), rifnar buxur og gatslitna sóla það sem eftir er. Og spaggettí með tómatsósu, auðvitað.

Jæja, hvað sem öllum fátæktarpælingum líður, breytist sú ánægjulega staðreynd að minn unaðslegi heitmaður er á leiðinni hingað til lands á miðvikudagskvöldið, og hef ég staðið á hausnum við að undirbúa komu guttans.
Meðal annars ætla ég í bíkínívax á morgun og er eiginlega nokkuð spennt að sjá hversu agalegt þessi meðferð er í raun og veru.

OOOOOhhh helvítis Niarn! Mit liv mine regler djöfulsins rugl. Ég er komin með ógeð á dönskum röppurum sem halda að þeir hafi alist upp í Bronx undir ánauð kerfis og glæpona, en ekki í friðsælum dönskum smábæ undir tryggum verndarvæng mjúks pabba og framsýnnar móður.

sunnudagur, september 25, 2005

Snapp snapp

Þá er ég búin að vinna nærri 46 tíma í þessari viku með námi og geri aðrir betur. Á undraverðan hátt hefur mér tekist að leika við vini mína í þessari viku, læra heima, þrífa og fara einu sinni að grenja í vinnunni, allt á þessari einu viku. Svo er Miguel að koma í næstu viku (JIBBÍ) og þá ætla ég að taka mér smá frí.


Svo fór ég að sjá Nochnoi Dozor í gær. Rússar mega nú alveg fara að taka sig á. Eins og þessi þjóð hefur alið af sér stórkostlega rithöfunda, þá virðist kvikmyndastjóragenið hafa misheppnast eitthvað hjá þeim. Það er alveg ótrúlegt hvað margar rússneskar bíómyndir þjást af langdrægni, lausum endum og ólíklegri atburðarás, og þessi mynd er illa þjáð af öllum þessum einkennum. Þar að auki var algerlega óljóst hvort þetta átti að vera framtíðar-scifi, ævintýramynd, hryllingsmynd, hamfaramynd, tölvuleikur, tónlistarmyndband eða paródía á sovétskum sósíalrealisma. Þrátt fyrir þetta skemmtum við Nanna og Anne okkur ágætlega, en það var í raun bara af því að við þekkjum til Rússlands og Rússa. Ef ég vissi ekkert um Rússland hefði ég gengið út af þessari mynd eftir fyrsta hálftímann. Myndin var svo rúmir tveir tímar og af einhverri algerlega óskiljanlegri ástæðu eiga eftir að koma tvær myndir í viðbót af þessu kjaftæði. Pazhalsta, prekratite etu jerundu.

laugardagur, september 24, 2005

Hvað er þetta klukk? Á nú enn og aftur að röfla um sjálfa sig?

föstudagur, september 23, 2005

Sperðlagilli

Í gær voru bjúgu etin með mikilli lyst og ánægju, og þar á eftir hámuðum við í okkur rúllutertu og te með því af enn meiri lyst. Stelpurnar voru eiturhressar og við fórum yfir öll umræðuefni meðal himins og jarðar, þar á meðal dr.Phil, sem Ásta sagðist hata en hafði þó aldrei séð einn einasta þátt með kallinum.

fimmtudagur, september 22, 2005

I wanna unbutton ur pants just a little bit...

Það er nú meira hvað hann 50C er dónalegur. Líkamssafarnir hreinlega drjúpa af lögunum hans. Danskennarinn okkar Önnu Heru setur alltaf 50C á í upphituninni og ég veit eiginlega aldrei hvort ég á að hlæja eða gráta yfir þessum óviðeigandi söngvum. Þeir eiga einhvern veginn ekki við í flennulýstum leikfimissal, meiri svona "hotpants og hlýrabolur inni á sveittum næturklúbbi"-stemning.

miðvikudagur, september 21, 2005

Unaðslegur frídagur sem hefur einkennst af námi, sjónvarpsglápi og afslappelse. Finnst ég reyndar vera komin með ferköntuð augu.

Tvennt sem mig langar að gera

1. Fara í reiðikúrsus svo ég geti lært að svara fyrir mig, í staðinn fyrir að annað hvort að samþykkja eða hrökklast undan með ha-um og humm-um þegar fólk er dónalegt/óforskammað/leiðinlegt við mig.

2. Fara í einhvers konar kúrsus sem getur hjálpað mér til að hætta að halda að himinn og jörð farist ef að ég geri mistök.

þriðjudagur, september 20, 2005

Ég er búin að bjóða Ástu og Svövu í bjúgnapartí á fimmtudaginn. Eitthvað verður maður nú að gera við þennan gríðarinnar poka af KOFAREYKTUM SVEITABJÚGUM sem hann bróðir minn kom færandi hendi með hér fyrir nokkru.

sunnudagur, september 18, 2005

Það er komið haust og þarafleiðandi finnst mér sífellt tilefni til að sötra heitt kakó eða troða í sig kökum og þvíumlíku. Núna er ég t.d. að borða eitthvað fremur vont nammi sem Alexander kom með í gær, ásamt pizzu, til að lækna timburmenn mína.

Ég finn fyrir algerri antipatíu gagnvart öldrunarþjónustu. Í þessari viku tók ég bara tvær vaktir þar sem ég var frekar upptekin við TAstarfið, og núna langar mig helst aldrei að koma nálægt nokkru gamalmenni framar. En það verður víst að þrauka hér fram að áramótum, því miður (ef ekki lengur).

föstudagur, september 16, 2005

Mætti í fyrsta sinn í Kulturvidenskabelige Forskningsretninger og fékk pínu sjokk yfir að vera í tíma þar sem nemar voru fleiri en tíu, sem er staðallinn í rússneskunni. Konur voru í algerum meirihluta, nokkrir velfríseraðir yngissveinar vingluðust þarna um með kaffi í annarri og skruddu í hinni, en mikið þótti mér annars til þess koma hversu stórt hlutfall kvennanna hefði sæmt sér vel á forsíðu tískublaðs. Allt í einu skildi ég hvað það er sem lokkar menn úr öllum öðrum heimshlutum hingað á norrænar slóðir - konurnar hér á Norðurlöndum eru hreinlega svo fallegar!

Fagið var svo mjög áhugavert, þarna er húmanisminn eins og hann leggur sig með öllum sínum stefnum og straumum útskýrður og mér sýnist á á öllu að þetta sé hálfgert skyldufag fyrir alla húmanista. Gleðiefni þótti mér að ritgerðirnar tvær sem á að skrifa yfir önnina eru ekki nema 2-3 síður og seinni ritgerð á að skila eftir miðjan janúar, svo ég er að hugsa um að hringja í icelandexpress og breyta farinu mínu...

fimmtudagur, september 15, 2005

Það er ágætt að vera Teaching Assistant. Nema þegar maður þarf að sitja yfir þriggja og hálfrar klukkustundar endaleysu um rússneska píslarvotta, "græðgi, grimmd og syndalausn". Ó mig auma.

miðvikudagur, september 14, 2005

Verkefni á verkefni ofan. Og alltaf finnst ég mér vera að dröslast með poka og töskur út um allt og að líða yfir mig úr hungri, sem leiðir til örvæntingar, svitakasta og óþarfa dónaskaps við saklaust fólk. En kennararnir í skólanum lofuðu mér glæstri framabraut í dag og ég vona bara að það gangi eftir, enda ekki lítið sem maður hefur hefur fyrir þessu helvíti.

mánudagur, september 12, 2005

Danskt haust

Hef ekki séð framan í þann fjanda síðustu tvö árin. Núna finnst mér fínt að það sé komið haust. Það er unaður að vera orðin stúdína á ný, þó svo að ég vinni 30stunda vinnuviku og vel það samhliða námi. Enn meiri unaður verður þegar dönsk stjórnvöld átta sig á að ég þarf pening eins og annað fólk og gefa mér færi á að hætta í þessum þrældómi.

Komst að því í dag að ein bókin sem ég þarf að kaupa fyrir Kulturvidenskabelige Forskningsretninger kostar 525 danskar krónur. Það þykir mér ekki góðs viti, og hef ekki enn þorað að athuga verðið á hinni bókinni. Niður með virðisaukaskatt á bókum!!

sunnudagur, september 11, 2005

Ég verð nauðsynlega að skrifa lista yfir það sem ég þarf að koma í verk á morgun, annars fer morgundagurinn í vitleysu. Vandinn er sá, að við tilhugsunina um lista þennan fæ ég stresskrampa í magann og óþægilegan fiðring um allan kroppinn. Þetta getur víst kallast stress á háu stigi, enda er ég orðin ansi hreint upptekin þessa dagana.
Í gærkvöldi gerði ég nokkuð furðulegt, í fyrsta skipti en örugglega ekki í seinasta: ég straujaði rúmföt!! Upphaflega var það út af því að ég hafði gleymt þeim í þurrkaranum og þau orðin krumpuð eins hundrað ára gamalmenni, og ég kunni einhvern veginn ekki við að fara að setja svona hrukkuverk á rúmið mitt. Svo þegar til kastanna kom fannst mér þetta eiginlega bara mjög róandi verk og endaði á því að þrífa baðherbergið eftir allt straujeríið. Nuna get ég ekki ákveðið hvort ég eigi að fara niður í ræktina eða ekki, því á sunnudögum er gjarnan annað fólk þar niðri og það líkar mér ei. Sérstaklega þegar vissir Pakistanar eða fúlir rokkstrákar eru þar að þvælast.

Haustið er komið í Danmörku, skólinn er byrjaður og það er vitlaust að gera. Sérstaklega þykir mér þetta TA-starf hafa farið af stokkunum með látum og miklum önnum, en það góða er að það er útlit fyrir að ég nái að heilsa upp á Móður Rússland seinna í haust. Jibbí!!

miðvikudagur, september 07, 2005

Career girl

Ég hef fengið nýtt hlutastarf. Jon Kyst, sá gamli refur, sem hingað til hefur staðið fyrir mínum helstu stökkum upp framabrautina, er búinn að ráða mig sem Teaching Assistant við Masterpieces of Russian Litterature á DIS. Ég er nokkuð sátt - Sameinuðu Þjóðirnar, UNESCO, Pútín, here I come!!!

mánudagur, september 05, 2005

Köbenhavn vs. Jylland

Danir eru merkileg kvikindi. Ein þjóð, en þó skilja vötnin hana að. Þessa dagana er nýja Robinsonserían að byrja, og allar sjónvarpsstöðvar eru morandi í auglýsingum sem lýsa heiftúðugu hatri milli Kaupmannahafnarbúa og Jótlendinga. Í auglýsingunum má t.d. heyra þessar setningar:

"Jyder er søde, rare mennesker, som bor i ...Jylland."

"Bonderøve!"

"Jeg kender ingen københavnere, har kun set dem i fjernsynet og der virker de lidt højrøvede."

"Jeg tror sgu aldrig jeg har været i Jylland."

Aðalkeppnismálið felst því í rauninni ekki í hver vinnur Robinson, heldur hvaðan á landinu sú manneskja er. Reyndar get ég viðurkennt að ég finn sjálf fyrir miklu Kaupmannarhafnar-stolti og gæti ekki hugsað mér að búa annars staðar á landinu (hef ekki prófað það, og það stendur eigi til), enda eru þetta allt miklir djöfulsins bóndadurgar þarna hinum megin!!

sunnudagur, september 04, 2005

Matarlyst mín hefur farið minnkandi undanfarið og sérstaklega á ég orðið erfitt með að borða feitan mat. Þetta kom sérstaklega í ljós á föstudagsnóttina þegar ég ældi eftir MacDonaldsmáltíð (ef máltíð skyldi kalla). Á MacDonalds hittum við Anna Einar Leif og tvo aðra stráka og annar þeirra var mjög kunnuglegur, Gunnar hét kauði og þekkti mig víst vel. Ekki kom ég honum alveg fyrir mig og hann var víst mjög móðgaður yfir því. Ef einhver getur sagt mér hver þetta er og hvaðan við þekkjumst, er það vel þegið.

laugardagur, september 03, 2005

Nochnoj Dozor

Það er að koma rússnesk hryllingsmynd í bíó! Hún er kannski löngu komin í bíó á Íslandi, veit það ekki, en ræman atarna heitir Nochnoi Dozor og útleggst það Mörkets Vogtere á dönsku og Nightwatch á ensku. Ég er að hugsa um að brjóta reglu mína um að sniðganga hryllingsmyndir (kom því á eftir miklar andvökur í kjölfar The Ring) og fara að sjá þessa mynd.

fimmtudagur, september 01, 2005

Aaaaaaaaahhhhhhhhhhhhhhhhhhhhhhhhhhhhh!

Dreif mig loksins í nudd, löngu kominn tími til enda líkami minn oftar en ekki eins og grjót og skemmtilegur að hafast við í eftir því. Það lá við að ég sofnaði meðan á klíperíinu og nuddinu stóð, og vaknaði við að ég var alveg að fara að slefa á gólfið...En djöfull var þetta gott. Mér líður eins og ég sé hafragrautur í plastpoka. Gera þetta aftur fljótlega.