blog... the modern person's cry for attention

laugardagur, febrúar 26, 2005

Fór á smá powershopping í dag: Náði í gleraugun mín, fór í Fona og keypti 3 diska: Nik og Jay, Karen og Bikstok Rögsystem. Allt danskt gæðapopp af hiphop/r'nb/ragga dancehall gerðinni. Fór svo í Din Aktive Isenkrammer og keypti hitakönnu og ostaskera, og tvær maríuhænur til að festa á ísskápinn. Og ætti ég nú að vera fær í flestan sjó og er að íhuga að fara niður í gymmið.

Held ekki að það hafi gerst neitt merkilegt í dag. Nema það að ég svaf í tvo tíma eftir vinnu og dreymdi að ég væri í SuperBrugsen að skamma þar manntetur fyrir vanrækslu á börnum sínum. Það blandaðist einhvern veginn inn í mjög undarlegan draum þar sem ég var að ráfa um gígantískt kaffihús á Íslandi, á föstudags eftirmiðdegi vel að merkja, og var alveg hissa hvað þar voru allir hressir að dansa - EDRÚ um miðjan dag!

Núna er ég að sötra vodka í appelsínudjús eins og hver önnur Bridget, að bíða eftir Anne og svo ætlum við að hitta Wendy á Öresundsbarnum...Annars segir Miguel að við séum eins og Bridget og Mark. Hún alltaf á djamminu og hann "rólegur, feiminn"...ööö, ók. Sá ekki betur en að kauði væri hæstánægður með þessa líkingu sína. En auðvitað hefur alltaf verið ýmislegt líkt með okkur Bridget, fer ekkert að telja það upp þar sem það ætti að vera auðsýnilegt hverjum náttblindum apa.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Smá meira röfl um kvennamál...eða réttara sagt mín kvennamál. Ég er hálfhrædd við þessa p-pillu sem ég var að byrja á. Það er svo mikið af hormónum í henni að hún heitir Dyane Mite. Fattiði? DYNAMITE!!!!! mér er búið að vera óglatt síðan ég byrjaði á henni, og nú eru skapsveiflurnar eflaust að byrja, því er eðlilegt að maður sitji heima og hlusti á Evu Cassidy og langi helst til að fara að grenja án nokkurrar sjáanlegrar ástæðu? Ekki eins og dagurinn í dag hafi verið eitthvað mis, síður en svo. Kannski er þetta bara byrjunina á geðveiki, offitu og öðrum hryllingi.

Við Anna Hera vorum einmitt að ræða svona pillu-túr-barneignir á pitsubarnum á kollegíinu hennar í fyrradag. Já, pitsu, því ég hef sko ekki lyst á neinu nema jógúrt og óhollu jukki eins og núðlusúpum og pitsum. Þess vegna þarf ég að henda fullt á mat hér á eftir. Allavegana, aðrir gestir voru karlmenn að horfa á fótbolta á stórskjá, og ég held að þeir hafi allir verið Íslendingar. Við vorum þó ekkert að lækka róminn, heldur göluðum hátt og snjallt um þessi kjallaramál af mikilli hreinskilni. Enda hafa þeir bara haft gott af þessu.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Mér finnst allt líf mitt stjórnast af tíðahringnum. Að minnsta kosti vika, gjarnan tvær af hverjum mánuði fer í brjálæðislega nammi/matar/kynlífsgræðgi, jafn mikið í vesen með bólur á stærð við Satúrnus á andliti, brjósti og baki, restin af mánuðinum fer svo í að jafna sig af afleiðingunum (þar til allt byrjar upp á nýtt)og svo fara alltaf nokkrir dagar í skemmtidagskrána sjálfa. Og mér finnst aukaverkanirnar af því að fara á túr versna með árunum. Nú er svo komið að mér er óglatt, með magann og mjóbakið í einum hnút, útblásin af vökvasöfnun, illt í fótleggjunum, svo ekki sé minnst á skapsveiflurnar sem fylgja öllu saman. Karlmenn eru ógeðslega heppnir að þurfa ekki að fara á túr. Oooooooooooohhhhhhhhh.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Oft er verið að tala um hversu miklu máli innréttingin skipti fyrir líðan manns, og það tel ég hérmeð sannað.

Í gær fórum við Miguel á indverskan veitingastað, og lentum þar aldeilis í því. Í byrjun lofaði allt góðu, brosmilt starfsfólk bar okkur marglita rétti sem þó voru furðu bragðlausir miðað við hvað gengur og gerist í þessum efnum. Eftir því sem leið á máltíðina tók skap okkar að þyngjast, og ekki af því að við værum að rífast eða tala um eitthvað leiðinlegt. Allt í einu var ég sokkin djúpt í eymdarfen heimþráar, mæðu og almenns weltschmertz, og Miguel kominn með hjartslátt og svita á enni af angist, og aldrei virtist þessari máltíð (sem notabene versnaði og versnaði að öllu leyti) ætla að ljúka. Loksins tókst okkur þó að borga og koma okkur út, og það rann upp fyrir okkur að það var hreinlega innréttingin sem var að gera út af við okkur. Þarna var allt málað í dökkum rauðbrúnum litum og veggirnir einhvern veginn útskornir í litlum krúsídúllum, og úr hverju horni ýldi sorgarsöngur á ókunnugu tungumáli við undirleik grátandi harpna og framandi strengjahljóðfæra.
Eftir nokkra stund vorum við þó búin að jafna okkur, og sórum við þess dýran eið að hallmæla öldurhúsi þessu við hvern sem heyra vildi. Og þar með vil ég mæla með að allir lesendur þessa blogs leggi stóran sveig utan um veitingastaðinn Kashmir á Nörrebrogade, eigi þeir leið þar hjá.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Ég er komin með nett æði fyrir dönskum mat, og þá sérstaklega smurbrauðum og síld. Einnig hef ég tekið eftir því að öll þessi snittusmurning í vinnunni hefur komið inn þeirri hugmynd hjá mér að mæjónessalöt af ýmsu tagi séu í raun og veru matur, og að þau beri að kaupa, rétt eins og brauð og ávexti. Hooooooojjjjjjjj, eins og afi var vanur að segja. En helvíti er lekkert í þessum sudda. Og svo er ég búin að borða svona 3 kíló af nammi í vikunni.
Égveit ekki alveg hvað þessu veldur, en skelli skuldinni á tíðahringinn ,og að einhverju leyti á ísöldina sem hefur lagst þungt á Danaveldi. Hér mjakast fólk áfram með bauga undir augum, vafið í loðfeldi og prjónasjöl og önnur hver setning inniheldur orðasambandið "eeeejjjjj, hvor er det koldt!" Enda hefur þessi þjóð seint talist til hreystimenna.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Tölvan mín læknaðist á dularfullan hátt af þagnarveiki sem hún var með í nokkra daga. Það kom s.s. ekkert hljóð úr henni, en svo lagaði hún sig sjálf. Veðrið er ískalt og fallegt, og gamla fólkið í vinnunni er ógisslega miklar dúllur. Mamma, af hverju kenndir þú mér aldrei að setja keðjuna aftur á hjólið mitt?

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Á föstudaginnvar grímuball og við Alexander vorum laaaaaaangflottust, þó ég segi sjálf frá. Hann var Cher í síðum silfuglitrandi kjól með sítt svart hár og fjólubláar glimmervarir. Var það mál manna og kvenna að hann þætti furðulíkur konu, og vildu jafnvel sumir meina að hann þætti fögur kona. Ég var hinsvegar partíálfurinn, í leðurpilsi og magabol (!!!!hef eigi látið sjá mig í slíkum klæðnaði seinustu tíu árin), blúndusokkabuxum og með galdrastaf sem ég sló í höfuð viðstaddra af miklum ákafa. Bæði vorum við svo mökuð í glimmer í öllum regnbogans litum, og er óhætt að segja að við höfum vakið lukku bæði tvö.

Á ballið mætti gamalt hösl, hann Rune, sem ég höslaði í fyrsta partíinu úti í skóla, þegar ég byrjaði þar haustið 2002. Hann leit stórglæsilega út og við stigum einn dans. Hann höslaði svo vinkonu mína hana Line, og þar með erum við tvær orðnar tengdahösl eða hvað sem við vinkonurnar kölluðum þetta i den, eða er það Rune sem er tengdahöslið okkar? Eða er hún núna svilkona mín? Engu að síður, vel af sér vikið af öllum viðstöddum.
Við Alexander fengum okkur bara pitsu með hvítlauksolíu og fórum siðan heim til mín og drukkum te og hlustuðum á Eyvöru. Um morguninn vöknuðum við svo með bruna í maganum. Ég mæli ekki með hvítlauksolíu klukkan fimm á morgnana.

ó það snjóar og snjóar úti. Á ég að hjóla alla leið út í Vanlöse eða skal metróið tekið???

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Kæra fólk.
Þið sem eruð með í þessu sms.ac network dæmi og eruð alltaf að senda mér síendurteknar invitations: Ég mun ekki taka þátt í þessu, þar sem að ég skráði mig í þetta, og svo var símafyrirtækið mitt af einhverjum ástæðum ekki með í þessum herlegheitum...og þetta er hvortsem er alltof mikið vesen...Þannig að ekki taka þögn minni og hunsunum sem móðgun, ég bara get þetta ekki.

Miguel kom í heimsókn í gær, og var þá búinn að læra hið ágæta og fjölnota orð "Jæja" af íslensku tvíburunum sem búa með honum. Þær eru 18 ára og frá Grímsey eða Hrísey. En þetta teljast víst ekki fréttir af mér, eins og þetta blogg á annars að vera um: MIG, MIG OG AFTUR MIG!!!

Grunar að Jon Kyst sé að reyna að komast í brækurnar á mér. Hann er sífellt að dengja í mig háum einkunnum, tilboðum um eksótísk ferðalög á hjara veraldar, alls konar verkefnum og bjóða mér upp á drykki. Já, reyndu bara!!

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Nú ætla ég að blogga í Þórustíl, s.s. að segja frá skólabókunum sem heltaka huga minn þessa dagana (not). Er sko að lesa kafla úr bókinni "All that is solid melts into Air - The experience of Modernity" eftir Marshall Berman. Og ég verð að segja það, að þó að módernískar bókmenntir kunni að vera þolanlegar og ágætar sumar hverjar, þá finnst mér eiginlega allt sem ég hef lesið um módernismann hryllilega leiðinlegt. Og hverjum dettur í hug að skrifa svona leiðinleg fræðirit? Bozhe moi. A.m.k. finnst mér ég ekki vera neinu nærri um móderníska stemningu í St.Pétursborg af því að lesa um módernískar sálarkvalir Rosseau.

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Úff og jahérna. Áðan svelgdist mér svo illilega á kaffinu mínu að ég hélt hreinlega að ég myndi drukkna í því. Mér tókst þó með naumindum að koma mér hjá svo auðmýkjandi dauðdaga, og frussaði kaffinu út um allt, og hökti svo hóstandi með tárvot augu um litlu íbúðina mína.

Litla dúllu íbúðin er hálfruslaraleg eftir hina þýsku innrás sem átti sér stað hér um helgina, með tilheyrandi jamsi og chilli. Hún Steffi mín kom sem sagt í heimsókn og tók kærustuna sína, hana Christinu með. Þær eru nú meiri krúttin. Það er alltaf jafn gaman að hitta Steffi, í þetta skipti var þetta samt pínu öðruvísi af því að við erum báðar svo loved up og uppteknar af því. ..músí, eins og hún systir mín myndi segja. En ekki meir um það, Eyvarar tónleikarnir í kveld - jibbíjei! Búast má við að stórir hópar af koldtvandsperkere mæti á atburð þennan, sjálf á ég stefnumót við Mr.Latino og ætlum við okkur að njóta þessara tónleika í botn, þrátt fyrir þreytu, timburmenn, ritgerðir og annað slíkt, sem hrellir lýðinn nú til dags.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Jæja þá er gamlus gríslus komin í hjemmeplejen!!! Ráðin sem afleysingamanneskja fram í ágúst, þó með tveggja daga uppsagnarfrest (til allrar hamingju!!), svona ef eitthvað bitastæðara skyldi reka á fjörur mínar.
Byrja á mánudaginn...

IKEA - den svenska drömmen

Djöfull er íbúðin mín orðin lekker með nýju dökkbláu IKEAgardínunum mínum. Og sægræna og mosagræna púðanum á svefnsófanum. Ég og Usher tókum þetta allt í gegn í dag. Meira hvað hann er handlaginn, kallinn!! Jæja nu skal jeg i seng.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Aldrei að segja aldrei, hafa margir sagt i tidens løb. Oft, oft og mörgum sinnum hef ég lýst því yfir að ég ætli aldrei meir að vinna í ellibransanum, en það er merkilegt hvað ég dett auðveldlega inn í þetta þegar í harðbakkann slær. En allt er hey í harðindum og á peningum þarf maður að halda, hvað sem öðru líður.
Mér sýnist a.m.k. á öllu að dæma að ég sé á hraðleið inn í skeiningar og bleyjuskipti, þrátt fyrir glæstan feril minn sem túlkur, þýðandi og koordinator of cultural events í Arkhangelsk.

Steffi og Christina koma á morgun, júbbíjei!!!