blog... the modern person's cry for attention

laugardagur, október 30, 2004

Er nærri búin að skrifa Anna Karenina ritgerðina. Líza er í St.Pétursborg og ég veit ekki hvað skal gera. Er að velta því fyrir mér hvort að það verði í kvöld sem ég fari í fyrsta sinn á ævinni ein út á lífið. Amk finnst mér tilhugsunin um að sitja heima og glápa á rússneska sjónvarpið mjög lítið freistandi. Anna og Daníel eru svo kærustupara sjálfum sér næg, að mér finnst ég alltaf eitthvað voða pathetic að kássast upp á þau. Constantína er á einhverju þýskarakveldi. Hvað skal gert?

fimmtudagur, október 28, 2004

Í gær samþykkti Dúman ný lög sem banna bjórdrykkju á götum úti og á öllum almennum stöðum. Einhvern veginn sé ég ekki fyrir mér að þetta gangi upp í landi þar sem bjór er drukkinn eins og blávatn.

miðvikudagur, október 27, 2004

Í draumi sérhverrar konu má líta ýmislegt ófagurt

Fór að sjá Alien vs Predator í gær. Það var nú meiri vitleysan. Predator hlaupandi út um allt með rastana sína, gott ef hann minnti mig ekki bara dálítið á hann Demetrius minn, svona herðabreiður með lokkana flaksandi um allt. Demetrius er líka alltaf hlaupandi...frá konunni sinni! Hahahahahahahahahaha.....

Í allt haust hafa gömul hösl birst mér í draumi, og þá yfirleitt verið fremur kært á milli okkar. T.d. dreymdi mig draum þar sem tennismeistarinn ungi (frá því í sumar) var síhringjandi og komandi i heimsókn og heimtandi gistingar (alveg eins og í alvörunni) þar til að ég sagði honum að hætta nú þessu nauði og vera ekki að hringja í mig stanslaust. Hvað skyldi þetta nú þýða??
Svo dreymdi mig hann Mikkel fyrir nokkrum dögum og í þeim draumi vorum við hreinlega kærustupar. Ég vona að mig hafi einungis dreymt þetta af því að ég þarf að hitta kauða í næstu viku i st.pétursborg og fá lánaða hjá honum (og stofnuninni sem hann vinnur hjá, Dansk kulturinstitut) einhverja danska mynd. Ekki einu sinni í útlöndum kemst maður hjá því að rekast á sína ófögru fortíð. Þessi fortíð átti sér reyndar stað í útlöndum fyrir ekkert það mörgum árum síðan...En hvað um það, það þýðir víst ekki annað en að horfast í augu við hana og hennar flagaraaugnaráð.

Hvenær skyldi hinn ógurlegi kuldi sem allir hafa verið og eru alltaf að vara mig við, skella á? Hér snjóar af og til og leysir yfirleitt strax daginn eftir. Ég hefði nú alveg eins getað verið heima hjá mér til að verða vitni að svona löguðu. Hnuss.

mánudagur, október 25, 2004

Hausinn á mér er gersamlega soðinn eftir svefnlausa nótt. Ástæður svefnleysisins eru þó ókunnar, amk var ég ekki að festa mig í spekúlasjónum eða angistarköstum. Var bara eiginlega ekki þreytt, enda búinn að sofa mikið um helgina.
Í gær gisti ég semsagt heima hjá Lízu, við horfðum á sex in the city og borðuðum tilbúið lasagna, hrísgrjón, súkkulaði og drukkum bjór. Mikið er nú gaman að horfa á sex in the city, og endalaust hægt að velta vöngum yfir þeim vandamálum sem hinar óhemju vel klæddu píur eru að slást við. Á meðan við horfðum á fimm þætti í röð fann ég til skiptis fyrir djúpri þrá eftir að vakna í faðmlögum "þess sem ég elska" (þessi ósk mín strandar á augljósri staðreynd - fjarveru slíkrar persónu í mínu lífi)og heldjúpu ergelsi og hneykslun á karlmönnum, sem ekkert skilja né sjá. Mr Big virðist amk vera holdgervingur alls karlmannlegs fattleysis á plánetunni jörð, því þarna gaf að líta kunnuglegar og óþolandi senur úr lífi hverrar gagnkynhneigðar konu. En hann má reyndar eiga það að hann er mjög myndarlegur og ég myndi sjálfsagt fyrirgefa honum ansi margt fyrir útlitið eitt.
Hin þriðja tilfinning hélt mér hinsvegar í járntökum allt áhorfið, og það var ofsafengin löngun í að komast í almennilegar fata og skóbúðir. Þegar ég fer til St.Pétursborgar í næstu viku, verður sko heilsað upp á þær vinkonur mínar Esprit og Zöru, svona á milli þess sem við Lena og Dína þræðum helstu knæpur borgarinnar.

Svo gat ég ekki sofnað og lá vakandi alla nóttina, fór heim um morguninn og hringdi í vinnuna og tilkynnti seinkunn. Er núna í vinnunni og veit ekki hvað snýr upp né niður, rétt nýkomin og vinnudeginum að ljúka. Allamalla.

Jú, og svo lærði ég að spila billiard á laugardaginn, það þykir mér skemmtilegur leikur. Hvað var ég að forðast þetta í öll þessi ár? Svo spyr ég mig hvað verði næst; fótbolti eða keila? Þegar ég hef náð tökum á báðum þessum hundakúnstum tel ég víst að öll helstu sálfræðilegu íþróttavígi mín séu fallin og ekki annað eftir en að fara í framboð til forseta.

fimmtudagur, október 21, 2004

Fita sést ekki í myrkri

Í gærkveldi á milli 19.50 og 20.40 húktu tugir þúsunda manna í borginni Arkhangelsk við Hvítahafið í Norður-Rússlandi í svarta myrkri vegna rafmagnsleysis. Ekki er enn vitað um orsakir rafmagnsleysisins. Þegar myrkrið skall á var Anna Guðlaugsdóttir stödd í matvöruversluninni Polus og einmitt búin að velja sér múslí sem átti að hafa í morgunmat næsta dag. Þegar ljósin slokknuðu og svartnættið færðist yfir borgina taldi hún víst að þetta væri undanfarinn að hryðjuverkaárás og lagði því múslípokann frá sér í snatri og hlustaði eftir mögulegum öskrum eða byssuskotum, sem gætu bent til slíks. Í ljós kom þó að ekki var um hættuástand að ræða. Anna fór því heim á hótelið, sat þar í niðdimmri móttökunni og ræddi um Sovétríkin við aldraðan starfsmann hótelsins og beið þess að ljósið kæmi aftur. Þegar það gerðist fór hún inn á herbergið sitt, hringdi í móður sína og viðurkenndi að hana langaði heim.

Umrædd Anna er einnig mjög þreytt á því að sjá mittismál sitt og almennt ummál aukast dag frá degi, og er komin með viðbjóð á rússneskum mat.

þriðjudagur, október 19, 2004

Hrikalegt lakkrísát er þetta.
Hvernig setur maður tengla inn á bloggið sitt, svona við hliðina á sjálfum textunum? Spyr sú sem ekki veit...

Og fyrst ég er komin í þennan ham, vil ég setja stórt spurningarmerki við auglýsinguna frá herbalife, sem má sjá að t.d. visir.is og mbl.is, sem ber heitið "Ertu mamma?" Þar er öllum mömmum bent á að vinnustaður innan fjögurra veggja heimilislífsins sé þeim og fjölskyldunni fyrir bestu, því þá geti þær nefnilega líka sinnt börnunum. Hvernig væri að auglýsingin héti einfaldlega "Ertu foreldri?" Veit ekki betur en að feður Íslands og feður almennt hefðu bara gott af því að vera heima með börnunum sínum, alveg jafn mikið og mæðurnar!!! Svo finnst mér líka hreinlega verið að gefa í skyn með svona auglýsingum að vinna kvenna og staða þeirra á vinnumarkaðnum sé ómerkari en vinna karla, og þær geti þá alveg eins verið heima hjá sér að selja herbalife á netinu, svona milli skúringa og skeininga.


Djöfulsins geðveiki

Það er ekki alltaf leikur einn að alast upp hjá einstæðu foreldri. Það held ég að allir með slíka reynslu geti að einhverju tekið undir. En í dag er ég engu að síður þakklát fyrir það að hafa alist upp hjá henni mömmu minni, því hún innrætti mér að minnsta kosti að sjálfstæðan hugsunarhátt og að meta eigið frelsi og tíma. Það er nokkuð sem konur í þessu landi þyrftu að taka til sín. Ef ég á að miða við þá karla sem ég hef séð hér á götum úti, fæ ég ekki betur séð en að hverri konu sem er væri betur komið án slíks manns, og hugsunarhátturinn hjá þessum mönnum! Hér í morgun var enn einn slóðinn að svipta af sér sauðargærunni og sýna úlfssmetti sitt, og sannfæra mig ennfremur í þeirri skoðun minni að ég muni aldrei, aldrei giftast Rússa. Hann Dima, sem vinnur á auglýsingaskrifstofu hér á ganginum (við erum að vinna verkefni með honum og hann kemur því oft við hér á skrifstofunni okkar) lét þau orð falla af sínum vörum að "jújú, það er ágætt að eiga kærustu, maður getur búið hjá henni og hún borgar leiguna og eldar svo ofan í mann!" AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAA
AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAA
AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAarhgggghg
ghgggghhhhhhhhhhhhhhhhh!!!!!!!!


Ég hristi höfuðið í hryllingi og hneykslan og sagði honum að svona aumingjaskapur væri akkúrat það sem sannfærði mig í því að ég þyrfti ekki á svona kjaftæði í lífi mínu að halda. "En er ekki gaman að eiga kærasta", sagði hann þá brosandi. "Jújú, vissulega er það gaman - fyrst. En það er líka yfirleitt bara fyrst", svaraði ég bitur en þó staðföst.

Svo hreinlega ofbýður mér bara að heyra um allt þetta "heimilið er vinnustaður konunnar" "karlmenn eiga alltaf að borga fyrir konur (í rauninni þýðir þetta "konan er eign karlmannsins") "það er konum eðlislægt að fórna öllu fyrir karlmenn og ástina" og þarfram eftir götunum.....AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAaAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAa
AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAA
aaaAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAARRRRRRRRRRRRRRRRR
RRRRRRRRRRGGGGGGGGGGGGGGGGHHHHHHHHHHHHHHHHHH!!!!!!!!!!!!!!!!!

Ég held að ég missi vitið af því að hlusta á þetta þvaður alla daga út og inn. En til þess er víst Norðurlandaráð að vinna hér, til að fá einhverju breytt.

mánudagur, október 18, 2004

Pa-rússkí!!

Það er alltaf áhættusamt að fara í klippingu, sérstaklega hér í landi. ég lagði sem sagt út í slíkar aðgerðir á laugardaginn eftir Pilatestímann og fór á hárgreiðslustofuna við hliðina á Afródítu. á meðan ég sat í stólnum var hávaxni sæti strákurinn sem alltaf er að lyfta á Afródítu sívaðandi inn og út af hárgreiðslustofunni, og í hvert skipti sem lét sig hverfa hófust miklar umræður um kosti og galla hins unga manns. Ég varð þess vísari að hann héti Vova, væri 23 ára og tannlæknir að mennt, og sætari en Maxim. Svo klippti hárgreiðslukonan mig á mjög svipaðan hátt og hún sjálf var klippt - not good. Þegar aðgerðin var yfirstaðin var ég með mjög hárkollulegt hár og núna er toppurinn á mér mjög stuttur og ég er eiginlega ekki viss hvað mér á að finnast um þetta útlit mitt. Vonandi að þetta vaxi eðlilega úr sér. Og svo vissi ég ekki fyrri til en að það var búið að ginna mig í handsnyrtingu. einhvern tímann er allt fyrst.

Sænski ræðismaðurinn er væntanlegur eftir 50 mínútur. Elena er búin að vera á þönum í allan dag að kaupa kex og brieosta, stinga gulum blómum í bláa Ikeavasa og undirbúa komu mikilmennisins sem best. Ég bíð spennt.

fimmtudagur, október 14, 2004

Mér líst æ verr á þessa eróbikk hugmynd mína því sem nær dregur. Planið er að fara í dag, sjá hvernig mér líst á þetta og kaupa svo mánaðarkort ef þetta er þolanlegt helvíti.
Samt finnst mér eróbikk leiðinlegt. En það er sem sagt um tvennt að velja. Fara í eróbikk og þar með væntanlega minnka fitusöfnun, eða ekki fara í eróbikk og þar með leyfa fitusöfnun að eiga sér stað að mestu leyti óhindrað. Ó mig arma.

Hinsvegar er ég orðin Project Coordinator fyrir íslensku ljósmyndasýninguna og menningarlegur tengill fyrir ýmis "Íslensk" verkefni sem munu eiga sér stað hér í bæ á næstkomandi mánuðum, sem á auðvitað að básúna í öll blöð og lókal sjónvarpsstöðvar. Og von á afar hæstvirtum sænskum embættismanni hingað á mánudaginn. Það verður víst eigi hjá eróbikki komist. Og fara í klippingu...en það telst víst frekar til ánægju en hitt. Ó, ó, ó. Hvenær ætli úrval líkamsræktar aukist í þessu landi? Sjálfsagt ekki fyrr en eftir áramót.

miðvikudagur, október 13, 2004

Á helstu fréttavefjum að dæma virðist sem íslamskir bókstafstrúaðir öfgahópar sem og tétsénskir skæruliðar séu að dreifa sér um hinn gjörvalla vestræna heim. Al-Kaída komið til Danmerkur og svona. Vinalegt bara. Hér í norðri hefur til allrar hamingju orðið lítið vart við hryðjuverkjabylgjuna ógurlegu, reyndar fannst efni til sprengjugerðar og múslímsk öfgablöð í sumarbústaðnum hjá einhverjum Dagestana ekki langt frá Arkhangelsk. Hann hefur verið svona einn að rísla sér við að búa til flugelda, ætli það ekki.
En áns alls gríns finnst mér þetta færast nær og nær. Maður spyr sig hvenær fyrsta árásin á Danmörku muni eiga sér stað?

En sláum á aðra strengi...tókst loksins að hafa upp á pöbb/kaffihúsi sem var gaman að vera á, skrapp nefnilega með henni Lísu á mér áður óþekktan stað sem heitir Traktír í gærkveldi. Þessi staður var bæði hyggelig og billig og ekki leiðinlegur með ljótri innréttingu og teknótónlist. Við fengum okkur að borða og nokkra bjóra og það var allt gott og blessað, nema að þjónustustúlkan (sem virtist vera á fermingaraldri og hét reyndar líka Anna) barði mig í höfuðið með disk sem hún var að rétta yfir borðið, og var svo það ósvífin að hlæja að mér og segja MÉR að passa mig. Annars get ég ekki sagt annað en að mér hafi litist vel á þennan stað og ætlum við að fara þangað aftur um helgina og aldrei að vita nema við fáum okkur snúning. Sá ekki betur en að þarna væri eðlilegt fólk á okkar aldri.

Enda var ég orðin desperat í gær eftir að sjá eitthvað annað en herbergið mitt og vera samvistum við einhvern annan en persónurnar í Önnu Karenínu. Þessi bók er að verða mín önnur tilvera.

mánudagur, október 11, 2004

Það virðist sem eigi verði kveikt á miðstöðvarkerfi þessarar byggingar í ár. Frost er úti, fuglinn minn, og mér er alveg jafn kalt og þér.
Já, veturinn er kominn hingað til Arkhangelsk og fyrsti snjórinn féll á fimmtudag eða föstudag. Ég hef því fest kaup á hvítri (mjúkri og dejlig) derhúfu, eða kasketi eða pottlok...ekki alveg viss hvernig eigi að skilgreina þessa húfu. En hún er í alla staði fögur og ég líkist æ meir "a local person". Spurning um að fara bráðum að skipta um eftirnafn, Kruglova, Petrossova...nei djók. Kemur ekki til greina.

Spjallaði við Ivan (exinn) á msn um daginn. Hann var sem endranær nýstaðinn upp úr rúminu eftir veikindi. Haha, maður spyr sig hvar ég hefði endað hefðum við verið áfram saman. Kannski sem einkahjúkrunarkona. En hann var að öðru leyti hress, baktalaði aðra íbúa hússins og svona, allt við það gamla. Spurði reyndar ekki hvort hann væri kominn með nýja, geri það næst.
Ég er sko ekki kominn með nýjann. Er farin að efast um að hér sé nokkuð karlkyns sem ekki er haldið áfengis/spila/ofbeldissýki eða með vafasama atvinnu/menningarbakgrunn. Sumir virðast haldnir öllum einkennum. Og til að undirstrika enn fremur stöðu mína sem einhleyp ung kona á framabraut, fór ég algerlega spontant í bíó í gær, með blauta og kalda fætur og innkaup í poka. Ostinum og mjólkinni varð þó ekki meint af bíóferðinni þar sem hitastig í salnum var rétt við frostmark. Þetta fór hinsvegar ekki vel í tær mínar, sem voru helfrosnar lengi vel á eftir.

Myndin sem ég skellti mér svona fyrirvaralaust á var The Village eftir hann Shyamalan. Hann má nú alveg fara að koma með smá nýbreytni. Alltaf sömu leikararnir, fólk úti í skógi í hvítum skyrtum með vasaljós og skrímsli sem eru sýnd í eitt augnablik ...ok, reyndar ágætis formúla en einhvern veginn fannst mér að ég hefði séð þessa mynd áður. Joaquin Phoenix var auðvitað augnayndi mikið, en mér fannst leikur almennt ekkert magnaður og handritið hálf..svona á tjá og tundri pínu. Endirinn samt sniðugur, kom mjög á óvart en ég er að sjálfsögðu ekkert að ljóstra honum upp hér.

fimmtudagur, október 07, 2004

Allt schnarbrjálað að gera í vinnunni. En það er samt gaman. Mig langar að eiga nafnspjald til en grunar að traineesum sé ekki boðið upp á slíkan lúxus. Hinsvegar er boðið upp á að vera sífellt að háma í sig kex og drekka te á meðan að maður slær leyndardóma af ýmsu tagi inn á tölvuna og veit ég ekki hvað Manneldisráð myndi segja ef þeir vissu af þessu.

í gær var ég í afmælisboði hjá Önnu Sigrúnu og Daníel kærastanum hennar. Þau eru frá Noregi og eru skemmtileg. Anna Sigrún varð 26 ára og af því tilefni gaf ég henni bókina Miso súpa eftir japanskan höfund að nafni Murasaki, þessi bók mun víst vera Glæpur og Refsing samtímans.

Í afmælisboðinu voru allra þjóða kvikindi og þar á meðal Rússi sem vissi allt, og þá meina ég allt. Hann vissi meira að segja hvað öll bundeslöndin í Þýskalandi heita, ég hef nú ekki heyrt minnst á þessi bundeslönd í svo mörg ár að ég man ekki einu sinni hvað þau heita á íslensku. Hinn ungi Slavi lét svo í ljós afar neikvæða skoðun sína á Sex in the City, að þetta væri bölvaður þvættingur um siðlausar kvensniftir sem lifðu tilfinngalausu gjálífi og hverri siðavandri stúlku væri hollast að slökkva á tækinu þegar ósóminn færi af stað. Viðstaddar siðlausar stúlkur tóku að sjálfsögðu andköf og hófu mikil mótmæli, ég spurði hvað honum hefði fundist ef þátturinn hefði verið um karlmenn. Hann sagði þá að karlmenn myndu bara aldrei haga sér svona, ég sagði þá að allir myndu haga sér svona ef þeir hefðu tíma, efni og möguleika á því og hann svaraði þá að karlmenn myndu bara aldrei tala svona mikið um hjásvæfur sínar. Ojæja.

þriðjudagur, október 05, 2004

Ertu ekki að kynda Braga Reyni. Hrikalega er kalt á þessari skrifstofu. Getur það talist eðlilegt að ekki sé enn búið að kveikja á miðstöðvarhitanum þegar komið er fram í október? Króknikrókn.

Hinsvegar er kynt hvað mest má á TsentrInn, þar er nú bara eins og í gufubaði.

Prinsar ok froskdýr

Það virðist ekkert lát vera á fljúgandi kykvendum í þessari herbergiskytru minni. Undanfarna þrjá daga hefur feit og pattaraleg fiskifluga haldið fyrir mér vöku og truflað mig á alla lund með brjálæðislegu suði sínu og sveimi. Ég held að henni finnist alveg jafn óþolandi að vera lokuð inni og mér finnst að hafa hana í heimsókn. Kann samt ekki við að klessa hana, svo ógeðslegt allt svona skordýrajukk. Það er víst ekki annað að gera en að bíða eftir að hún hrökkvi upp af. Er reyndar að íhuga að flytja úr hótelinu upp á sjálft kollegíið, þarf aðeins að kanna það mál betur.

Málþinginu lauk vel í gær og kom ég fram undir lokin og sagði skoðun mína sem var einhvern veginn svona "all very interesting...especially for me as a newcomer..."so many new contacts...thank you on behalf of Nordic Council of Ministers.." og þar fram eftir götunum. Svo veit ég ekki hvað ég má segja meir vegna þagnarskyldu minnar. En ég náði amk koma sjálfri mér á framfæri (hef náttúrulega ágætis reynslu í því eins og sjá má á myndum í fjölskyldualbúmum) og fá nafnspjöld ýmissa mikilvægra persónna. Því miður hef ég ekkert nafnspjald sjálf, ef svo væri hefði ég sko aldeilis deilt því út á báða bóga. Þar að auki get ég með sanni sagt að þetta málþing var í raun og veru mjög áhugavert. Fékk að túlka bæði opinberlega og óopinberlega og það gekk bara vel, reyndar betur þegar það var óopinberlega, soldið stressandi þegar er fólk að horfa á mann.

Fór svo á skauta á sunnudaginn! Það var nú gaman...er að spá í að kaupa mér skauta og verða skautadrottning.Lísa er svo mikið krútt...kynntumst samt engum prinsum þrátt fyrir áætlanir okkar. Fórum svo á kaffihús um kvöldið og þar var atvinnuleysingi einn sem reyndi við okkur. Hann var kannski prins í dulargervi, ekki gott að vita.
Hinsvegar er ég kannski bráðum að fara í heimsókn til armeníska kærastans hennar Zaríönu (og litla bróður hans), með henni auðvitað. Nú erum við öll búin að bíða heillengi eftir því að pabbi þessa tveggja fullorðnu manna á þrítugsaldri drulli sér heim til Armeníu svo að ungu mennirnir geti komist út úr húsi og hitt fólk, og boðið okkur í heimsókn. Þeir mega víst ekki gera neitt þegar hann sér til eða veit af. Ótrúlegt alveg. Maður giftir sig víst ekki inn í slíka fjölskyldu.

föstudagur, október 01, 2004

All very interesting

Var á fyrsta seminarinu mínu í dag (heitir það kannski málþing á gullaldarmálinu?) og sagði, yes yes, very interesting nokkuð oft. Seminarinu/málþinginu lýkur svo á mánudaginn og á ég að segja þar nokkur orð til að ljúka fundi. Og svo taka þátt í blaðamannafundi sem fulltrúi Norðurlandaráðs. Jeremías minn.

Annars er það helst að frétta héðan úr landi að ég hef tekið eftir þvi við fréttalestur (hluti af starfi mínu) að tilhneiging morðingja hér í landi til að búta fórnarlömb sín niður fer vaxandi. Það líður varla dagur án þess að finnist líkamshlutar ýmsir í ruslatunnum, töskum, krukkum, ofan í brunnum eða jafnvel á götunni. Heimur versnandi fer. Jæja, þarf að drífa mig á tónleika í tónlistarskóla fyrir börn.