blog... the modern person's cry for attention

mánudagur, ágúst 29, 2005

Mín ástkæru systkini komu í dag og höfum við eytt deginum í góðu yfirlæti hér í borg. Við systur erum alveg óvart með nákvæmlega eins klippingu og háralit. Svo er ég búin að kaupa miðann heim um jólin (takk mamma) og koma mín til Íslands væntanleg þann 22.desember klukkan korter í þrjú.

laugardagur, ágúst 27, 2005

Hérmeð lýsi ég eftir fróðum einstaklingi sem getur kennt mér að setja myndir inn á bloggið mitt (og helst vel efnuðum, svo hann/hún geti splæst á mig digital myndavél). Þetta gengur ekki lengur, og nei, ég vil ekki sjá þetta Hello kjaftæði sem lagði fínu tölvuna mína undir sig og dúkkaði upp í tide og utide.

1. Lá í rúminu þar til klukkan var farin að ganga tvö.

2. Í vikunni hafa fleiri spurt hverjum ég sé gift og hvort við eigum börn en í hvaða bekk ég sé í. Framfaramerki mikið, kannski eru farnar að koma hrukkur? Svo er ég búin að heyra nokkrum sinnum að ég sé með slavneskt útlit og líkist Rússa fremur en Íslendingi. Ég er nú ekki svo viss sjálf, en á víst bara að tage det som en kompliment, eins og nágranni minn Micha Stern sagði í gær í víetnamska hommapartíinu (hann var þar af óvissum orsökum).

Skemmtanalíf mitt er að engu orðið. Var fyrst heima hjá Nönnu Elízu, svo fórum við á Jósefine's (lúserbar nr.1), og þaðan tóku ungir menn ákvörðun um að fara á FairPlay, sem reyndist meiri lúserbar en Píanó á slæmum dögum. Eftir þá raun var farið í mjög undarlegt einkapartí þar sem ég hitti gaur frá ganginum mínum og hraktist svo út þegar víetnamskur hommi tók að spyrja út í ölvunarstig mitt. Nú er klukkan rétt yfir þrjú og kæró er því miður ekki online. Já, svona patetísk er ég. Anna Hera og Anne, komiði sem fyrst heim. Ég fæ ekki séð að þessu sé við bjargandi án ykkar.

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Átta rauðar rósir

Kærastinn minn er ótrúlegur. Í gær var ég að vola utan í honum á msninu, sagðist illa þjáð af leiðindum og einmanaleika án hans, og þegar ég kom heim úr vinnunni áðan stóðu átta rauðar rósir og með þeim lítil kveðja fyrir utan dyrnar mínar. Ef þetta er ekki rómantík, þá veit ég ekki hvað það er.

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Ég fæ miklu minni pening á morgun en ég bjóst við, nefnilega bara fyrir eina viku. Þá fæ ég vonandi meira eftir tvær vikur. Er að reyna að róa mig og sættast við þá staðreynd að ég geti ekki keypt mér bláa bolinn í Vila fyrr en seinna, og ekki fyrr enn ég fæ meira útborgað. Mjög passandi er ég að horfa á drPhil, og þema dagsins er: fjármál. Nú er einmitt verið að segja að í dag gildi allt aðrar reglur um einkafjárhaginn en í gamla daga, þarf sem var nóg að vinna eins og heiðarleg manneskja og borga reikningana. Nú er allt orðið flóknara og miklu snúnara og þarf ekki nema eitt lítið feilspor til að lenda í gjaldþrotsgryfjunni. Mér líst ekki á stefnu mála.

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Var í fríi í gær og nýtti þann daginn til að skúra og skrúbba höllina hátt og lágt, enda var orðið nett ólystugt hér inni. Nú er t.d. minn eini gluggi svo hreinn að þvottastatífið speglast í honum. Alltaf má þó betur um bæta, er svona að spá hvort ég ætti að rífa gardínurnar niður og skella þeim í vél. Svo held ég að sé bara útlit fyrir annan frídag í dag...sko, ekki hringdi ComfortCare í mig núna í morgun, og ég var hálfpartinn búin að mæla mér mót við Lenu í kvöld. Svo ég er að spá í að slappa af og gleyma peningaáhyggjum mínum í einn dag og eiga líka frí í dag. JÁ ÉG VEIT, ég þarf alltaf að ræða og réttlæta allar ákvarðanir mínar við sem flesta áður en ég get tekið þær í sátt.

Svo var næst seinasti Topmodel í gær. Þetta er farið að verða spennandi - ætli það verði hin blinda Amanda sem vinnur þetta? Hinar tvær eru jú svartar og önnur þeirra pínulítil frekja, en hún gæti þó alltaf orðið lágvaxonn arftaki Naomí. Annars finnst mér alltaf fyndið hvernig er snúið upp á staðreyndir lífsins í amerísku sjónvarpi:

Amanda: "I'm legally blind, so it's very hard for me to read the streetsigns..." Mér þætti gaman að spjalla við þessa dömu og heyra hversu mikinn mínus hún er með, í fyrsta lagi er hún alltaf með voða sæt gleraugu sem geta ekki verið sérstaklega sterk, þar sem að augun í henni eru nákvæmlega jafn stór bak við glerið og þau eru annars. Í öðru lagi er ég líka mjög nærri því að vera "legally blind", og það hefur hingað til ekki hindrað mig í að ferðast utan dyra.

Annað dæmi sem ég hef hugsað mikið um....Þegar Hilary Swank er lögst í lamasess í Million Dollar Baby, talar Eastwood um að það hafi tekið starfsfólkið á umönnunarheimilinu marga klukkutíma að fá hana á lappir á morgnana (þ.e.a.s. yfir í hjólastólinn)! Hver einasta manneskja sem hefur komið að umönnun veit að það tekur aldrei meira en í allra hæsta lagi 1 1/2 klukkutíma að koma fatlaðri manneskju á fætur, og ég myndi giska á enn styttri tíma í svona tilfelli eins og í myndinni. Svo má spyrja sig hvers vegna svona fínt og nútímalegt heimili bjó ekki yfir eins og einni Saritu eða lyftara til að lyfta sjúklingunum...

Jæja, en þetta var bara smá nöldur frá manneskju sem veit betur...

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Gurruvegur

Í dag var ég að hjóla á Gurruvegi (Gurrevej) í Avedöre. Árvökul augu mín fundu þó hvergi Gregenvej neins staðar.

laugardagur, ágúst 20, 2005

Pælingar

Ég er búin að ákveða að skammhlaupið í heilanum á mér (sjá fyrir neðan)sé til komið af notkunarleysi hins bilaða apparats (heilans). Síðan um miðjan maí hef ég ekki litið í eina skynsamlega bók, legið í rússneskum rithöfundum og dömublöðum, horft á Bráðavaktina og Simpsons í óhóflegu magni, röflað við gamlingja og lakkað á mér neglurnar. Til allrar hamingju kemst ég aftur í skólann í september...lífið kemst aftur í réttar skorður um næstu helgi:

- Anna Hera kemur heim.

- Anne kemur heim frá Kosovo/Beograd þar sem hún er í augnablikinu að digga við e-n Serba.

- Partí hjá Ditte á föstudeginum.

- MGU (Moskovskii Gosudarstvenni Universitet=Ríkisrekni Háskólinn í Moskvu) Reunion á laugardeginum: endurfundir við skólafélaga og þar með hægt að komast í skólastemningu.

- Mánuður í Miguel - JÚHÚ eins og guttinn myndi segja.

- Systkini mín koma í heimsókn á sunnudeginum...eða mánudeginum (þarf að koma þessu á hreint).

- Það kemur endanlega í ljós hvar og hvernig ég mun sjá fyrir mér fram að áramótum (og vonandi fæ ég svar frá helv. SU-skrifstofunni).

- og svo ætti ég kannski að fara að fjárfesta í flugmiðanum heim um jólin...

Heilabilun.is

Ásta vinkona hennar Tinnu var að flytja inn á ganginn minn. Það eru ágætis fréttir, enda ágætt að hafa heimafólk hér nálægt. Nema hvað að ég hélt í heila viku að Ásta væri allt önnur manneskja, s.s. Erla sem bjó við hliðina á mér í Álfatúninu og lék við litlu systur mína. Hvaðan mér kom í hug að Erla væri flutt hingað til Kaupmannahafnar og farin að lesa jarðeðlisfræði má Guð einn vita, en mér fannst ég endilega hafa heyrt eitthvað um þetta frá Hallgerði. Ég rakst á Erlu/Ástu fyrir viku síðan hér fyrir utan, og var þá nokkuð hissa á hvað stúlkan hafði mannast og breyst, og bauð henni allrar náðarsamlegast að hafa samband ef að hana vantaði aðstoð! Ásta var alveg hissa á þessum kuldalegu viðtökum, og hið ópersónulega viðmót hélt svo áfram alla vikuna, því alltaf fannst mér hún vera þessi Erla.
Í gær var ég svo að fara að grilla með Alexander og Nönnu, og rakst þá á "Erlu", og bauð henni að koma og vera með úti í garði. Svo fór eg út og útskýrði fyrir krökkunum að gamli nágranninn minn væri að koma, svona væri heimurinn lítill, við hefðum alist upp í sömu götu og nú værum við orðnar nágrannar aftur. Þessu er ég meðal annars búin að básúna í gud og hvermand undanfarna viku.
Svo kom "Erla" út, og það var ekki fyrr en daman kynnti sig að upp rann fyrir mér ljós. Ég hélt ég yrði ekki eldri. Eftir stutta íhugun um hvort ég ætti að svipta hulunni af þessum ruglingi, ákvað ég að það væri best að útskýra málið. Ásta móðgaðist til allrar hamingju ekki, hún hefði þó svo sannarlega átt fullan rétt á því. Hitt er annað mál að ég er farin að hafa miklar áhyggjur af heilastarfsemi minni.

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

HRESSANDI ÞETTA VEÐUR

Í gær var heitt og mollulegt og ég var að bráðna. Þess vegna fór ég í sandala og ekki í peysu undir jakkann í morgun. Þar urðu mér á mikil mistök, því ég er búin að vera að krókna í allan dag. So much for global warming.

Var að vinna í Friheden í dag, og það er sko niðurdrepandi úthverfi der vil noget. Ég var að leka niður úr þreytu eftir kvöldvaktina í gær, enda þarf að rísa snemma úr rekkju til að komast til úthverfa Kaupmannahafnar. Því lufsaðist ég um allt Suður-Hvidovre með úfið hár, berrassað og fitugt andlit og þurfti ýmist að pissa, drekka vatn eða borða. Þegar skemmtidagskránni lauk um eittleytið tölti ég, gjörsamlega búin á því, upp á Friheden station og beið þar í hálftíma eftir lest sem ekki lét sjá sig. Á endanum var mér nóg boðið og ég tók nr.18, sem stoppaði fyrir neðan stöðina (auðvitað of langt til að hægt væri að ná lestinni ef til kæmi), og ekki var ég fyrr sest upp í vagninn fyrr en tók að suða kunnuglega í lestarteinunum. Þá var auðvitað of seint til að hlaupa aftur upp á pall og ég sat sem fastast. Fimm mínútum seinna sofnaði ég og raknaði ekki úr roti fyrr en neðst á Falkonér Alle, komin framhjá metróinu og mátti aka með inn á Nörrebro og taka þar 5A. 5A ekur um miðbæinn og er þarafleiðandi ekki hraðskreiðasti vagninn í bænum. Það tók mig einn og hálfan klukkutíma að komast heim til mín - ferðalagið til Hvidovre í morgun tók hinsvegar 40 mínútur.
Svo það er ekki einungis SVR sem er að missa sig, DSB mættu alveg fara að taka sér tak.

Annars get ég sagt frá því svona í lokin að grámóskan og kuldinn úti eru að drepa mig.

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Ó borg mín borg

Um helgina er ég búin að vera að vinna i Hvidovre, úthverfi u.þ.b. 8 kílómetra frá heimili mínu. Ekki er það frásagnarvert í sjálfu sér, nema það að á ferðum mínum þangað og tilbaka hef ég uppgötvað alveg nýja Kaupmannahöfn. Hvidovre er svosem ekki það spennandi, en voða krúttulegt með litlum húsum og fallegri tjörn, þar sem endur, svanir, dúfur, máfar og tveir hegrar hafast að. Ofan af tjörninni kemur svo miður skemmtilegt háhýsahverfi þar sem er álíka notalegt og í grotnum pappakassa.

Á leið heim í dag ákvað ég svo að fara ekki beina leið heim, heldur beygði inn í Vigerslev, næsta hverfi við Hvidovre, og hjólaði þar í gegn þar til að ég var allt í einu komin beint inn á aðalgötuna í Valby. Ég var alveg hlessa, hef satt að segja aldrei haft á hreinu hvar þessi blessaði Valby væri nákvæmlega, og mikið lifandis ósköp leist mér vel á mig þarna. Ég get vel séð mig fyrir mér í þessari paradís í framtíðinni, þetta var svo vinalegt og fallegt allt saman. Áfram hélt ég framhjá gróðursælum görðum og kyrrlátum múrsteinshúsum, litlum skemmtilegum búðum og líflegum gangstéttarkaffihúsum, og var svo bara ...alveg allt í einu komin inn á Vesterbrogade, þ.e.a.s. efsta hlutann af Vesterbrogade, en þangað hef ég held ég bara aldrei komið. Þar tók sama dýrðin við og ég hjólaði opinmynnt áfram og hægði aðeins á mér til að njóta ferðarinnar. Kaupmannahöfn er sannarlega ótrúlega falleg borg, sérstaklega ef maður kemst út úr miðbænum og inn í hverfi sem maður á kannski annars aldrei erindi í - að miðbænum alveg ólöstuðum. Hér er ég búin að búa í þrjú ár og er ekki nærri því búin að fá leið á því sem fyrir augu ber, þvert á móti heillar það mig meir og meir.

föstudagur, ágúst 12, 2005

Mér leiðist. Kærastinn er á Spáni, flestir vinir mínir eru staddir annars staðar en hér, og þeir sem eru hér í bæ svara ekki í símann. Skyldi maður þá ekki ætla að ég hefði nógan tíma til að sinna áhugamálum og frístundum?
Jú, það er svo. En án mennsks félagsskaps tekur minn áhugi á slíku að dofna. Reyni að hringja í Nönnu áður en ég fer að vinna í dag.

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Sá á blogginu hennar Sifjar að Ásdís væri búin að eignast strák - meiri dugnaðurinn!!! Flott hjá ykkur krakkar, keep up the good work! Stefni sjálf á að bætast í hóp nýbakaðra foreldra innan fárra ára, en það verður að bíða betri tíma eins og er.

En eins og ég segi, til hamingju snúllan mín og auðvitað hamingjuóskir til Halldórs líka!

Jájá. Sumarið bara búið hér í DK og vi forbereder os på endnu en lang vinter, eins og C.V.Jörgensen söng forðum daga. Ætla að nota tímann sem ég hef í dag fram að vinnu í að hygge mig og hringja í fólk.

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Í gær brugðum við Alexander okkur í bæinn, allt of langt liðið síðan seinast, og eftir að hafa vaðið í villu og svíma meðal kynvillinga, kynskiptinga og klæðskiptinga á þar til gerðum öldurhúsum, enduðum við á Australian Bar. Allir við innganginn voru á að giska átján ára gamlir, og við spurðum miðasölukonuna flissandi hvort við værum of öldruð til að fá inngöngu. Hún svaraði sem svo að við myndum eflaust hækka meðalaldurinn þarna inni verulega, og við veltumst hæandi og hóandi inn í Sódómu æskunnar. Eiginlega er ég nokkuð ánægð með þetta svar konunnar, við þurftum ekki einu sinni að sýna skilríki sem er annars fastur og óskemmtilegur liður bæjarferða minna. Það er nefnilega svo að öllum finnst ég líta út fyrir að vera 17-18, ein gamla konan í vinnunni (kannski ekki marktækt, en samt) hélt að ég væri 16 ára!! Ég ætti kannski bara að taka þessu sem hrósi en mér líkar þetta ei. Þetta reyndum við ákaft að útskýra fyrir tveim unglingspíum í gær, og rákum smettin eins nálægt þeirra sléttu smettum og mögulegt var, til þess að sanna að "jo, vi har altså rynker!!" Við erum kannski bara klikkuð, a.m.k. var horft þannig á okkur.

Nú ætla ég að fara til Alexander og horfa á þynnkubíó og borða grænar ertur og drekka vatn, svona til að hreinsa skrokkgreyið mitt.

mánudagur, ágúst 08, 2005

Í gær gerði ég samning við sjálfa mig um tvö atriði.

1. Ekkert óþarfa glingur eða föt verður keypt í þessum mánuði. Ekki svo gaman, en sjálfsagt fyrir bestu.

2. Það er ekki þörf á að vinna meira en eitt húsverk á dag (fyrir utan daglega hluti eins og að þvo upp, elda, fara út með ruslið og svoleiðis). Fargi er af mér létt við þetta. Veit ekki hvernig fólk fer að því að eiga börn og hafa samt alltaf allt gljáandi hreint.

Ég byrja í nýju vinnunni á morgun. Hún felst í því að mæta eldsnemma í úthverfum borgarinnar og fara þaðan um víðan völl að sinna lókal gamlingjum. Á morgun fer ég t.d. til Söborg. Þar átti Ivan heima. Um helgina á ég að fara til Hvidovre. Svo kemur í ljós hvað gerist restina af vikunni. Topmodel 3 í kvöld, júbbí!!

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Eins gallhörð singla og ég var nú fyrir átta mánuðum síðan....þá virðist það hafa skolast út síðan ég komst á fast. Mér hreinlega leiðist að hafa kærastann minn ekki hjá mér. En það er kannski ekki slíkt sem ungar og sjálfstæðar konur eiga að láta út úr sér.

Meðal annars: lenti á Ívan, hinum danska ex, á msninu rétt áðan (logga mig á í þeirri trú að nú muni ég eiga rómantískt rafrænt spjall við mann drauma minna, og þá stinga draugar fortíðar upp kollinum), og mig grunar hálfpartinn að hann gæti hafa misskilið eina setningu mína sem daður. Til umræðu var fyrirliggjandi partí í kollektívinu þar sem hann bjó og ég sagði :

"nå men jeg kommer ihvertfald til den fest, hvis du er der".

Átti ég þá við að ég kæmi til veislunnar sama hvað á dyndi, hvort sem hann væri kominn heim frá fríi í Búlgaríu eður ei. Hann fór þá strax að segja að við gætum þá haldið spjallinu áfram þar og að hann yrði nú aldeilis orðinn brúnn og sætur þegar þar kæmi sögu. Sussubía.

En hvað um það. Þessi afleysingaskrifstofa sem ég réði mig hjá er ekki enn búin að láta mig fá vaktir fyrir þriðjudaginn. Ef að ég verð ekki enn búin að fá vaktir á miðvikudaginn ræð ég mig eitthvað annað. Ætla sko EKKI að láta afleysingaskrifstofu eyðileggja fjárhag minn eins og fyrir tveimur árum síðan.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Var að lesa bloggið hennar Ásdísar. Varð mjög abbó yfir barnastandi hennar og þrái enn heitar að hætta að taka pilluna mína.

His boots are no longer by my door

Miguel er farinn til Spánar. Mér finnst það óraunverulegt. Mér finnst frekar eins og hann sé í Vanlöse eða í helgarferð eða hvað veit ég. Sannleikurinn er svo smátt að smátt að læða sér inn í minn morkna heila.

Í gær fögnuðum við sambandi okkar með því að fara út að borða á persískum veitingastað á Nörrebro, og maggi hvað þetta var gott!! Mæli eindregið með þessum stað, nánari upplýsingar fást hér. Svo fórum við á ýmsa bari og dönsuðum og dufluðum þar til við vorum orðin snældurugluð af öli og hringsnúningum. Nú er ég semsagt orðin grasekkja. Til allrar hamingju ráðum við bæði yfir nútímatækni og kreditkortum, svo vonandi lifum við þetta af. Hið jákvæða er að nú get ég horft á alla þá kjánalegu þætti sem mig langar til...jæja, það er kannski ekkert svo jákvætt.

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Það er óþolandi að sækja um kúl vinnur og fá þær svo ekki. Það er vont fyrir sjálfstraustið. Og hver er það sem kallar sig redken hair color og skrifar kjaftæði sem athugasemd við dálkinn minn? Ó mig auma. Anna Hera, þín er sárt saknað hér í pölseland, komdu sem fyrst heim á Amager og við getum aftur farið að plaga barþjónana á kollegíbarnum um "mere R'nB". Veðrið er leiðinlegt en hinsvegar er ég í fríi næstu tvo daga og get því gert nákvæmlega það sem hjertet begærer.
P.S. Anna, þetta krem sem þú gafst mér...ertu viss um að þetta sé ekki brúnkukrem? Ég þori ekki alveg að prófa þetta fyrr en ég er viss um hvaða efni leynast í hinni glitrandi kvoðu...

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Ástmaður minn yfirgefur þetta land á föstudaginn. Mér er um og ó. Til allrar hamingju er hann búinn að kaupa ferð hingað þann 28.september og mun hann þá dveljast í dyngju minni heila sjö daga. Þangað til neyðumst við víst til að þreyja þorrann og góuna (þó þessi tími ársins kallist víst útmánuðir) með aðstoð msn og símakerfisins. SNÖKT SNÖKT.

Annars get ég sagt ykkur frá því að föstudagurinn seinasti reyndist hin besta skemmtun þegar á hólminn var komið. Nik og Jay voru reyndar ekki fyrirferðarmiklir í prógramminu, þar sem það var allt, allt of mikið af fólki og við máttum frá hverfa eftir tvö lög. Svo skunduðum við sem leið lá á Wall Street (plebbaleg búlla sem býður upp á ódýra drykki, pool og glymskratta), sem var ágætt þangað til Danir fóru að missa sig í 15 ára gömlu slögurunum. Ég þurfti ekki að vera ljóska með stórum hóp af latínóum, þar sem að þeir voru bara tveir, Miguel og vinur hans, Alejandro. Svo fórum við á Vertigo og létum þar öllum illum látum þar til að fór að síga á ógæfuhliðina í tónlistarmálum - hvað á það að þýða að spila Grease á skemmtistöðum árið 2005? Annars var mjög gaman þarna inni, ungur maður tók Miguel traustataki og bauð honum í dans og þeir stigu nokkur spor. Mikla athygli vöktu tveir eþíópískir pinnar af kvenkyni, þær gátu nánast ekki hreyft sig fyrir ágengni karlmanna sem vildu fá að leggja hönd á þeirra beinaberu læri og örmjóu mitti, og allt virtist stefna í vitleysu. Þá fannst mér sem vikublöðin og tískuhönnuðir hefðu endanlega sigrað. Pinnarnir hlykkjuðust þó út á sama tíma og við, en fóru þó ekki beint í MacDonaldsröðina (of course not).
Næsta dag vöknuðum við glöð og sæl, hrjáð af þorsta og höfuðverk, en ánægð með langþráða ferð á skemmtanagaleiðunni.

Er að spá í að fara í sund. Ég las í blaðinu í gær að það væri sérstaklega mikilvægt fyrir konur að styrkja vöðvana, þar sem að hrörnun og rýrnun líkamans hefst með miklu offorsi upp úr þrítugu, og það fer nú aldeilis að styttast í það...